Flýtileiðir

Vanmetið hnýtingarefni

Það þarf ef til vill ekki að fara mörgum orðum um garn sem hnýtingarefni, en það læðist nú samt að mér sá grunur að garnflugur og þá gjarnan einfaldar flugur séu örlítið á undanhaldi hin síðari ár. Ein þekktasta garnfluga allra tíma er nær jafn gömul Pheasant Tail enda eru þær samfeðra, eingetnar systur. Hér er ég að vísa til Killer Bug sem Frank Sawyer opinberaði upp úr 1930 og ótrúlega margir hafa reynt að betrumbæta í áranna rás. Upprunalegur einfaldleiki flugunnar er viðlíka og Pheasant Tail, hráefni í hana aðeins tvö; Chadwick’s 477 ullargarn og rauðleitur koparvír og þessi fluga veiðir enn.

Hér heima á Íslandi eigum við þó nokkrar flugur úr garni sem státa af viðlíka einfaldleika, margar þeirra eru í raun bústnar Killer Bug eða svipar töluvert til Pheasant Tail. Allt eru þetta flugur sem gefið hafa vel í gegnum árin en hafa vikið svolítið fyrir ítarlegri útfærslum af ýmsum pöddum, yfirleitt meira skreyttum og glimrandi.

Eins og gefur að skilja er ekki allt garn eins. Hráefnið getur verið náttúruleg ull, bómull eða gerviefni, en sameiginlegt á nær allt garn það að vera ódýrt og drjúgt hráefni. Ætli það liggi ekki nokkuð nærri að í nokkuð venjulega púpu fari 4 – 6 sm af garni. Á venjulegri dokku af góðu ullargarni séu á bilinu 120 – 200 metrar sem kosta þetta frá 900 – 1.500 kr sem er þá hráefni í 2.000 – 5.000 flugur. Það er trúlega fátt hnýtingarefni sem toppar þetta og þar að auki má auðveldlega kljúfa flest allt garn í fleiri þræði og fjölga þá flugunum um nokkur þúsund. En það er vitaskuld óþarfi að fjárfesta í heilli hespu af garni því víða má finna garn í smærri einingum, jafnvel einn og einn hnykil á vergangi í einhverri prjónakörfu.

Auk þess að garn er af ýmsum gerðum, þá eru litir og afbrigði þess nær óendanlegir og flugurnar geta því verið mjög mismunandi, jafnvel þótt þeim svipi ef til vill alltaf svolítið saman að sköpulagi.

Garn er almennt mjög auðvelt í meðförum og það þarf ekki margar flugur til að komast upp á lagið með að hnýta úr því. Í flestum tilfellum nægir einfaldlega að vefja því um öngulinn, mynda búk og frambúk með sama efninu, hnýta það niður við hausinn og málið er dautt. Náttúruleg áferð ullargarns er þannig að það trosnar lítillega þegar því er vafið um krókinn, hinir og þessir stubbar af hárum standa út í loftið. Með öðrum orðum, þá er ullargarn afar lifandi efni og ef hnýtaranum þykir það ekki nógu úfið, þá má alltaf bregða bursta á fluguna til að ýfa það enn frekar upp.

Spunnið ullargarn er mjög sterkt efni, margfalt sterkara efni heldur en t.d. peacock fjaðrir sem þarf að styrkja með hnýtingarþræði eða vöfum þannig að þær trosni ekki strax í sundur. Í flestum tilfellum er óþarfi að styrkja garnflugur með vöfum, vír eða tinsel, því garnið sjálft er nægjanlega sterkt eitt og sér. Flestar garnflugur sem eru vafðar vír hafa verið vafðar til að auka þyngd þeirra, ekki endilega til að styrkja þær. Raunar er það þannig að ef notuð er náttúruleg ull, þá þarf lítið að þyngja fluguna með vír því ullin tekur alltaf í sig nokkuð af vatni og flugan þyngist þannig sjálfkrafa þegar í vatn er komin.

Þegar ég var að týna þessi orða saman í grein, þá var ég ósjálfrátt með ákveðnar flugur í kollinum. Ég hef þegar talið upp þær Sawyer‘s systur Killer Bug og Pheasant Tail, en það má alls ekki gleyma öllum þeim vot- og straumflugum sem við þekkjum þar sem garn er oft aðal hráefnið í búk þeirra. Það er nú reyndar þannig farið um garnflugur, rétt eins og flestar aðrar flugur nútímans að þeim svipar í megin atriðum til þeirra systra, í það minnsta í sköpulagi. Prófíll flugna er jú oftast sóttur til sömu fyrirmynda, skordýra.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com