FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Sjálfstraust á sterum

    26. janúar 2025
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Kannast einhver við að vera staddur á veiðislóð, standa innan seilingar við næsta mann, vera með sömu fluguna, sömu línuna og jafn langan taum og horfa upp á veiðifélagann setja í hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ekkert, sko ekkert er að gerast við fluguna þína? Ég get tékkað í boxið við svona lýsingu. En hvað með það þegar einhver gaukar að þér hinni einu sönnu flugu, þeirri sem virkar og gefur langmest af öllum sem hafa blotnað á ákveðnum veiðistað, en gefur þér ekki eitt einasta nart?

    Ég hef þá trú að veiðimaður verður að vera trúaður; trúa á fluguna sem hann beitir og trúa á sjálfan sig ef hann ætlar að veiða. Það sem meira er, veiðimaður verður að standa með sjálfum sér og hafa til að bera vænan skammt af sjálfstrausti. Nú kann eitthvert hörkutólið að spyrja hvað í andsk…… sjálfstraust hafi með veiði að gera og þá gæti ég sagt honum smá sögu frá því í fyrra sumar. Þannig var að ég fékk beiðni um að hnýta nokkrar laxaflugur fyrir erlendan veiðimann sem ætlaði að heimsækja Ísland. Það er afar langt því frá að ég hafi lagt mikla stund á að hnýta laxaflugur og það hvarflaði að mér svíkjast um og einfaldlega kaupa flugur. En, svo kíkti ég á nokkrar af þeim flugum sem helst voru að gefa í viðkomandi á. Sem áhugamanni um silungsveiðar fannst mér lítið til þeirra koma, svo það sé nú bara sagt. Í flestar þeirra vantaði allt glimmer, búkurinn lítill og mjór, allir vængirnir steyptir í sama mót og stærðin var nú ekki til að tala um. Ég lét slag standa, settist niður og hnýtti nokkrar flugur sem ég festi á korttappa. Sumar voru næstum alveg eins og fyrirmyndirnar, aðrar voru eitthvert klastur og … ég var hreint ekki trúaður á að nokkur fiskur liti við þeim. Ég fyllti þó á eitt box fyrir útlendinginn. Sumar flugnanna voru það sem hörkutólinn mundu kalla misþyrmingar þekktra flugna, þeir umburðarlyndustu hefðu sagt þær afbrigði en þeir jákvæðustu hefðu kallað þær nýjar flugur, en glott út í annað. Þegar til kom, þá harðneitaði ég að taka greiðslu fyrir þessar flugur, þetta væri bara eitthvað suðusúkkulaði, ekkert konfekt sem hægt væri að rukka fyrir. Hvort það hafi verið sama kvöld eða hið næsta, hlotnaðist mér sú ánægja að halda ræðu yfir þessum ágæta veiðimanni og næla í hann viðurkenningu fyrir maríulaxinn sem hann tók á eina af flugunum mínum. Hann hafði fulla trú á þessum flugum mínum og var afar sáttur við þær og maríulaxinn sinn.

    Þetta var svolítið eins og steraskammtur fyrir sjálfstraustið, það óx um nokkur númer og ég fór að velta því fyrir mér hvernig hægt væri að plata fiskinn til að taka flugu sem væri allt öðruvísi en þessar svörtu + blá/grænu/rauðu. Hvernig var þetta fyrir 30+ árum síðan, var ekki verið að næla í fisk á maðk? Svarið fæddist í þvingunni, frekar óásjálega fluga sem ég faldi í lófa mér og lét ekki nokkurn mann sjá. Hnýtt á tvíkrækju #14, svört, brún og koparlituð.

    Þegar færi gafst setti ég þessa flugu undir, renndi henni niður fyrir brot í ánni þar sem mér þótti líklegast að ánamaðkur hægði svo á sér að hann yrði fiski sýnilegur. Tvö rennsli og sjálfstraustið fékk búst af sterum, það voru ekki aðeins þessar nafntoguðu, svörtu og grænu sem gáfu hugsaði ég með mér þegar ég losaði fluguna úr og sleppti vænum hængnum.

    Nú er febrúar alveg á næsta leyti, Febrúarflugur að hefjast og þá er um að gera að setja sitt mark á flugnaúrvalið, leyfa sjálfstraustinu að njóta sín og hnýta eitthvað eftir eigin höfði, nýtt eða breytt. Ef engar hefðu nýjungarnar orðið í gegnum aldirnar, þá værum við enn að veiða flugurnar sem Makedónumenn notuðu u.þ.b. árið 200 e.Kr.

