Elítuveiði

Hugrenningartengsl er merkilegt fyrirbæri, eitt leiðir að öðru og áður en varir er maður kominn órafjarri því sem kveikti hugrenningar. Ég hlustaði nýlega á umfjöllun um sölu veiðileyfa á Íslandi í sumar sem leið. Gott sumar, erlendir veiðimenn og traustir íslenskir aðilar var svolítið viðkvæðið hjá þeim sem ræddi við fréttamanninn, ekki eitt orð um íslenska veiðimenn. Þegar ég heyrði þetta, rifjuðust upp fyrir mér orð sem kunningi minn lét falla í vor sem leið þegar honum hafði verið boðið í veiði af fyrirtæki sem hann átti í smávægilegum viðskiptum við.

Þaðan skaust hausinn á mér til bankanna sem áttu sínar vikur í ákveðnum ám hér um árið og hefur að sögn verið að lifna við eftir nokkur ár í dvala. Frá þessu leitaði hugurinn aftur til þess dags er ég lagði smájeppanum mínum á milli u.þ.b. 10 sérútbúinna jeppa á hlaðinu við ákveðið veiðihús hér um árið. Raunar bar hlaðið meiri keim að sumarhátíð ákveðins bílaumboðs heldur en veiðihúss austur á landi, stífbónaðir stálfákar skreyttir veiðistöngum með plastinu enn á korkinum. Hva, ertu ekki á Cruiser?  var ég spurður og ég hafði rænu á að segja sem minnst, þarna var ég greinilega kominn töluvert langt út fyrir mína kreðsu. Sjálfan tel ég mig vera hálfgerðan sveitastrák í stangveiði þó að ég hafi með tíð og tíma eignast vandaðar veiðigræjur og þykir gaman að aka um á góðum bíl. Ég fer í veiði, veiðinnar vegna og þá skipti mig ekki máli hvort það er margréttað í matinn eða bara lifrarpylsa og rúgbrauð.

Síðustu tengslin sem kviknuðu vegna þessarar fréttar voru við æviágrip Alexanders nokkurs Wanless sem ég las fyrir nokkrum árum og hafa oft verið mér hugleikinn.

Þó ég geti samsvarað mig töluvert með Wanless, þá er langt því frá að ég nái að narta í hæla hans enda hafa mér aldrei dottið önnur eins snjallræði í hug og hann lét sér til hugar koma löngu fyrir miðja síðustu öld. Honum datt til að mynda í hug, mitt í Mekka fluguveiðinnar á Bretlandseyjum, að nota létt kasthjól og nælon línu í fluguveiði í stað hefðbundinna flugustanga og flugulínu. Fyrir þetta var hann umsvifalaust stimplaður villutrúarmaður og útskúfað úr nærsamfélagi veiðimanna á heimaslóð. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að mér hefur orðið hugsað til Wanless í gegnum tíðina, sérstaklega þegar þeir sem vit hafa á taka sig til og fordæma ákveðnar flugur eða veiðiaðferðir, minnugur fordæmingu Squirmito af sömu mönnum sem kepptust við að hlaða gúmmílöppum á Nobbler.

Alexander Wanless gekk gott eitt til með þessum hugmyndum sínum um fluguveiði með kaststöng, nettu hjóli og línu. Á þeim tíma sem hann var einna atkvæðamestur var það ekki á hvers manns færi að fjárfesta í flugustöng og tilheyrandi til að stunda lax- eða silungsveiði. Sem innfæddum Skota rann honum það til rifja að innfædda veiðimenn var nánast ekki að finna við skoskar ár á árunum 1920 – 1950. Bæði var það að ‚eigendur‘ ánna voru aðkomupakk sem vildu ekkert með sveitalubba hafa og svo var það þessi óheyrilega dýra umgjörð sem hafði skapast um veiðina.

