Frá því skötuhjúin Adam og Eva komu einhverjum króum á legg, þá fór kynslóðabilið að gera vart við sig. Þegar ég lét mér þetta orðtak (fyrirsögnin) um munn fara hér um árið, þá stóð ekki á viðbrögðum yngri kynslóðarinnar á mínu heimili; Hva, er þér kalt? Að öllu gamni slepptu, þá rifjaðist þetta atvik upp fyrir mér þegar ég las annars ágætan pistil um daginn þar sem höfundurinn fór fimum orðum um hitt og þetta (sem tengdist að vísu ekki veiði, þannig að málefnið skiptir ekki máli). Undirtónninn í greininni var allur í skipanatón; gerðu þetta, gerðu hitt og það örlaði hvergi á hógværð, allt í boðhætti þess manns sem allt veit best. Hugrenningartengslin fóru á yfirsnúning hjá mér og upp fyrir mér rifjuðust samskipti sem ég átti á veiðistað við mér mun eldri veiðimann.
Þetta samtal átti sér stað fyrir áratugum síðan, svona um það bil sem ég var enn miðaldra og umræðuefnið var hvað þyrfti til þess að verða góður veiðimaður. Mögulega kveikti ég umræðutóninn með greddukenndum spurningum / yfirlýsingum um að fjöldi fiska hlyti að gera mann að góðum veiðimanni. Ég sá blóðþrýstingin rjúka upp hjá viðmælanda mínum, sjáöldrin víkka í öfugu hlutfali við augun sem pírðust saman og ég get svarið að eftir fyrsta svarið sá ég örla á svitaperlum á enni hans.
Heyrðu mig, Kristján minn. Fiskar skipta ekki máli, fiskur skiptir máli. Allir geta veitt fiska þar sem nóg er af þeim. Góður veiðimaður veiðir fisk þar sem þeir eru fáir.
Labbaðu varðlega, hættu þessu trampi og gættu orða þinna. Þó þú heyrir ekkert í sjálfum þér, þá finnur fiskurinn þegar þú nálgast.
Svo skaltu setjast niður. Opnaðu augun, lokaðu munninum, horfðu, hlustaðu. Horfðu á vatnið, þar eiga fiskarnir heima. Horfðu á vatnsborðið, þar eiga pöddurnar heima. Hlustaðu því þá veistu hvort þær eru á ferðinni.
Ekki standa upp fyrr en þú hefur séð eitthvað, heyrt eitthvað eða hvorugt. Ef ekkert er að sjá eða heyra, þá skaltu standa varlega upp og velta einum steini við, horfðu.
Opnaðu boxið og veldu eitthvað í samræmi við það sem þú hefur séð, allt annað er rugl, nema Peacock.
Mig skortir ritleikni til að koma tóninum til skila, en þessi orð hafa verið mér ofanlega í sinni síðan. Verst hvað mér hefur aumkunanlega tekist til að fara eftir þessum orðum, það er svo skolli margt sem maður veit að er rétt, en ástundar ekki.

Ég veit að þessi grein er full af orðum sem yngri kynslóðir vita hreint ekki hvað þýða, þeim bendi ég einfaldlega á að leita til sér eldri einstaklinga og spyrjast fyrir. Það er jú þannig sem við flest lærum eitthvað.
Senda ábendingu