    „Þeir vefja krókinn skarlatsrauðri ull, áfestri tveimur fjöðrum sem vaxa neðan háls hanans og eru vaxlitar. Stöngin er sex feta löng, sem og línan. Leggja þeir tálbeitu þessa niður sem fiskurinn laðast æstur að lit hennar, kemur til móts og glepst af fegurð ásýndar veislunnar, opnar munninn og festist á króknum, kynnist biturð veislunnar, því hann er veiddur.“

    Claudius Aelianus, De Natura Animalium

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Niðursuða

    19. janúar 2025
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ertu að bíða eftir að veiðitímabilið hefjist? Kannski búinn að fara yfir línuna, bóna stöngina og hreinsa lykkjurnar, kíkja á taumaefnið, gera við vöðlurnar sem láku í fyrra eða fjárfesta í nýjum? En hvað með fluguboxin? Áttu nóg af flugum eða áttu allt of mikið af flugum? Þetta er asnaleg spurning, ég veit, því hæfilegt magn af flugum lýtur sama lögmáli og allt annað veiðidót; hæfilegt magn er núverandi, plús einn.

    Stundum er samt sniðugt að bakka aðeins og telja útgáfur í staðinn fyrir fjölda flugna. Ef þú átt þér einhverja uppáhalds flugu, þá er sniðugt að eiga hana í mismunandi stærðum, með og án kúluhauss eða annarrar þyngingar, jafnvel úr mismunandi efni eða viðaukum. Þegar ég tala um viðauka, þá er ég að tala um skraut og glimmer, æpandi flúor haus eða skott.

    Og þó þú segist ekki eiga þér einhverja uppáhalds flugu, þá er ég næstum öruggur um að ef þú mundir sjóða fluguboxið þitt niður, taka þær frá sem þú notar sjaldan eða jafnvel aldrei (þær eru bara þarna af því þær eru flottar eða félagi þinn mælti með þeim) þá kæmu í ljós einhverjar go-to flugur sem þú notar oftast og gefa þér því oftast fisk. Kíktu svo á þessar flugur og athugaðu hvort þær séu allar eins, fljóta þær eða sökkva þær allar jafn mikið, eru þær allar jafn áberandi og eru þær allar í sömu stærð. Fagnaðu fjölbreytileikanum og eigðu go-to fluguna/flugurnar í nokkrum útfærslum fyrir næsta sumar. Ef einhver þeirra gefur ekki, finndu hana í örlítið annarri útfærslu og prófaðu, ef hún gefur ekki, þá áttu kannski sömu flugu í enn annarri útfærslu sem gæti gefið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Saga af Zulu

    11. febrúar 2024
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þær eru nokkrar flugurnar sem hafa verið fastir gestir í Febrúarflugum í gegnum árin og meðal þeirra er Zulu, bæði Black og Blue. Þetta er fluga sem flestir þekkja enda er flugan sögð gömul, jafnvel há öldruð. Saga þessarar flugu er sveipuð ákveðinni dulúð því ekki hefur tekist að eigna hana einhverjum ákveðnum aðila, ekki vitað með vissu hvar hún kom fram eða þá hvenær.

    Flugan er til í nokkrum útfærslum eins og sjá má af þessum myndum sem fengnar eru úr safni Febrúarflugna síðustu árin, en í megin atriðum hafa hnýtarar haldið fast í hefðbundið útlit flugunnar, með örfáum undantekningum.

    En hvað ætli þessi fluga sé gömul? Ég sá nýlega grein á vefnum þar sem því var haldið fram að hún væri 300 ára gömul, aðra grein fann ég sem sagði að hún hefði komið fram á miðri 20. öldinni (1900-1999). Hvort tveggja stenst ekki við nánari skoðun. En hvernig ætli flugan hafi þróast í gegnum árin og hvað vitum við elst um hana? Til að leita svara fór FOS í gegnum nokkrar bækur úr safninu og skannaði inn uppskriftir og myndir af Zulu þar sem þær var að finna.

    Bob Church’s Guide to Trout Flies útgefin 1987, höfundur: Bob Church
    Fly-Dressing útgefin 1975, höfundur: David J. Collyer
    Reservoir and lake flies útgefin 1970, höfundur John Veniard
    Favorite Flies and Their History útgefin 1892, höfundur: Mary Orvis Marbury

    Favorite Flies and Their History er elst þeirra heimilda sem ég fann eitthvað um Zulu. Hvergi var minnst á fluguna í eldri bókum sem FOS hefur aðgang að sem ná þó allt aftur til 1486. Við getum þá sagt með vissu að flugan varð örugglega til fyrir 1892. Ef við gefum okkur að Zulu hafi ekki legið ónefnd í boxum veiðimanna í einhver ár eða áratugi, sem gæti þó raunar verið, þá gæti ákveðin vísbending um aldur hennar legið í nafni hennar.