Það er hægt að segja ýmislegt um Wanless, en villutrúarmaður var hann ekki. Kannski uppreisnargjarn, en að sama skapi sanngjarn, því honum datt aldrei í hug að snúast gegn hefðbundinni fluguveiði. Hann vildi aftur á móti gera fleirum kleift að njóta hennar án tillits til stöðu, uppruna eða efna. Hann var einlægur and-elítusinni í eðli sínu og varð þar af leiðandi fyrir miklu aðkasti þurrfluguelítunnar bresku sem réð lögum og lofun í stangveiðinni. Guð forði okkur frá þungum flugum var boðorð þeirra og því var fylgt hart eftir, sem og öllum afbrigðum frá hefðbundum fluguveiðigræjum.

Eftir stendur nú samt að rannsóknir og prófanir Wanless höfðu meiri áhrif á þróun fluguveiðinnar heldur en margir vilja viðurkenna enn þann dag í dag. Í sífelldri leit sinni að hentugu efni í stangir og línur, kom Wanless sér upp stöðluðum prófunum til að meta sveigju og brotstyrk stanga, slitstyrk lína og kynnti til sögunnar þetta dásamlega samspili á milli sverleika línu, þyngdar agns og þess sem veitt er.

Grundvallarkenningar hans og eðlislægur skilningur á eðli góðra veiðistanga varð til þess að þekktir framleiðendur eins og t.d. Hardy tóku til við að hanna sveigjanlegri stangir sem gátu tekið við og temprað snöggt átak og viðbragð fisks þannig að veiðimenn slitu síður línur og tauma, sem aftur hafði það í för með sér að unnt var að nota grennri og léttari línur. Þeir sem hafa prófað stangir frá fyrri hluta 20. aldar vita hvað við er átt því kústasköft svignuðu trúlega betur en stóru laxaprikinn, styrkur þeirra var fyrst og fremst metinn af sver- og stífleika þeirra.

Sem veiðimaður var Wanless athugull og eftirtektarsamur. Hann þreyttist seint á því að leiða mönnum fyrir sjónir að laxfiskar bregðast við átaki með krafti í gagnstæða átt. Til þess að landa fiski þarf stöðugt en létt átak án þess að fá fiskinn upp á móti sér í reiptog. Laxfiskur sem dreginn er inn á aflinu einu saman veitir miklu meira viðnám en sá sem þreyttur er hæfilega. Það liðu reyndar áratugir þar til vísindamönnum tókst að sanna þessa eðlislægu athugun Wanless með gríðarlega kostnaðarsamri atferlisathugun, sem þegar var viðurkennd og þekkt af fjölda veiðimanna.

Wanless skrifaði fjölda bóka og var meðal þeirra fyrstu sem skrifaði um stangveiði á mannamáli fyrir almenning. Bækur hans nutu mikillar hylli þar sem þær báru með sér að þar færu saman orð og athafnir manns sem þekkti efnið af eigin raun og hafði getu til að draga skynsamlegar ályktanir út frá eigin reynslu. Hans verður þó fyrst og fremst minnst sem málssvara þeirra sem ekki hafa kost á að taka þátt í elítuveiði þröngs hóps þeirra sem ráða för.

Og þar með er ég kominn að því sem kveikti þessar hugrenningar, afkomu stangveiðinnar eftir sumarið. Það skyldi þó aldrei vera að tími nýs málssvara Meðal Veiði-Jóns sé runninn upp á Íslandi? Í gegnum árin hefur Meðal Jón verið akkeri stangveiðinnar svo fremi hann hefur haft efni á að kaupa sér veiðileyfi, ekki uppábúið með egypskri bómull og fimm rétta kvöldverði í sprænu sem varla gefur fisk á dagsstöngina.

Það er farið að kólna á norðurhveli jarðar og erlendir veiðimenn verða nú að punga út nokkrum aukakrónum í orkureikninga ef þeir ætla ekki að krókna í vetur. Það er alls óvíst að þeir hafi efni á að standa við sínar pantanir næsta sumar, kannski þurfa þeir bara að gera sér heimaveiði að góðu og þá væri nú gott að hafa íslenska veiðimenn í bakhöndinni eða eru þeir búnir að fá nóg af því að kaupa forfallastangir á uppsprengdu verði?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com