FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hver var þessi Kelly Green?

    14. desember 2025
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Þessi spurning rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég fékk orðsendingu um að tiltekið hnýtingarefni væri nú aftur fáanlegt í verslunum hér heima. Kelly Green? Það eru alveg líkur á að einhver beri þetta nafn vegna þess að ættarnafnið Green á sér saxneskar og norrænar rætur og finnst í ensku og keltnesku, einna helst írsku. Eiginnafnið Kelly er líka til og það á sér svipaðar rætur því það er enska útgáfa írska karlmannsnafnsins Ceallach eða yfirfærð merking ættarnafnsins O’Ceallaigh. Og þannig að ég velti út fleiri ónauðsynlegum upplýsingum, þá stendur O’-ið í ættarnöfnum fyrir afkomandi og Mac stendur fyrir sonur.

    En, auðvitað var þetta ekki svarið sem ég gaf viðkomandi, heldur að þetta væri heiti á ákveðnum lit sem væri vinsæll í augum fiska og því töluvert notaður í fluguhnýtingum. Rétt eins og ættar- og eiginnöfnin hér að ofan, þá á þessi litur ættir að rekja til Írlands og á að minna á græna haga þess, sem getur einmitt verið ástæðan fyrir því að hann er einkennislitur dags heilags Patreks og írskra búálfa (leprechauns).

    Kelly green er bjartur og orkumikill litur, nánast yfirþyrmandi og er því oft paraður saman með svörtu eða skógargrænu til að milda áhrif hans. Á myndinni hér að ofan er litrófið frá hreinum Kelly green yfir í skógargrænan og á þessu rófi er flest hnýtingarefni sem merkt er Kelly Green. Eitt það vinsælasta hér á landi, Wapsi Tinsel Chenille – Kelly Green er nánast á miðju þessa rófs og notað í vinsælar Veiðivatnaflugur eins og Öldu, Helga V. Úlfssonar og Kelly Green, Olgeirs Andréssonar.

    Vinsamlegast athugið að mismunandi stillingar tölvuskjáa geta haft töluverð áhrif á hvernig tilteknir litir birtast hjá hverjum og einum. Litirnir hér að ofan eru skv. RGB litastillingu sem notast við rauðan (R), grænan (G) og bláan (B) lit en það er ekki sjálfgefið að allir tölvuskjáir séu stilltir þannig.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sú var (ó)tíðin

    5. desember 2025
    Greinaskrif

    Upp

    Forsíða

    Sá siður FOS að kveðja á árið með því að birta grein ársins sem er að finna í bæklingi Veiðikortsins fær að halda sér hér á síðunni. Þetta er ekki aðeins kveðja til ársins, heldur og fögnuður þess að nýtt Veiðikort er komið í sölu. Frá því að bæklingurinn kom síðast út, hefur fjölgað um eitt veiðisvæði á kortinu, Hagavík í Þingvallavatni og því eru nú 38 veiðisvæði innan vébanda Veiðikortsins.

    Hvað FOS.IS hefur til málanna að leggja í nýjasta bæklingi Veiðikortsins má finna með því að renna í gegnum hann, á pappír eða rafrænt með því að smella hérna.

    Um fá önnur áhugamál hefur verið fjallað á jafn rómantískum nótum í gegnum tíðina eins og stangveiði. Það í sjálfu sér ætti ekkert að koma á óvart, því hver sá sem er nýlega kominn úr veiði hefur væntanlega losað sig við vænan skammt af stressi hins daglega lífs og er það sem i daglegu tali er nefnt sultuslakur. Þetta er ekki aðeins einhver mýta eða goðsögn því rannsóknir hafa sannað að stangveiði bíður upp á allt það sem fær okkur til að losa um streitu. Hæfilega spennu, tekur hann eða ekki, útiveru og nánd við náttúruna.

    Meira að segja síðasta sumar, sumarið sem aldrei kom eins og sumir segja, bauð upp á allt þetta, þó vissulega hafi aflabrögð verið svona upp og ofan. Eitt verður þó ekki af síðasta sumri tekið, það er liðið og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því frekar. Nú erum við komin með nýtt Veiðikort I vasann eða veskið í símanum okkar og við kíkjum á vötnin sem í boði eru sumarið Hvert á að fara, hvenær og hve lengi á að staldra við hvert þeirra 37 vatna sem eru á kortinu. Raunar grunar mig að flest okkar sem nýta kortið reglulega heimsæki þau vötn sem næst okkur eru, skreppum eftir vinnu til að hreinsa vinnudaginn úr kollinum. Það má samt setja nokkur þeirra á óskalistann fyrir sumarfríið, elta góða veðrið því það verður örugglega sól við eitthvert vatnanna, kannski, vonandi. Það er nefnilega aldrei á vísan að róa með veðrið, rétt eins og veiðina.

    Um daginn rakst ég á rykfallið fjölvítamínglas i eldhússkápnum. Í leit minni að best fyrir dagsetningunni sá ég að ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni fyrir markhóp Veiðikortsins, 10 ára til 70 ára, er 15 míkrógrömm. Eins og allir vita þá er helsta uppspretta D-vítamíns sólarljósið okkar og meira að segja á skýjuðum degi myndum við D-vítamín, þó það taki aðeins lengri tíma. Mér fannst þetta stórmerkileg uppgötvun. Ef einhver fer að amast yfir of miklum tíma í veiði, þá getur maður alltaf borið því við að það hafi verið skýjað og því hafi maður þurft lengri tíma til að ná ráðlögðum dagskammti.

    Ég er fyrir löngu kominn á það skeið þar sem ýmsir partar af mér eru komnir á tíma og þarfnast meira viðhalds heldur en áður. Ég sprett ekkert lengur fram úr á morgnanna (nema ég sé að fara í veiði) og stundum man ég ekki stundinni lengur það sem ég á að muna. Svo er það þetta með sjónina. Annað hvort hafa framleiðendur króka tekið upp á því að spara vírinn í þá og minnkað augun á þeim eða ég þarf að heimsækja augnlækninn minn og fjárfesta í gleraugum. Það gladdi mig því óumræðanlega þegar ég las merkilega grein um daginn sem sagði að stangveiði tefði fyrir öldrunareinkennum, skerpti heilastarfsemina og bætti einbeitingu, ynni jafnvel gegn vit- og minnisglöpum.

    Því miður var hvergi minnst á að stangveiði ynni gegn þyngdaraflinu, þessu sem hefur gert það að verkum að brjóstvöðvarnir hafa látið undan síga og fært sig neðar á líkama minn með árunum. Eiginlega safnast saman rétt fyrir ofan beltisstað. Aftur á móti skilst mér að miðlungs virkur veiðimaður brenni 150 – 550 hitaeiningum á klukkustund í veiði, sem mér þóttu góðar fréttir. Ég fékk því ekkert samviskubit þegar ég settist niður með kaffi og kleinu(r) til að skrifa þennan pistill í Veiðikortabæklinginn, ég veiði bara kleinurnar af mér næsta sumar á meðan ég fylli á D-vítamín birgðirnar og … já, alveg rétt, vinn gegn minnisglöpunum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Matseðill með augunum

    9. mars 2025
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Ég sá einhverja frétt um daginn að matseðlar á einhverjum hluta veitingahúsa hér á landi væru aðeins á ensku og fengu veitingahúsin bágt fyrir. Matseðlar eru mikilvægir, þeir segja manni hvað er á boðstólum og (oftast) hvað máltíðin heggur stórt skarð í heimilisbókhaldið. Í lauslegri könnun sem ég gerði, þá kom í ljós að matseðlar eru misvel úr garði gerðir, óháð tungumáli:

    Steiktur fiskur í raspi með lauk, smjöri og remúlaði

    Ég veit alveg hvað laukur er, smjör og remúlaði, en fiskur segir mér lítið sem ekkert hvers er að vænta. Ef ég væri togaraskipstjóri, þá væri ég að renna blint í sjóinn að henda út trollinu, ég gæti allt eins veitt fisk sem ég ætti engan kvóta fyrir og fengi þar af leiðandi á mig sekt.

    Fiorentina steak, kemur með með steiktum kartöflum, bernaise eða piparsósu

    Óveraldarvanur einstaklingurinn sem ég er, veit ekkert hvað Firorentina steak er og það þýðir ekkert fyrir mig að nota Google translate því þýðingin er Firorentina steik. Google sýndi mér myndir af einhverju kjöti á beini og sagði réttin ættaðan frá Toscana á Ítalíu, oftast úr steer eða heifer. Google translate vildi meina að þetta væri stýri eða kvíga. Ég hefði pantað kvígu, stýri er allt of hart undir tönn.

    Ef þú hefur nennt að lesa þetta, þá er alveg eins líklegt að orð myndi setningar í hausnum á þér; Þetta er búið – Nú er hann búinn að tapa sér endanlega.

    Það er eldgömul saga, en virðist alltaf vera ný af nálinni þegar maður vekur máls á henni við bakkann, að veiðimenn ættu að gefa sér smá tíma til að lesa matseðil fiskanna. Sem betur fer er sá matseðill settur fram í myndum og því þarf engar áhyggjur að hafa þó veiðimaðurinn þekki ekki latnesk tegundarheiti vorflugu, mýflugu eða toppflugu. Það nægir alveg að opna augun, skima umhverfið og velja agn í samræmi við það sem fyrir augu ber. Auðvitað er alltaf eitthvað sem ekki sést, eins og t.d. vatnabobbar og hornsíli, en með því að skima vatnsbakkana má alltaf sjá einhverjar vísbendingar um það sem vatnið geymir. Lestu matseðilinn með augunum, það gerir fiskurinn áður en hann fær sér bita.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sjálfstraust á sterum

    26. janúar 2025
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Kannast einhver við að vera staddur á veiðislóð, standa innan seilingar við næsta mann, vera með sömu fluguna, sömu línuna og jafn langan taum og horfa upp á veiðifélagann setja í hvern fiskinn á fætur öðrum á meðan ekkert, sko ekkert er að gerast við fluguna þína? Ég get tékkað í boxið við svona lýsingu. En hvað með það þegar einhver gaukar að þér hinni einu sönnu flugu, þeirri sem virkar og gefur langmest af öllum sem hafa blotnað á ákveðnum veiðistað, en gefur þér ekki eitt einasta nart?

    Ég hef þá trú að veiðimaður verður að vera trúaður; trúa á fluguna sem hann beitir og trúa á sjálfan sig ef hann ætlar að veiða. Það sem meira er, veiðimaður verður að standa með sjálfum sér og hafa til að bera vænan skammt af sjálfstrausti. Nú kann eitthvert hörkutólið að spyrja hvað í andsk…… sjálfstraust hafi með veiði að gera og þá gæti ég sagt honum smá sögu frá því í fyrra sumar. Þannig var að ég fékk beiðni um að hnýta nokkrar laxaflugur fyrir erlendan veiðimann sem ætlaði að heimsækja Ísland. Það er afar langt því frá að ég hafi lagt mikla stund á að hnýta laxaflugur og það hvarflaði að mér svíkjast um og einfaldlega kaupa flugur. En, svo kíkti ég á nokkrar af þeim flugum sem helst voru að gefa í viðkomandi á. Sem áhugamanni um silungsveiðar fannst mér lítið til þeirra koma, svo það sé nú bara sagt. Í flestar þeirra vantaði allt glimmer, búkurinn lítill og mjór, allir vængirnir steyptir í sama mót og stærðin var nú ekki til að tala um. Ég lét slag standa, settist niður og hnýtti nokkrar flugur sem ég festi á korttappa. Sumar voru næstum alveg eins og fyrirmyndirnar, aðrar voru eitthvert klastur og … ég var hreint ekki trúaður á að nokkur fiskur liti við þeim. Ég fyllti þó á eitt box fyrir útlendinginn. Sumar flugnanna voru það sem hörkutólinn mundu kalla misþyrmingar þekktra flugna, þeir umburðarlyndustu hefðu sagt þær afbrigði en þeir jákvæðustu hefðu kallað þær nýjar flugur, en glott út í annað. Þegar til kom, þá harðneitaði ég að taka greiðslu fyrir þessar flugur, þetta væri bara eitthvað suðusúkkulaði, ekkert konfekt sem hægt væri að rukka fyrir. Hvort það hafi verið sama kvöld eða hið næsta, hlotnaðist mér sú ánægja að halda ræðu yfir þessum ágæta veiðimanni og næla í hann viðurkenningu fyrir maríulaxinn sem hann tók á eina af flugunum mínum. Hann hafði fulla trú á þessum flugum mínum og var afar sáttur við þær og maríulaxinn sinn.