    Það eru í það minnsta tvær sögur sem tengjast nafni flugunnar og þær eiga það sameiginlegt að vísa til Zulu ættbálksins í Zululandi, nú héraðs í Suður Afríku. Önnur sagan segir að flugan hafi verið hnýtt eftir höfuðskrauti leiðtoga (konungi) Zulu ættbálksins, Cetshwayo kaMpande sem ríkti frá 1873 til 1884. Sé þessi saga rétt þá getum við leitt líkum að því að flugan hafi orðið til á árunum á milli 1873 – 1892. Hin sagan sem sögð er tengist einnig Cetshwayo, en þó með öðrum hætti.

    Upp úr 1874 tók Breska heimsveldið að ásælast mannauð Zululands sem ódýrt vinnuafl fyrir breska plantekrubændur, m.ö.o. þræla. Cetshwayo konungur stóð upp í hárinu á heimsveldinu og vildi semja um aðild að Breska heimsveldinu með fullu sjálfstæði, ekki innlimun. Bretar höfnuðu öllum samningum og réðust inn í Zululand árið 1879 og upphófst þá blóðugt stríð með gríðarlegu mannfalli beggja herja. Sagan segir að svartar fjaðrir Zulu tákni ættbálkinn sem nánast var útrýmt í þessu stríði og rauði liturinn tákni blóð þeirra sem dóu í átökunum. Eigi þessi saga við rök að styðjast, þá getum við sagt með nokkurri vissu að Zulu hafi orðið til á árinum á milli 1879 og 1892, nær held ég ekki að unnt sé að komast í sögunni.

    Eftir situr að hvergi í því sem skráð hefur verið um Zulu, er að finna eitt einasta orð um það hver hafi fyrstur hnýtt fluguna eða hvar nákvæmlega í Englandi hún hafi orðið til. Svo verður að taka með í reikninginn að það er ekkert víst að Claude De Black frá Nova Scotia (heimildarmaður Mary Orvis) hafi gert greinarmun á Englandi og öðrum löndum Bretlandseyja. Þannig er nefnilega að veiðimenn í norðurhéruðum Bretlands hafa áratugum saman talið Zulu vera ættaða úr sínum héruðum. Kannski sannast hér bara hið fornkveðna; Allir vildu Lilju kveðið hafa. Það sem eftir situr er að litasamsetning Zulu hefur gengur svo sannanlega í augu silungsins.

    One starts by observing that in weedy rivers trout live in an environment of green; in gravelly or rocky rivers they live in an environment of brown. One knows from the attractiveness of the Red Tag and the Zulu that they are peculiarly sensitive to red.

    The Way of a Trout with a Fly, útgefin 1921, höfundur G. E. M. Skues, bls. 29

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Soft hackle flugur

    8. júní 2023
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ein fluga, ein tegund flugna, allar flugur með mjúkum fönum, eða hvað? Allt góðar og gegnar spurningar sem ég veit fyrir víst að í það minnsta einn annar hefur velt fyrir sér, kannski fleiri. Byrjum á byrjuninni og minnumst á Lilju soft hackle flugnanna sem allir vildu kveðið hafa, fyrstir. Trúlega er Partridge and Orange sú fluga sem fyrst var getið í riti. Sumir segja að hennar sé getið árið 1496, aðrir eru heldur hófstilltari og tilnefna skráðar heimildir um North Country flugur frá því á fyrstu árum nítjándu aldar. Eitt er þó víst, flugunni er lýst mjög nákvæmlega á bls. 32 í bók T.E. Pritt, Yorkshire Trout Flies sem kom út árið 1895 þó hún sé nefnd Orange and Partridge. Það má því örugglega halda því fram að soft hackle flugur eru ekkert nýmeti á borðum fiska og sterkar vísbendingar leiða okkur í þá átt að fyrstu fjaðrir sem hnýttar voru á einhvern krók hafi verið mjúkar og fyrsta flugan hafi því verið soft hackle.

