Nú eru aðeins rétt rúmar tvær vikur í að Febrúarflugur vakni eftir 11 mánaða dvala sinn. Á síðasta ári var gerð tilraun til ákveðins afturhvarfs í tilhögun Febrúarflugna og eftirláta þátttakendum og stuðningsaðilum að efna til áhugaverðra og skemmtilegra viðburða í febrúar. Undirtektirnar voru slíkar að sjaldan, ef í nokkurn tíma, hefur annað eins verið á boðstólum í febrúar sem áhugafólki um flugur og fluguhnýtingar stóð til boða og því hefur verið ákveðið að hafa sama háttinn á að þessu sinni. FOS og Febrúarflugur munu því einbeita sér að utanumhaldi viðburðarins hér á síðunni og hópinum á Facebook, en eftirláta öðrum að standa fyrir og bjóða upp á áhugaverða viðburði í febrúar.
Febrúarflugur hafa alla tíð fylgt sama sniði og FOS, eru ókeypis, óhagnaðardrifnar, óháðar öllu og öllum og fyrst og fremst drifnar áfram af því markmiði að hvetja til fluguhnýtinga og gefa hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum með einföldum og auðveldum hætti.
Ef þú vilt leggja þitt að mörkum, þá einfaldlega gerist þú meðlimur hópsins á Facebook (sjá hér) og póstar einhverju af því sem þú hnýtir í febrúar, flóknara er það nú ekki. Ef þú vilt styðja við Febrúarflugur, þá getur þú nálgast allar upplýsingar um mögulega tilhögun þess með því að smella hérna.
Ef þú hefur einhverjar spurningar eða hugmyndir fram að færa, þá er þér velkomið að senda okkur línu með því að smella hérna.

Febrúarflugur eru hugarfóstur Kristjáns Friðrikssonar, rétt eins og FOS.IS -vefs um ýmislegt og allskonar um flugur, veiðistaði og stangveiði almennt.









Senda ábendingu