Flýtileiðir

Gamaldags áhugamaður

Mér skilst á öllu að ég sé gamaldags áhugamaður um stangveiði og útivist. Þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart, það hefur verið ýjað að þessu í nokkur skipti en nýlega varð ég fyrir því að áheyrandi að samtali mínu við þriðja mann hló háðslega inn í samtal okkar þegar ég sagði að ég hefði lesið mér til um ákveðið atriði í nokkrum bókum.

Fyrst hélt ég að viðkomandi væri svona hjartanlega ósammála mér að hann sæi sig knúinn til að hæðast að áliti mínu, en þegar ég útskýrði mál mitt kom í ljós að viðkomandi hafði ekkert út á röksemdir mínar að setja, var raunar fullkomlega sammála mér. Honum fannst það bara svo stórkostlega fáránlegt að ég hafi verið að lesa á bók. Það les enginn bækur lengur, það hlusta bara allir á Podcast eða hljóðbækur, tjáði hann mér og bætti síðan við eftir augnablik; Þú ert bara gamaldags. Það eina sem ég gat stunið upp var; Takk, tek þessu sem hrósi.

Ég viðurkenni fúsleg að mér brá, ekki vegna þess að ég var orðinn gamaldags heldur vegna þess að viðkomandi virtist á engan hátt gera sér grein fyrir eðlismun þess að lesa á bók (hvort sem hún er á pappír eða rafræn) eða hlusta á upplestur. Ég kaupi það alveg að samræður tveggja eða fleiri í hlaðvarpi geta verið afar fræðandi, en að hlusta á upplestur er einfaldlega ekki hið sama og að geta sett fingur við texta, hinkrað við, hugsað og jafnvel lesa málsgrein aftur og aftur, þar til skilningi eða inntaki er náð að fullu.

Hér ætla ég að skjóta inn í þessa þanka mína að ég skil fullkomlega ágæti hljóðbóka fyrir þá sem haldnir eru lesblindu, eru sjónskertir eða lögblindir. Þetta er frábær tækni sem er raunar ekkert ný af nálinni en með tilkomu hljóðbókasafna á netinu hefur aðgengi að hljóðbókum tekið risavaxið stökk á síðustu árum.

Þekkjandi þennan aðila sem helst hefði viljað setja mig á safn með merkimiðanum Gamaldags áhugamaður, þá reyndi ég að draga upp úr honum hvar hann næði sér helst í hljóðbækur. Hann benti mér á nokkrar vefsíður þar væri allt sem hefði verið gefið út og skipti máli væri að finna. Ég þakkaði fyrir mig og spurði hvort ég mætti nota samtal okkar í þanka á síðunni; Alveg sjálfsagt, svaraði hann, Ertu ekki með upplestrarhnapp á FOS? Bara þannig að því sé haldið til haga, þá er FOS.IS ekki útbúinn upplestrarþjónustu, þannig að þið farið ekki að leita að slíkum hnappi á síðunni. Aftur á móti eru sumir netvafrar þegar útbúnir svo kallaðri Text2Speech virkni og geta lesið íslenskan texta nokkuð skiljanlega.

En áfram með þanka mína um hljóðbækur umfram aðrar bækur, eða öfugt. Þetta samtal okkar vakti forvitni mína og þegar heim var komið, þá settist ég niður og leitaði í nokkrum þeirra hljóðbókasafna sem mér var bent á. Urmull er orðið sem kom helst upp í huga mér þegar ég sá allt það sem þarna var að finna. Ótrúlegt úrval á fjölda tungumála, upplestur frægra leikara af stórvirkjum bókmenntanna og upplestur óþekktra höfunda á eigin verkum. Einn galli var þó á gjöf Njarðar, þarna voru afar fáar bækur um stangveiði og veiðitækni ef undan eru taldar frásagnir upphafinna veiðimanna af eigin lífi og afrekum á vatnsbakkanum, með takmörkuðu fræðilegu gildi.

Það er deginum ljósara, miðað við fullyrðingu hljóðbókaunnandans, að útgefnar stangaveiðibækur skipta engu máli þar sem þær er nánast ekki að finna á þeim hljóðbókaveitum sem ég prófaði. Þetta er vitaskuld háðsglósa hjá mér, en það hljómar vitaskuld ekki þannig ef ég læt vefþulu lesa þennan texta:

Það eru raunar fá áhugamál sem hefur verið skrifað jafn mikið um í gegnum tíðina eins og stangveiði og þrátt fyrir allt, þá virðist eftirspurn eftir veiðitengdum bókum alltaf halda sér. Já, nú ætla ég að nota einn af mínum uppáhalds frösum; ég las um daginn að stangveiði á þann heiður að vera það áhugamál sem hefur nýtt sér tölvutæknina einna mest án þess að það væri á kostnað bókarinnar. Blogg, upplýsingaveitur, rafbækur og tímarit hafa blómstrað á vefnum á sama tíma og bókin hefur haldið stöðu sinni þegar kemur að stangveiðinni. Veiðimenn hafa einfaldlega aukið sýnileika sinn síðustu ár m.a. á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram og fleiri. Að vísu er þessi þróun tvíbent að því leiti að blogg birta yfirleitt aðeins tilvitnanir eða smá brot úr bókum, gjarnan aðeins það sem viðkomandi hentar að tengja sínu umfjöllunarefni eða áliti. Ef lesandinn vill ná aðeins meiri dýpt í efnið, þá þarf stundum að taka fram bókina, á pappír eða tölvu, og lesa sér betur til um það sem kom fram sem tilvitnun.

Vægi mynda og örtexta er sífellt að aukast í nútímanum og þetta er skemmtileg viðbót við aðra miðlun. Allir hafa nóg að gera og flæði upplýsinga er orðið slíkt að margir kjósa myndir, meme eða einfaldlega að lesa fyrirsagnir í stað þess að lesa frásögn eða skýringar. Ein mynd segir meira en þúsund orð, en samhengi orða segir sögu og ef þú ert í svona mikilli tímaþröng, hafðu þá í huga að meðal maðurinn les um að bil 230 orð á mínútu á meðan sami aðili talar aðeins 150 – 160 orð á mínútu. Það er því tímasparnaður að lesa í stað þess að hlusta.

En til að lesa sér til gagns þarf skilning. Ég er ekki málvísindamaður, en mig grunar að ör-skimun lesenda eigi sinn þátt í hnignun lesskilnings á síðustu árum. Það er ekki endalaust hægt að benda á mislukkaðar kennsluaðferðir, einstaklingar og samfélagið sjálft ber einhverja ábyrgð á því hvernig komið er fyrir lesskilningi í dag. Í ljósi þess að ég er gamaldags þá er allt fólk undir fimmtugu yngra, sama fólkið og er að undirbúa og leiðbeina framtíð mannkyns í fyrstu skrefum sínum inn í lífið. Það gera börnin sem fyrir þeim er haft, lestu og börnin þín lesa sér til gagns og gleypa bara ekki það litla sem fyrir þau er sett.

Nú er þessi texti orðinn tæp 1.500 orð og alls óvíst hve margir hafa haft nennu til að lesa alla leið hingað þannig að ég læt þetta gott heita sem smá ábendingu; Ekki henda bókum, það gæti orðið rafmagnslaust og þá er nú alltaf gott að geta gripið í góða (veiði) bók.

Eitt svar við “Gamaldags áhugamaður”

 1. thorarinna Avatar

  Hljóðbækur er nú bara endursköpun á gamalli tækni, hlustað af „bandi“, þú stekkur ekki beint inn í textann á ákveðinn stað í ákveðnum kafla en það gerir þú í bókinni.
  Í dag lesa menn ekki alla bókina, heldur það sem þeim finnst áhugavert og sleppa hinu.
  Hvor er nú meiri fornmaður?
  kveða, Þórarinn

  Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com