Það er víst löngu liðin tíð að ég þurfi að hafa áhyggjur af því að höfuðhár mitt sé að flækjast fyrir, hvað þá að ég þurfi að setja teygju í pönkaraskottið sem ég skartaði síðla á síðustu öld. En ég get samt fundið not fyrir teygjurnar sem er brugðið um spólurnar af taumaefninu sem ég nota, þ.e. þegar taumaefnið er búið.

Þegar háfurinn dinglar á bakinu og maður er að brölta þetta í gegnum runna eða utan í stórgrýti, þá hættir netinu oft til að krækjast í eða festast. Þá er um að gera að vera með svona taumefnisteygju og bregða henni yfir handfangið á háfinum og smeygja netinu undir hana. Einfalt og gott ráð til að forðast þessar óskemmtilegu rasskellingar þegar háfurinn húkkast í og losnar síðan skyndilega.
Senda ábendingu