Sumir pæla mikið, rosalega mikið, í flugum. Stöku veiðimaður sekkur svo djúpt í flugupælingar að það jaðrar við lyndisbrest (geðveiki) og verður eiginlega að teljast óheilbrigt. Guði sé lof, þá er ég alls ekki þannig og næ alveg að standa með báðar lappirnar á jörðinni þegar kemur að flugum og flugupælingum.
Á nokkurra klukkustunda flakki mínu um daginn á síðum um flugur og fluguhönnun, þá rakst ég á ummæli mislynds andstæðings veiða og sleppa sem vildi meina að þessi árátta (e: compulsion) væri að skemma alla fluguveiði í heiminum. Það væri orðið nær ómögulegt að fá fisk til að taka flugu, hann þekkti orðið allar flugur sem settar hefðu verið saman og vissi að það væri bara ávísun á kvöl og pínu að glefsa í þetta dót.
Mér brá þegar ég las þetta, vissi ekki að kunningi minn væri svona vel máli farinn á erlenda tungu og gæti skrifað af slíkri snilld. Að sama skapi undraðist ég að hann kvittaði ekki fyrir færslunni með því nafni sem presturinn í Hafnarfirði jós honum yfir höfuð fyrir áratugum síðan.
Ég á nefnilega kunningja sem ýjaði að því fyrir ekki svo löngu síðan að það væri mögulega búið að ástunda V&S svo lengi í ákveðnum ám að þriðja og fjórða kynslóð fiska væri kominn með genatíska innprentun að matur væri ekkert í líkingu við þekktar flugur sem hingað til hefðu alveg virkað en væru bara alveg hættar að gefa.

Allt í lagi, þessi inngangur var svolítið kerskinn, en hann er sannur að tvennu. Ég rakst á þessa grein og ég á kunningja úr Hafnarfirðinum sem sagði þetta. Reyndar klikkti hann út með því að segja; Tja, ég veit ekki þannig að það getur alveg eins verið að hann hafi verið að atast í mér. En, þegar öllu er á botninn hvolft þá eru kenningar um að lærð hegðun erfist á milli kynslóða. Getur þá ekki verið að fiskur sem sleppt hefur verið X sinnum á ævinni taki upp á því að forðast oddhvassa hluti sem veifað er framan í hann? Brot af þessari fóbíu festist í genum fisksins og erfist þannig yfir í næstu kynslóð sem kveikir þá fyrr á þessari fóbíu og þannig koll af kolli þar til einhver kynslóðinn þarf ekki einu sinni að prófa að glefsa í flugu til að forðast hana. Ég segi nú bara eins og kunningi minn; Tja, ég veit ekki.
Senda ábendingu