Kortin

Það er kominn sá tími ársins þegar ég sest niður og fer að velta fyrir mér efnistökum í nær árlegan pistil í bækling Veiðikortsins. Stundum fæ ég ‘skúbb’ um efnistök, en þetta árið, þ.e. fyrir Veiðikortið 2023 get ég ekki lekið neinu sem er á döfinni. Það þýðir þó ekki að það sé einhvern lágdeyða í kortunum, öðru nær. Það er alltaf eitthvað spennandi og nýtt að gerast á kortinu og árið 2023 verður engin undantekning.

Fyrir árið 2022 voru mér hugleikin ýmis kort og félagsstarf að vetri eins og sjá má hér að neðan.

Það eru mestar líkur á að þú, lesandi góður, sért handhafi Veiðikortsins fyrst þú ert að lesa þennan stúf og því er tilefni til að óska þér til hamingju með kortið.

Á þeim tæplega 20 árum sem Veiðikortið hefur glatt okkur hefur orðið til ákveðið, þó óformlegt, veiðisamfélag meðal handhafa þess. Hver sá sem hampar kortinu gengur að vísum veiðisystkinum á öllum aldri, hringinn í kringum landið sem framvísa því með meiri gleði og ánægju heldur en flestum öðrum kortum.

En með Veiðikortinu fylgja líka önnur kort, því að í þessum bæklingi er að finna veiðistaðakort með skýrum mörkum veiðisvæða, leiðbeiningar um aðkomu að vötnunum og fleira nytsamlegt. Á veraldarvefnum má síðan finna enn önnur kort af sömu vötnum þar sem fengsælla veiðistaða er getið í bland við annan fróðleik.

Með öll þessi kort upp á vasann ætti sumrinu 2022 að vera nokkuð vel borgið en þá er bara spurningin hvað Veiðikortshafar ætli að gera í vetur? Þar gætu einhver önnur kort komið að góðum notum, t.d. aðildarkort að einhverju þeirra fjölmörgu stangveiðifélaga sem eru á landinu og má þar nefna Stangaveiðifélag Reykjavíkur, Ármenn, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Akureyrar o.fl.

Öll þessi félög bjóða upp á starfsemi yfir vetrartímann sem vert er að kynna sér. Margt af því sem þessi félög bjóða upp á er opið almenningi og um að gera að nýta sér öll slík boðskort. Allt sem styttir biðina eftir næsta sumri er af hinu góða og ekki verra ef það tengist veiði og veiðimennsku.

Sjálfur hnýti ég veiðitímabilin saman, sem er hin besta skemmtun. Þá er ég einn sér eða í smærri, jafnvel stærri hópum veiðifélaga og vina. Þar sem ég veiði eingöngu á flugu liggur beinast við að ég hnýti mínar flugur sjálfur en því er alls ekki þannig farið um alla veiðimenn. Sumir veiða nær ekkert á flugu en hnýta samt, ánægjunnar vegna. Þessi nytsamlega fingraleikfimi hefur laðað ýmsa að sér og veturnir eru einmitt tíminn til iðka þessa leikfimi.

Þau ykkar sem ekki hnýta þurfið ekki að örvænta. Vetrarstarf stangaveiðifélaganna er fjölbreyttara en svo að aðeins fluguhnýtingar séu á dagskrá og þar kemur Veiðikortið líka sterkt inn. Veiðistaðakynningar, fiskirannsóknir, veiðisögur og almennt sprell verður örugglega að finna á dagskrá félaganna og því um að gera að kynna sér starf þeirra. Það er fátt skemmtilegra fyrir unga sem aldna að hittast, skeggræða veiði og veiðimennsku eða bara njóta þess sem á borð er borið.

Eftir stendur að Veiðikortið límir allt þetta saman, veiðitímabil við vetur, vetur við veiðitímabil og þannig koll af kolli eins og kortið hefur nú gert í nær tvo áratugi.

Ég ætla í það minnsta að gera mitt besta til að stytta biðina eftir næsta veiðitímabili, hnýta mínar flugur og heimsækja viðburði veiðifélaganna í vetur.

Veiðikveðja, Kristján Friðriksson

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com