    Ein fluga? Nei, hreint ekki. Lengi vel fundust þó strangtrúarmenn sem töldu aðeins grannholda flugur a‘la North Country til soft hackle flugna. Eitthvað hefur þó þynnst í þeim sértrúarsöfnuði síðustu áratugi, klerkar þess safnaðar ekki verið áberandi og í dag er almennt viðurkennt að allar flugur sem hnýttar eru með mjúku hringvafi, væng eða skeggi séu soft hackle sbr. orðanna hljóðan. Í dag skiptir engu máli hvort um er að ræða votflugur, púpur, mjónur eða jafnvel straumflugur.

    Fyrir löngu síðan rak ég augu í tilvitnun þess efnis að soft hackle flugur væru með eðlislæga sýniþörf því allar eiga þær það sameiginlegt að vera líflegar í vatni, sama hverrar ættar þær eru. Við inndrátt mynda mjúkar fanirnar sveip sem dillar sér í vatninu, gefur flugunni líf og lokkar fiskinn til töku. Sjálfur hef ég hnýtt töluvert af klassísku votflugum sem upprunalega áttu að vera með heilum fjaðurvæng en notað þess í stað mjúkar fjaðrir í hringvaf, jafnvel tví- eða þrefalt hringvaf. Eðlilega er hreyfing slíkra flugna í vatni allt önnur en þeirra upprunalegu en ekkert síðri.

    Flestar púpur og mjónur eru í raun frekar stirðar í vatni, lítil ef nokkur hreyfing á efninu í flugunni og því er það inndrátturinn einn sem færir líf í þær. En með því að bæta mjúku hringvafi eða skeggi við þessar flugur, þá er komið efni sem leggst aftur með búknum við inndrátt, réttir úr sér í pásunni og líkir ágætlega eftir því þegar púpa eða gyðla er að brjótast um í vatninu og losar sig við hylkið sem umlykur hana. Við eigum alveg ágætt dæmi um gjöfula flugu sem gædd er miklu lífi með mjúku, löngu og dillandi skeggi; Langskeggur. Með fullri virðingu fyrir þessari ágætu flugu, þá væri hún aðeins svipur hjá sjón ef skeggið vantaði, svipaði bara til óendalega margra annarra flugna og trúlega væri hún alls ekki eins veiðin skegglaus eins og hún er í raun.

    Til að fara heilan hring í sögunni, þá er ein af mínum uppáhalds flugum klassísk Black Pennell með mjúku hringvafi. Hring í sögunni? Jú, Black Pennell er upprunalega soft hackle fluga og þannig hefur hún verið ótrúlega gjöful í hálöndum Bretlandseyja allt frá því hún kom fram, snemma á nýtjándu öld. Þessa flugu nota ég þegar klak toppflugunnar er í hámarki, vatnið þakið hylkjum, loftið iðar af flugu og fiskurinn lítur ekki við þurrflugu eða púpu. Ástæðan er afar einföld, fiskurinn er að hamast í klekjum sem halda sig 10 – 15 sm. undir yfirborðinu og er ekkert að ómaka sig eftir einni og einni flugu á yfirborðinu, hvað þá neðar í vatnsbolnum.

    En hvað með straumflugu sem soft hackle? Jú, af hverju ekki? Þær virka alveg ótrúlega vel og þetta er ekki einhver hugarburður minn. Ein vinsælasta soft hackle straumfluga sem komið hefur fram er Gartside’s Soft hackle Streamer. Þessa flugu kynnti Jack Gartside heitinn fyrir umheiminum fyrir hartnær 40 árum síðan og í sannleika sagt, þá getur hún alveg talist langamma margra þekktari flugna sem hnýttar eru úr mjúkum gervihárum í dag. Þar hitti skrattinn langömmu sína, því sú gamla er miklu líflegri í vatni en gervifrjóvguðu barnabörnin hennar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tíu í röð

    19. febrúar 2023
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Hefur þú í einhvern tíma lent í því að kaupa kúlur af ákveðinni stærð en fá eitthvað allt annað upp úr pokanum en þú áttir von á þegar heim er komið? Ég er ekki að gera því skóna að þú veiðir upp króka eða koparvír úr pokanum, en þú gætir fengið aðra stærð af kúlum heldur en þú áttir von á.

    Þegar aðeins 1/5 úr mm skilur stærðirnar að þá getur verið svolítið erfitt að greina á milli stærða og þá er gott að eiga hjálpartæki, eins og t.d. skíðmál.

    En það eru ekki allir svo vel settir að eiga svona græju og þá þarf að hugsa út fyrir boxið eins og benti hnýtara á sem leitaði ráða hjá FOS. Einföldustu lausnirnar, þær sem ættu að liggja í augum uppi eru stundum afar fjarlægar þegar menn leita ráða hjá Google, en það eina sem þarf er reglustika og 10 kúlur.

    Raðaðu 10 kúlum í röð á eða við reglustikuna og lestu af henni, deildu í heildarlengdina með 10 og þú veist upp á hár af hvaða stærð kúlurnar eru. Einhverjum kann að þykja þetta svo augljóst að ekki þurfi að nefna þetta, en ekki gleyma því að flestir hnýtarar eru líka veiðimenn og veiðimenn eru smá græjufíklar og leita því stundum langt yfir skammt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Litur á flugum

    12. febrúar 2023
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Mér er sagt að gamlir hundar verða stundum gráhærðir. Ég veit ekki hvort þetta átti að vera skot á mig eða hvort það er eitthvað til í þessu, en þessi ummæli voru höfð uppi þegar litskrúðugar flugur bárust í tal og ég lét það út úr mér að það væri nú takmarkað hvað fiskar gera mikinn greinamun á litaafbrigðum. Eins og umræðurnar þroskuðust, þá var ég ekkert að tefla fram mínum efasemdum um ákveðna liti umfram aðra.

    Sumir hnýtarar hafa sterkar skoðanir á lit flugna, jafnvel litatón hráefnis í ákveðinni flugu. Þeir sem hafa sterkustu skoðanir á þessu skiptast reyndar oft í tvær fylkingar; þá sem vilja meina að fiskurinn vilji ekkert annað en ákveðinn lit í flugu og svo þá sem segja að þennan lit hafði höfundur flugunnar í henni upprunalega og því skal fylgja, amen.

    Burtséð frá hreintrúarstefnu hnýtara, þá vitum við að ákveðnir litir og litasamsetningar höfða betur til fiska heldur en aðrir, sérstaklega ef litaskil eða öllu heldur birtuskil (e: contrast) eru skörp. Ákveðnir litir hafa fengið það orðsspor að ganga sérstaklega vel í silung, t.d. rauður og þá sérstaklega á móti svörtum. Þetta kann að hljóma svolítið á skjön við kenninguna um birtuskil, en þá kemur einmitt að því sem augað ekki sér.

    Við sjáum rauðan lit, já eins og við sjáum hann, en laxfiskar sjá hann í nokkuð öðru ljósi. Litir sem eru með lengri bylgjulengd eru skærari í þeirra augum en okkar og því má álykta að laxfiskar laðast frekar að þeim en öðrum.

    Myndin sýnir aðeins eina af ótal niðurstöðum rannsókna á ljósdrægni vatns og er ekki algild

    Rauður er sá liturinn sem hefur lengsta bylgjulengd og hann er því skærastur lita sem laxfiskar sjá. Það er þó einn galli á gjöf Njaðar, því lengri sem bylgjulengd litar er, því fljótari er hann að hverfa þegar niður í vatnið er komið, eins og myndin hér að ofan gefur vísbendingu um. Vatn virkar eins og ljóssía og síur eiga auðveldast með að grípa fyrirferðamikla hluti og langar bylgjur eru fyrirferðarmeiri en þær stuttu. Eins kjánalegt og það virðist, þá er rétt að árétta það að þó litur hverfi þá verður flugan ekki gegnsæ, hún hverfur ekki, hún verður bara svört.

    En hvað með þá liti sem eru á hinum enda litrófsins, blár, fjólublár og útfjólublár (UV)? Sjá laxfiskar þessa liti þá bara í einhverri móðu? Nei, hreint ekki. Svo lengi sem fiskurinn er ekki orðinn 5 til 7 ára, þá sér hann þessa liti alveg þokkalega skýrt. Af hverju ég nefni sérstaklega aldur fiskar á sér einfalda skýringu, með árunum daprast hæfileiki fiska til að greina UV ljós og þegar hæfileikinn hverfur alveg, þá sjá þeir UV liti með alveg sama hætti og liti sem eru með lengri bylgjulengd. En, sem sagt, litir með styttri bylgjulengd eiga auðveldara með að ná niður í vatnið, sjást á meira dýpi af því þeir smjúga auðveldar í gegnum ljóssíu vatnsins.

    Það var alveg ástæða fyrir því að forgangsljós lögreglu og sjúkraflutninga var á sínum tíma breytt úr rauðum í blá. Bláa ljósið sést lengra að og á auðveldara með að smjúga í gegnum rigningu og dimmviðri heldur en það rauða.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 29
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar