Nú eru aðeins 10 dagar í að Febrúarflugur hefji göngu sína enn á ný. Að þessu sinni hverfa Febrúarflugur áratug aftur í tímann með þemanu Flugurnar í fyrsta sætið. Flugurnar verða í fyrsta sæti á Facebook og hér á FOS og það verður undir vildarvinum Febrúarflugna komið að gera vel við hnýtarana.
En hvað þýðir þetta? Jú, í stað þess að veita heppnum þátttakendum viðurkenningar í lok febrúar eins og gert hefur verið undanfarin ár, þá hef ég nú beint þeim tilmælum til þeirra sem vilja styðja Febrúarflugur að láta allt áhugafólk um fluguhnýtingar njóta stuðningsins í formi afsláttar eða sérkjara í febrúar, standa fyrir uppákomum hvers konar eða fræðslu og leggja þannig sitt að mörkum að gera febrúar að skemmtilegasta mánuði ársins fyrir hnýtara.
Ef þú ert einn af þeim sem vilt sýna Febrúarflugum og hnýturum velvild þína að þessu sinni eða veist um einhver áhugasaman, þá má nálgast allar upplýsingar um fyrirkomulag þess á heimasíðu Febrúarflugna á FOS, með því að smella á hnappinn Stuðningur.
Nú þegar hafa nokkrir vildarvinir boðað aðkomu sína og sumir eru alveg vissir hvað þeir ætla að gera fyrir hnýtara og áhugafólk um flugur. Aðrir eru enn að hugsa málið, en ég veit fyrir víst að þeir eru að hugsa stórt og það verður spennandi að sjá hverju þeir bridda uppá.

Fram að 1. febrúar mun FOS væntanlega setja inn nokkrar viðeigandi færslur á síðuna, kannski einhverjar spennandi flugur sem hnýta mætti í febrúar eða fróðleik um flugur og fluguhnýtingar.









Senda ábendingu