Ein fluga, ein tegund flugna, allar flugur með mjúkum fönum, eða hvað? Allt góðar og gegnar spurningar sem ég veit fyrir víst að í það minnsta einn annar hefur velt fyrir sér, kannski fleiri. Byrjum á byrjuninni og minnumst á Lilju soft hackle flugnanna sem allir vildu kveðið hafa, fyrstir. Trúlega er Partridge and Orange sú fluga sem fyrst var getið í riti. Sumir segja að hennar sé getið árið 1496, aðrir eru heldur hófstilltari og tilnefna skráðar heimildir um North Country flugur frá því á fyrstu árum nítjándu aldar. Eitt er þó víst, flugunni er lýst mjög nákvæmlega á bls. 32 í bók T.E. Pritt, Yorkshire Trout Flies sem kom út árið 1895 þó hún sé nefnd Orange and Partridge. Það má því örugglega halda því fram að soft hackle flugur eru ekkert nýmeti á borðum fiska og sterkar vísbendingar leiða okkur í þá átt að fyrstu fjaðrir sem hnýttar voru á einhvern krók hafi verið mjúkar og fyrsta flugan hafi því verið soft hackle.
Ein fluga? Nei, hreint ekki. Lengi vel fundust þó strangtrúarmenn sem töldu aðeins grannholda flugur a‘la North Country til soft hackle flugna. Eitthvað hefur þó þynnst í þeim sértrúarsöfnuði síðustu áratugi, klerkar þess safnaðar ekki verið áberandi og í dag er almennt viðurkennt að allar flugur sem hnýttar eru með mjúku hringvafi, væng eða skeggi séu soft hackle sbr. orðanna hljóðan. Í dag skiptir engu máli hvort um er að ræða votflugur, púpur, mjónur eða jafnvel straumflugur.
Fyrir löngu síðan rak ég augu í tilvitnun þess efnis að soft hackle flugur væru með eðlislæga sýniþörf því allar eiga þær það sameiginlegt að vera líflegar í vatni, sama hverrar ættar þær eru. Við inndrátt mynda mjúkar fanirnar sveip sem dillar sér í vatninu, gefur flugunni líf og lokkar fiskinn til töku. Sjálfur hef ég hnýtt töluvert af klassísku votflugum sem upprunalega áttu að vera með heilum fjaðurvæng en notað þess í stað mjúkar fjaðrir í hringvaf, jafnvel tví- eða þrefalt hringvaf. Eðlilega er hreyfing slíkra flugna í vatni allt önnur en þeirra upprunalegu en ekkert síðri.
Flestar púpur og mjónur eru í raun frekar stirðar í vatni, lítil ef nokkur hreyfing á efninu í flugunni og því er það inndrátturinn einn sem færir líf í þær. En með því að bæta mjúku hringvafi eða skeggi við þessar flugur, þá er komið efni sem leggst aftur með búknum við inndrátt, réttir úr sér í pásunni og líkir ágætlega eftir því þegar púpa eða gyðla er að brjótast um í vatninu og losar sig við hylkið sem umlykur hana. Við eigum alveg ágætt dæmi um gjöfula flugu sem gædd er miklu lífi með mjúku, löngu og dillandi skeggi; Langskeggur. Með fullri virðingu fyrir þessari ágætu flugu, þá væri hún aðeins svipur hjá sjón ef skeggið vantaði, svipaði bara til óendalega margra annarra flugna og trúlega væri hún alls ekki eins veiðin skegglaus eins og hún er í raun.
Til að fara heilan hring í sögunni, þá er ein af mínum uppáhalds flugum klassísk Black Pennell með mjúku hringvafi. Hring í sögunni? Jú, Black Pennell er upprunalega soft hackle fluga og þannig hefur hún verið ótrúlega gjöful í hálöndum Bretlandseyja allt frá því hún kom fram, snemma á nýtjándu öld. Þessa flugu nota ég þegar klak toppflugunnar er í hámarki, vatnið þakið hylkjum, loftið iðar af flugu og fiskurinn lítur ekki við þurrflugu eða púpu. Ástæðan er afar einföld, fiskurinn er að hamast í klekjum sem halda sig 10 – 15 sm. undir yfirborðinu og er ekkert að ómaka sig eftir einni og einni flugu á yfirborðinu, hvað þá neðar í vatnsbolnum.

En hvað með straumflugu sem soft hackle? Jú, af hverju ekki? Þær virka alveg ótrúlega vel og þetta er ekki einhver hugarburður minn. Ein vinsælasta soft hackle straumfluga sem komið hefur fram er Gartside’s Soft hackle Streamer. Þessa flugu kynnti Jack Gartside heitinn fyrir umheiminum fyrir hartnær 40 árum síðan og í sannleika sagt, þá getur hún alveg talist langamma margra þekktari flugna sem hnýttar eru úr mjúkum gervihárum í dag. Þar hitti skrattinn langömmu sína, því sú gamla er miklu líflegri í vatni en gervifrjóvguðu barnabörnin hennar.









Senda ábendingu