Flýtileiðir

Lokaspretturinn

Þau eru fá morgunverkin sem gleðja undirritaðan jafn mikið þessa dagana eins og skyggnast yfir Febrúarflugur, smella á þær myndir sem komið hafa fram síðasta sólarhringinn og afrita þær yfir í myndasafn Febrúarflugna á FOS.

Annað sem gleður mig ósegjanlega er hve frábærlega ýmsir einstaklingar, fyrirtæki og stangaveiðifélög hafa tekið við sér og bryddað upp á skemmtilegum viðburðum fyrir hnýtara og áhugafólk um fluguhnýtingar og hjálpast þannig að við að gera febrúar að þeim viðburðaríka og skemmtilega mánuði eins og hann hefur verið núna. Svo má ekki gleyma þeim 128 hnýturum sem hafa lagt ómælda vinnu í að raða inn þeim rétt tæplega 900 flugum sem komnar eru fram þetta árið. Þið eigið öll hrós skilið fyrir ykkar framlag og ég hlakka til að fylgjast með ykkur það sem eftir lifir febrúar.

Nú er síðasta vika Febrúarflugna gengin í garð og af því sem FOS hefur fengið vitneskju um að sé á döfinni, þá er Ólafur Hilmar Foss í Flugubúllunni í dag (laugardag) á milli 12:00 og 15:00 og þeir félagar Sigþór Steinn og Valgarður verða að venju í Veiðiflugum á mánudagskvöldinu kl. 19:30 þar sem þeir ætla að beina sjónum að sjóbirtingsflugum. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að rífa þá nú af sér og taka fram græjurnar og slást í hópinn á Facebook og/eða heimsækja þessa meistara sem leggja sitt að mörkum hjá Flugubúllunni og Veiðiflugum.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *