Flýtileiðir

Bónus við votflugur

Ég gleymdi alveg um daginn þegar ég stakk nokkrum orðum niður á síðuna um litlar straumflugur sem í mínu tilfelli eru klassískar votflugur, að það er einn frábær kostur við að veiða svona minni flugur. Í eðli sínu eru þessar flugur náttúrulega miklu léttari í kasti og í vatni heldur en stórvaxnar straumflugur og það getur bara skipt töluverðu máli. Bónusinn er því að það er hægt að leyfa sér að vera með léttari línu og stöng með votflugu heldur en stóra straumflugu.

Þegar ég tók minn stærsta fisk á klassíska votflugu eftir töluvert bras með stærri straumflugu í læk sem rennur á milli vatna norður í landi, þá runnu upp fyrir mér kostir léttari útbúnaðar undir viðkvæmum kringumstæðum. Þannig var að ég var búinn að rölta töluverðan spotta með vatnsbakka og var með nokkrar hefðbundnar straumflugur og marabou flugur úti til skiptis. Jú, ég setti í fiska og þeir eltu þessar eftirlíkingar af hornsílum alveg upp í harðaland, en þegar ég kom að afskaplega penum og vatnslitlum læk, vaknaði forvitni mín; er einhver fiskur í þessu litla vatni?

Til að byrja með var ekkert mál að koma straumflugu niður í lækinn en eftir því sem ég gekk lengra með honum, þá þrengdist hann og þar sem ég í brasi mínu gafst upp og stöðvari för var breidd lækjarins ekki meiri en svo að ég gat staðið á báðum bökkum með sitthvorn fótinn. Að vísu var þetta sérlega auðveld leið til að veiða álitlega hyl sem ég kom að, mér dugði að teygja stöngina fram og gefa út þannig að straumflugan fór beint niður í dýpið sem var reyndar verulegt, en trúlega voru þetta ekki fallegar aðfarir að sjá.

Vandamálið sem ég upplifði var aftur á móti að bæði flugurnar mínar og línan tóku allt of mikinn straum á sig og náðu ekki að veiða allan hylinn áður en þær flutu upp úr honum. Þar sem ég þóttist vita að þessi hylur geymdi fisk, þó þröngur væri, voru mér aðeins tvær leiðir færar; þyngja fluguna eða nota nettari flugu og græjur. Hið síðar nefnda varð ofan á og til að toppa umbreytinguna, skipti ég úr straumflugu í hefðbundna Watson‘s Fancy votflugu #14. Og viti menn, lónbúinn hélt greinilega til við enda hylsins þar sem straumfluguna var tekinn að fljóta upp en votflugunni tókst að læðast að honum.

Þetta var vænn fiskur og í fyrstu var ég hissa á að hann héldi til í þessum litla og þrönga læk, en vitaskuld var þetta besti staðurinn á öllu svæðinu. Þarna þjappaðist allt ætið sem flæktist á milli vatnanna saman á mjög litlu svæði og hann þurfti væntanlega ekki að gera neitt annað en opna munninn reglulega til að ná munnfylli. Þarna sem sagt, lærðist mér að léttari flugur í svipuðum búningi og gáfu í stöðuvatninu, gátu verið vænn kostur á léttari græjur í rennandi vatni við erfiðar aðstæður.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com