    Þetta var svolítið eins og steraskammtur fyrir sjálfstraustið, það óx um nokkur númer og ég fór að velta því fyrir mér hvernig hægt væri að plata fiskinn til að taka flugu sem væri allt öðruvísi en þessar svörtu + blá/grænu/rauðu. Hvernig var þetta fyrir 30+ árum síðan, var ekki verið að næla í fisk á maðk? Svarið fæddist í þvingunni, frekar óásjálega fluga sem ég faldi í lófa mér og lét ekki nokkurn mann sjá. Hnýtt á tvíkrækju #14, svört, brún og koparlituð.

    Þegar færi gafst setti ég þessa flugu undir, renndi henni niður fyrir brot í ánni þar sem mér þótti líklegast að ánamaðkur hægði svo á sér að hann yrði fiski sýnilegur. Tvö rennsli og sjálfstraustið fékk búst af sterum, það voru ekki aðeins þessar nafntoguðu, svörtu og grænu sem gáfu hugsaði ég með mér þegar ég losaði fluguna úr og sleppti vænum hængnum.

    Nú er febrúar alveg á næsta leyti, Febrúarflugur að hefjast og þá er um að gera að setja sitt mark á flugnaúrvalið, leyfa sjálfstraustinu að njóta sín og hnýta eitthvað eftir eigin höfði, nýtt eða breytt. Ef engar hefðu nýjungarnar orðið í gegnum aldirnar, þá værum við enn að veiða flugurnar sem Makedónumenn notuðu u.þ.b. árið 200 e.Kr.

    „Þeir vefja krókinn skarlatsrauðri ull, áfestri tveimur fjöðrum sem vaxa neðan háls hanans og eru vaxlitar. Stöngin er sex feta löng, sem og línan. Leggja þeir tálbeitu þessa niður sem fiskurinn laðast æstur að lit hennar, kemur til móts og glepst af fegurð ásýndar veislunnar, opnar munninn og festist á króknum, kynnist biturð veislunnar, því hann er veiddur.“

    Claudius Aelianus, De Natura Animalium

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Niðursuða

    19. janúar 2025
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ertu að bíða eftir að veiðitímabilið hefjist? Kannski búinn að fara yfir línuna, bóna stöngina og hreinsa lykkjurnar, kíkja á taumaefnið, gera við vöðlurnar sem láku í fyrra eða fjárfesta í nýjum? En hvað með fluguboxin? Áttu nóg af flugum eða áttu allt of mikið af flugum? Þetta er asnaleg spurning, ég veit, því hæfilegt magn af flugum lýtur sama lögmáli og allt annað veiðidót; hæfilegt magn er núverandi, plús einn.

    Stundum er samt sniðugt að bakka aðeins og telja útgáfur í staðinn fyrir fjölda flugna. Ef þú átt þér einhverja uppáhalds flugu, þá er sniðugt að eiga hana í mismunandi stærðum, með og án kúluhauss eða annarrar þyngingar, jafnvel úr mismunandi efni eða viðaukum. Þegar ég tala um viðauka, þá er ég að tala um skraut og glimmer, æpandi flúor haus eða skott.

    Og þó þú segist ekki eiga þér einhverja uppáhalds flugu, þá er ég næstum öruggur um að ef þú mundir sjóða fluguboxið þitt niður, taka þær frá sem þú notar sjaldan eða jafnvel aldrei (þær eru bara þarna af því þær eru flottar eða félagi þinn mælti með þeim) þá kæmu í ljós einhverjar go-to flugur sem þú notar oftast og gefa þér því oftast fisk. Kíktu svo á þessar flugur og athugaðu hvort þær séu allar eins, fljóta þær eða sökkva þær allar jafn mikið, eru þær allar jafn áberandi og eru þær allar í sömu stærð. Fagnaðu fjölbreytileikanum og eigðu go-to fluguna/flugurnar í nokkrum útfærslum fyrir næsta sumar. Ef einhver þeirra gefur ekki, finndu hana í örlítið annarri útfærslu og prófaðu, ef hún gefur ekki, þá áttu kannski sömu flugu í enn annarri útfærslu sem gæti gefið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þynnast upp

    12. janúar 2025
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Fyrir mörgum er þynnka óhjákvæmilegur fylgifiskur fyllerís, aðrir þekkja ekkert til hennar og hafa aðeins kynnst henni af afspurn eða fyrir löngu sagt skilið við fyllerí og óráðssíu. Þetta er undarlegur inngangur að greinarstúf, ég veit, en hafið smá biðlund því ég er alveg að koma mér að efninu; taumum og taumaendum.

