Ég bara veit ekki hversu oft ég hef staðið mig að því í bráðræði að byrja að draga inn of snemma þegar ég er með þyngda púpu eða staumflugu á endanum. Stundum læt ég eins og fiskurinn sé eitthvað tímabundinn, sé að missa af strætó og ég þurfi endilega að byrja að dilla flugunni fyrir hann um leið og hún er lent. Stundum er asinn svo mikill að ég leyfi stönginni ekki einu sinni að síga niður að vatnsborðinu úr fremra stoppi.
Það er ýmislegt sem ég uppsker þegar svona nokkuð gerist hjá mér. Ef við tilgreinum vandmálin í þeirri röð sem þau geta komið fyrir, þá er fyrst að nefna að flugan er ekkert búin að koma sér fyrir. Hún er bara að dinglast þarna á eða við yfirborðið og þar mun hún halda áfram að dinglast þegar ég byrja á að draga hana inn.
Númer tvö er slakinn á línunni frá stangartoppi og niður að flugu. Hann verður næstum örugglega til þess að ég finn ekki þegar fiskurinn tekur. Eina tilfellið sem veit af töku er þegar fiskurinn tekur með látum, stekkur og djöflast, en þá er líka alveg eins víst að hann losi sig af í fyrsta djöfulgangi eða stökki, slakinn sér til þess.

Verði ég nú samt sem áður var við tökuna, þá er nokkuð öruggt að fyrsta viðbragðið mitt fari í að taka slakann af línunni, ekki í að setja fluguna fasta.
Nei, þessi ímyndaða tímaþröng verður að láta undan og ég verð að muna það alltaf að stoppa í framkastinu, leyfa flugunni að komast út og niður og … leyfa stangartoppinum að síga rólega niður að vatnsborðinu. Kostirnir eru ótalmargir; ég slaka á, flugunni gefst tími til að koma sér fyrir og eftir atvikum að sökkva, ég get tekið slakan af línunni þannig að inndrátturinn verður markvissari og ég er líklegri til að finna tökuna. Sem sagt; niður með stangartoppinn, byrja svo að veiða fluguna.
Senda ábendingu