Það hefur ósjaldan komið fyrir að ég er helst til sparsamur á marabou fjaðrir þegar ég hnýti flugur eða ég nota ranga tegund þeirra í þær flugur sem ég er að hnýta í það og það skiptið.
Marabou fjaðrir, sem vitaskuld eru ekki af marabou storkinum heldur kalkún eða hænu, eru sérlega líflegt og púffí efni til fluguhnýtinga. Um leið og þær eru komnar í vatn þá verður oft heldur lítið úr þeim, nánast ræfilslegar ef ekki er nóg af þeim. Ég hef oft heyrt hvíslað í eyra mér; Meira marabou þegar ég hnýti með félögunum og ég er að vinna í þessu.
En hvað er þetta með mismunandi tegundir af marabou og hvað á maður að hafa í huga þegar maður kaupir slíkar fjaðrir? Gróflega má skipta marabou fjöðrum í þrjá flokka, hver með sína eiginleika og tilgang í fluguhnýtingum.

Langsamlega algengustu fjaðrirnar eru s.k. plums. Gríðarlegt magn þeirra í umferð ræðst einfaldlega af því að þetta eru algengustu fjaðrirnar á fuglinum, þær sem raða sér við enda fjöðurstafsins á stærri fjöðrum. Þessar fjaðrir eru helst nýttar með því að fjarlægja fanirnar eða staka geisla hennar frá hryggnum og nota í hringvöf eða sem dup í flugur. Raunar nota ég þessar fjaðrir gjarnan í skott á Damsel eða Nobbler flugum sem ég hnýti í stærð #12 og smærri.
Blood quill eru yfirleitt saumaðar saman í vöndul þannig að þær enda nær allar jafn langt frá sauminum og mynda þannig bústinn pensil með tiltölulega beinum enda. Fjaðrirnar eru gjarnan nýttar í væng eða skott á straumflugu og hver fjöður eða nokkrar saman eru hnýttar niður með stilkinum áföstum sem síðan er klipptur frá eða notaður til að þykkja búk hennar fyrir framan skottið.
Stems eða einfaldlega Woolly Bugger marabou eru lengstu og grófustu fjaðrirnar í fjölskyldunni. Hæpið er að nota nema 2/3 af þessari fjöður í hringvöf með stilkinum áföstum því neðsti hluti hans er yfirleitt svo sver að hann brotnar frekar en að vefjast um legg eða búk flugunnar. Þessar fjaðrir eru ofast notaðar í stórar flugur eða fanir reittar af stilkinum í smærri flugur. Almennt eru geislar þessara fjaðra heldur grófari heldur en hinna tveggja tegundanna hér að ofan og ekki alveg eins líflegar í vatni.
Þegar kemur að því að velja marabou fjaðrir, þá kaupi ég ekki marabou fjaðrir óséðar nema þá frá framleiðanda sem ég treysti og hef góða reynslu af. Það er eiginlega tvennt sem ég hef helst í huga þegar ég vel fjaðrir. Nær allar marabou fjaðrir eru litaðar og þegar ég vel mér quills eða stems, þá horfi ég fyrst á það hvort liturinn sé þéttur og einsleitur og hafi örugglega náð allri fjöðrinni. Það kemur ósjaldan fyrir að neðsti partur þessara fjaðra sé lítið sem ekkert litaður sem skerðir nýtingu þeirra. Hitt atriðið sem ég skoða er hvort fjaðrirnar séu óskemmdar, ekki tættar og rifnar þannig að jafnvel hluta vanti í fjöðrina sem gerir hana álappalega þegar hún er hnýtt. Brotinn stilkur er líka eitthvað sem ég skoða, því það getur verið óttalegt vesen að ná ósködduðum fönum af brotnum stilk.
Það er mín reynsla að ákveðin vörumerki tryggja ákveðin gæði, annað hvort ásættanleg eða framúrskarandi, þannig að ég treysti mér alveg til að versla nokkrar tegundir á netinu, óséðar. En, rekist ég á nýtt eða óþekkjanlegt vörumerki, þá reyni ég alltaf, ef mögulegt er, að opna pakkann og renna lauslega yfir fjaðrirnar áður en greitt er fyrir vöruna. Ég hef aðeins einu sinni fengið svip frá starfsmanni í verslun þegar ég hef gert þetta. Sá svipur fór nú fljótlega af honum þegar ég dró brotna fjöður upp úr honum og spurði; Hver er afslátturinn af þessari?
Senda ábendingu