Eins og gengur þá getur hárum fækkað. Það geta verið náttúrulegar ástæður fyrir þessari fækkun en svo geta veiðimenn einnig reitt hár sitt í bræði, af örvinglan eða klórað sér svo í kollinum yfir efnisvali flugna að á hárvexti sér. Í viðleitni til að koma í veg fyrir hið síðastnefnda, þá er hér stutt samantekt og ráð við val á hárum og feldi fyrir fluguhnýtingar.
Tegundir náttúrulegs hárs sem hægt er að nota til fluguhnýtinga eru nær ótakmarkaðar og síðan bætast við öll þau gerviefni sem framleidd hafa verið og heita ýmsum nöfnum. Náttúruleg hár eru flest öll fest á skinn sem annað hvort hefur verið verkað með þurrkun eða sútuð. Sem dæmi um þurrkuð skinn má nefna hala ýmissa dýra, grímur eða skott. Þurrkað skinn er nær ógjörningur að nota í flugur og klippa þarf hárin af skinninu áður en þau eru notuð í flugur. Sútað skinn er allt annar handleggur, það er mjúkt og meðfærilegt og má því nota með hárum í flugur. Þannig skinn með áföstum hárunum eru t.d. notuð í zonker flugur en stök hár af slíkum skinnum eru einnig notuð í flugur. Þau eru þá annað hvort skorin (rökuð) eða klippt af skinninu og eftir stendur skinnið berrassað. Hér langar mig að benda hnýturum á að halda nöktu skinninu til haga, það eru nefnilega til þær flugur sem hnýttar eru úr skinninu einu saman, án hára.

Þegar maður kaupir sútað skinn með hárum, þá er ágæt regla að skoða bæði fram og bakhlið skinnsins. Það sem þú ættir að leita að eru rifur á bakhliðinni, skallablettir í feldinum og það hvort skinnið allt sé þokkalega jafn þykkt. Það getur verið skollanum erfiðara að sneiða ræmur af rifnu eða misþykku skinni. Þar við bætist að misþykkt skinn leggst illa á flugu og í hnýtara, sérstaklega ef það eru hnúðar eða nabbar á því. Um skallabletti á skinni þarf ekkert að ræða, þeir eru að sama skapi til óþurftar. Það er líka ágætt að hafa almenna þykkt skinns í huga þegar það er keypt. Of þykkt skinn getur verið mjög erfitt að skera og nota í flugur, of þunnt skinn getur auðveldlega rifnað við hnýtingu eða þegar fluga er veidd.

Þurrkað skinn, sem yfirleitt er skott eða hali af dýri, jafnvel gríma af héra eða kanínu, ætti líka að skoða áður en keypt er. Þótt skallablettir séu ekki til eins mikilla trafala á þurrkuðu skinni þar sem maður klippir yfirleitt vöndul hárs af því eða rakar, þá geta áberandi skallablettir verið vísbending um að skinnið hafi ekki verið verkað nægjanlega vel. Þá kemur að nefinu; þefið af skinninu. Það er ekkert óeðlilegt að það sé létt lykt af þurrkuðu skinni en sterk lykt, jafnvel hreinn og beinn óþefur er nær öruggt merki um lélega verkun og það er fátt óskemmtilegra heldur en fá heimsókn framandi skordýra á hnýtingarborðið. Jafnvel vel verkuð og lyktarlaus skinn geta borið með sér egg eða lirfur skordýra sem geta vaknað þegar pokinn er opnaður þegar heim er komið. Aðeins smávægileg breyting á rakastigi getur kveikt líf og því er ágætt að renna í gegnum hársræturnar og kanna hvort þar leynist einhver ófögnuður. Sumir hnýtarar ganga svo langt að vera með lúsakamb á sér og renna honum í gegnum hárin til að leita að eggjum eða lirfum. Þar fyrir utan, þá getur það verið snjallt að eiga slíkan kamb á hnýtingarborðinu. Sjaldnast eru hnýtarar að leita að s.k. undirhárum í skinni, nema þá til að fjarlægja þau úr vöndlinum áður en hann er hnýttur á flugu. Þá getur lúsakamburinn komið sér vel. Rétt eins og að henda ekki sútaða skinninu, þá ættu hnýtarar ekki að henda undirhárunum. Þessi fíngerðu hár eru tilvalið efni í döbb, eins sér eða í bland við annað efni og í sumar flugur eru þau notuð eins og þau koma af skinninu og löngu hárunum hent, eða ekki.
Senda ábendingu