    Við, þessi stórundarlegi hópur mannskepnunnar sem stundar fluguveiði, höfum oft heyrt að grannur taumur sé málið. Sum okkar erum alveg sammála, önnur örlítið skeptísk og enn aðrir meðlimir hópsins fussa bara og sveia. En hvað er þetta eiginlega með granna tauma? Hvers vegna skipta þeir svona miklu máli? Ef við tækjum 100 greinar og myndbrot um granna tauma og hentum þeim í pott og syðum upp á þeim, þá er líklegt að eftir stæðu þrjú atriði sem þær allar snerust í raun um; grannur taumur sést síður í vatni, grannur taumur tekur síður á sig straum og grannur taumur leggur fluguna betur fram. Ofan á þessum kjarna mundi trúlega fljóta ýmislegt groms af hinu og þessu sem ágætt er að hafa í huga og kunna skil á.

    Ég á kunningja sem eftir þó nokkuð mörg ár í veiði, á enn í vandræðum með að aðgreina línu, taum og taumenda þegar hann segir frá. „Æji, þetta þarna sem er fest á endann á snúrunni“ og ég leiðrétti hann og segi „Það heitir taumur og snúran er línan.“ Eftir augnablik heyrist síðan „Áttu svona dót til að hnýta framan á línuna, ekki þetta þykka, heldur þetta mjóa“ og ég segi „Dótið heitir taumendi og það er fest framan á tauminn, ekki línuna“ Eftir smá tíma í veiði, gæti þessi kunningi svo tuldrað fyrir munni sér „Andsk… hnútar, ég þarft að skipta um endann á línunni“ og ég sé fyrir mér stórslys og ónýta lykkju á línunni. Hann er vitaskuld að tala um vindhnúta á taumendanum.

    Ég veit ekki hve oft ég hef soðið upp á þessari súpu til að ná fram kjarnanum, en í dag hljómar hún svona:

    1. þú heldur á flugustöng
    2. við flugustöngina er fest fluguhjól
    3. við fluguhjólið er fest baklína
    4. við baklínuna er fest flugulína
    5. við flugulínuna er festur taumur
    6. við tauminn er festur taumaendi
    7. við taumaendann er fest fluga

    Í daglegu tali um tauma, þá eru veiðimenn gjarnir á að leggja að jöfnu tauminn og taumendann, sem er bara allt í lagi, því sumir nota einfaldlega sama efnið í hvoru tveggja og festa við línuna. En, það sem ég ætlaði að minnast á, eins og ég hef gert oft áður, þá þurfa menn að þekkja það sem þeir kaupa og geta metið þörfina á sverleika taums og taumenda við mismunandi aðstæður.

    Taumar og taumendar eru merktir með ýmsum hætti. Slitstyrkur taums er mældir í pundum eða kílóum (grömmum). Slitstyrkur taums segir lítið sem ekkert til um sverleika hans í dag vegna þess að hann fer eftir efninu sem notað er í framleiðslu hans. Ef þú ert að leita að grönnum taum eða taumaefni, þá þarft þú að horfa á einhverja tölu sem stendur framan við bókstafinn X eða voðalega litla tölu fyrir aftan kommu sem er eitthvað brot úr millimetra. Ég hef tamið mér að notast við þessa X tölu þegar ég vel mér taum í venjulegri vatnaveiði, en þar sem von er á stærri fiski þá horfi ég gjarnan á slitstyrk efnisins, sem er vel að merkja ekki möguleg stærð á fiski. Kraftmikill urriði sem er 5 pund fer létt með að slíta efni sem er skráð með slitstyrk í sömu pundum. Þetta er nokkuð sem ég segi kunningja mínum oft, mjög oft. En hvað er þetta þá með þynnkuna? Jú, láttu stærð flugunnar og aðstæður í vatni, rennandi og kyrru, ráða því hve þunnan taum þú notar. Ef þú ert í vafa um samband flugu og taums, þá getur þú haft þessa töflu til hliðsjónar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar