Lognið eftir vindinn

Ég hef alveg komið því til skila í gegnum árin að mér finnst vindur ekkert sérstaklega til trafala í veiði, þvert á móti. Þetta hef ég sett fram með smáa letrinu að hann megi ekki vera of mikill og helst ekki mikil rigning meðfylgjandi. Með enn smærra letri hafa sumir lesendur séð að hitastigið verður líka að vera þokkalegt, ég er kuldaskræfa.

Ég hef talið það upp að öldurót við bakka undan vindi safnar oft saman ýmsu æti sem bæði urriði og bleikja gera sér að góðu. Í einhvern tíma hef ég líka haldið því fram að með vindi eykst súrefnisinnihald vatnsins og þá fara pöddurnar frekar á stjá og fiskinum hleypur kapp í kinn. Eitt hef ég vísast ekki nefnt og það er að í vindi losna oft ýmis efni úr bökkum vatna, sérstaklega þar sem gróður nær vel niður að vatninu. Þessi efni, oft leir eða mold, skolast út undan ágangi öldunnar og eiga það til að dreifa sér yfir nokkurt svæði við bakkana. Þegar vind lægir og alda fer að stillast fara síðustu gárurnar oft í að þjappa þessum efnum saman í rönd við bakkann eða skammt úti á vatninu.

Jafnvel þótt þessi rönd beri ekki með sér æti, sem gerist reyndar mjög oft, þá sækir fiskur ótrúlega nálægt bakkanum þegar röndina leggur að landi. Eðlishvöt vatnafisks er að verja sig árás úr lofti og því leitar hann oft í að sveima undir svona rönd því þar telur hann sig óhultan fyrir loftárásum og það er stutt í fengsælt hlaðborð skordýra og hornsíla við bakkann.

Kveikjan að þessum pistli er minning af svona grugg-rönd sem lagði upp að vatnsbakka og fór eitthvað í pirrurnar á mér þannig að ég kastaði flugunni í gríð og erg út fyrir til að allir fiskarnir sæju hana nú nógu vel. Jú, hún sást og ég sá þegar fiskurinn tók sporðaköst að henni, rétt frá fótum mér í miðju grugginu fyrir framan mig. Það fylgir ekki sögunni hvort hann hafi tekið fluguna, það er mitt að vita og ykkar að geta ykkur til um.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.