Kannast einhver við að vera staddur á veiðislóð, standa innan seilingar við næsta mann, vera með sömu fluguna, sömu línuna og jafn langan taum og horfa upp á veiðifélagann setja í hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ekkert, sko ekkert er að gerast við fluguna þína? Ég get tékkað í boxið við svona lýsingu. En hvað með það þegar einhver gaukar að þér hinni einu sönnu flugu, þeirri sem virkar og gefur langmest af öllum sem hafa blotnað á ákveðnum veiðistað, en gefur þér ekki eitt einasta nart?
Ég hef þá trú að veiðimaður verður að vera trúaður; trúa á fluguna sem hann beitir og trúa á sjálfan sig ef hann ætlar að veiða. Það sem meira er, veiðimaður verður að standa með sjálfum sér og hafa til að bera vænan skammt af sjálfstrausti. Nú kann eitthvert hörkutólið að spyrja hvað í andsk…… sjálfstraust hafi með veiði að gera og þá gæti ég sagt honum smá sögu frá því í fyrra sumar. Þannig var að ég fékk beiðni um að hnýta nokkrar laxaflugur fyrir erlendan veiðimann sem ætlaði að heimsækja Ísland. Það er afar langt því frá að ég hafi lagt mikla stund á að hnýta laxaflugur og það hvarflaði að mér svíkjast um og einfaldlega kaupa flugur. En, svo kíkti ég á nokkrar af þeim flugum sem helst voru að gefa í viðkomandi á. Sem áhugamanni um silungsveiðar fannst mér lítið til þeirra koma, svo það sé nú bara sagt. Í flestar þeirra vantaði allt glimmer, búkurinn lítill og mjór, allir vængirnir steyptir í sama mót og stærðin var nú ekki til að tala um. Ég lét slag standa, settist niður og hnýtti nokkrar flugur sem ég festi á korttappa. Sumar voru næstum alveg eins og fyrirmyndirnar, aðrar voru eitthvert klastur og … ég var hreint ekki trúaður á að nokkur fiskur liti við þeim. Ég fyllti þó á eitt box fyrir útlendinginn. Sumar flugnanna voru það sem hörkutólinn mundu kalla misþyrmingar þekktra flugna, þeir umburðarlyndustu hefðu sagt þær afbrigði en þeir jákvæðustu hefðu kallað þær nýjar flugur, en glott út í annað. Þegar til kom, þá harðneitaði ég að taka greiðslu fyrir þessar flugur, þetta væri bara eitthvað suðusúkkulaði, ekkert konfekt sem hægt væri að rukka fyrir. Hvort það hafi verið sama kvöld eða hið næsta, hlotnaðist mér sú ánægja að halda ræðu yfir þessum ágæta veiðimanni og næla í hann viðurkenningu fyrir maríulaxinn sem hann tók á eina af flugunum mínum. Hann hafði fulla trú á þessum flugum mínum og var afar sáttur við þær og maríulaxinn sinn.
Þetta var svolítið eins og steraskammtur fyrir sjálfstraustið, það óx um nokkur númer og ég fór að velta því fyrir mér hvernig hægt væri að plata fiskinn til að taka flugu sem væri allt öðruvísi en þessar svörtu + blá/grænu/rauðu. Hvernig var þetta fyrir 30+ árum síðan, var ekki verið að næla í fisk á maðk? Svarið fæddist í þvingunni, frekar óásjálega fluga sem ég faldi í lófa mér og lét ekki nokkurn mann sjá. Hnýtt á tvíkrækju #14, svört, brún og koparlituð.

Þegar færi gafst setti ég þessa flugu undir, renndi henni niður fyrir brot í ánni þar sem mér þótti líklegast að ánamaðkur hægði svo á sér að hann yrði fiski sýnilegur. Tvö rennsli og sjálfstraustið fékk búst af sterum, það voru ekki aðeins þessar nafntoguðu, svörtu og grænu sem gáfu hugsaði ég með mér þegar ég losaði fluguna úr og sleppti vænum hængnum.
Nú er febrúar alveg á næsta leyti, Febrúarflugur að hefjast og þá er um að gera að setja sitt mark á flugnaúrvalið, leyfa sjálfstraustinu að njóta sín og hnýta eitthvað eftir eigin höfði, nýtt eða breytt. Ef engar hefðu nýjungarnar orðið í gegnum aldirnar, þá værum við enn að veiða flugurnar sem Makedónumenn notuðu u.þ.b. árið 200 e.Kr.
„Þeir vefja krókinn skarlatsrauðri ull, áfestri tveimur fjöðrum sem vaxa neðan háls hanans og eru vaxlitar. Stöngin er sex feta löng, sem og línan. Leggja þeir tálbeitu þessa niður sem fiskurinn laðast æstur að lit hennar, kemur til móts og glepst af fegurð ásýndar veislunnar, opnar munninn og festist á króknum, kynnist biturð veislunnar, því hann er veiddur.“
Claudius Aelianus, De Natura Animalium






























