Flýtileiðir

Hvaða þráð í fluguna?

Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það að flugur eru misjafnar. Fíngerðar, grófar, stórar og litlar, svo ekki sé nú farið út í það til hvaða veiða þær eru ætlaðar. Sumar flugur eru eyrnamerktar löxum, aðrar urriða, enn aðrar bleikju og þar fram eftir götunum. Nei, ég ætla ekkert að efast um eyrnamark flugna, bitin aftan vinstra gefur einfaldlega til kynna að urriði hafi tekið í hana, nartað skotti aftan er einkenni bleikjunnar rétt eins og skóflað upp að framan. Ég hef ekki hugmynd um það hvað eyrnamark laxaflugu er, hann tekur ekki flugu, hann agnúast víst helst út í þær og festist bara óvart. Við skulum sjá til hvort einhver hafi ekki eitthvað við þessa setningu að athuga.

Í fljótu bragði man ég aðeins eftir einu sem allar flugur eiga sameiginlegt og það er hnýtingarþráðurinn. Þessi dásemd sem getur leikið í höndum manna, orsakað fúkyrðaflaum þegar hann slitnar eða lagst svo vitlaust að efnið undir og ofaná verður eins og kroppinbakur Frúarkirkjunnar í París.

Til langs tíma var hnýtingarþráðurinn spunninn úr silki, síðan hör og nú síðast komu gerfiefninn og þeim fjölgar ár frá ári. Eins og fram hefur komið hér á síðunni, þá er sverleiki þráðar helst gefinn upp með þremur mismunandi stöðlum. Núll skalanum (e: aught) sem við þekkjum sem einhver tala með viðskeytinu /0 þar sem hærri tala táknar grennri þráð. Denier skalinn sem snýr þessu á hvolf þar sem hærri tala táknar grófari þráð. Svo datt einhverjum í hug að fara merkja hnýtingarþráðinn með tex eða decitex sem er eiginlega sama aðferðin og notuð er við denier. Gallinn við allar þessar aðferðir er eftir sem áður að engin þeirra mælir raunverulegan sverleika þráðar, þeir byggja allir á vigt og því er ekki hægt að bera saman sverleika mismunandi hráefna með því að styðjast við þessa skala. Ef hnýtarar vilja virkilega sökkva sér niður í þessar pælingar, þá er hægt (með smá snúningum og stússi) að finna micron einingu hnýtingaþráðar hjá nokkrum framleiðendum og þá sjáið þið svart á hvítu hver sverleiki þráðarins er. Meira að segja ég nenni ekki að sökkva mér niður í þessar pælingar. Þess í stað ætla ég aðeins og henda hér inn grófa flokkun á nokkrum sverleikum og til hvers þeir hafa hentað mér best og byggja á því sem er til staðar við mitt hnýtingaborð.

UNI 1/0 þráðurinn er eiginlega steypustyrktarjárnið í fluguhnýtingum. Sérstaklega sver þráður sem hentar nær eingöngu í stærri straumflugur, saltvatnsflugur og aðrar flugur sem hætt er við að verði fyrir miklu áreiti. Þennan þráð keypti ég nær eingöngu fyrir forvitnis sakir og hef nær ekkert notað hann.

UNI 3/0 þráðurinn er eiginlega sá sverarsti sem ég hef notað og þá helst til að spinna og festa niður mökk af dádýrahárum á flugu. Almennt nota ég þennan þráð ekki mikið, en það kemur fyrir að ég styrki púpur með honum ef ég vil ekki nota vír.

UNI 6/0 er að sögn annar af algengustu hnýtingarþráðunum. Hentar vel í vel flestar straumflugur, púpur og flugur þar sem ekki er endilega gerð krafa um nettan haus eða flothæfni flugu, nema þá til að hnýta niður flotefni eins og holhár eða svamp því sver þráður sker síður svampinn og hárin. Í einhvern tíma var talað um að byrjendur ættu að nota þennan þráð þar til þeir hefðu náð tökum á styrkleika þráðar og átaki við hnýtingar. Þótt ég hafi fært mig svolítið til á skalanum, þá nota ég þennan þráð ennþá þegar ég hnýti stærri púpur og straumflugur.

UNI 8/0 er sagður vera algengasti hnýtingarþráðurinn. Hentar ágætlega þeim sem hafa náð tökum á hnýtingum, passar vel í all flestar flugur og gefur möguleika á snyrtilegum frágangi hauss og fjaðra. Hann er enn í ákveðnu uppáhaldi og ég nota hann mikið. Þráðurinn sem ég hef bundist ástar- og haturssambandi við, tek hann alltaf fram og byrja með hann, en þegar hann hefur slitnað þrisvar til fjórum sinnum í einni flugu, þá skipti ég yfir í aðra tegund sem er jafnvel léttar.

Veevus 10/0 er eiginlega minn alhliða þráður í dag. Þó aught tala hans gefi til kynna að hann sé veikari en UNI 8/0, þá er því þveröfugt farið. Hann er eins og talan gefur til kynna, grennri en hann er töluvert sterkari og heldur sér vel í keflishöldunni. Þennan nota ég óspart í miðlungs straumflugur, votflugur og púpur sem ekki krefjast rennislétts yfirborðs.

Í púpur sem ég vil hafa rennisléttar, þá nota ég annan tveggja; Veevus 140 eða UTC 70. Þessir þræðir eru báðir gefnir upp í denier og UTC þráðurinn er sverari, en hann er hreint ekki tvöfalt sverari þó hann sé tvöfalt þyngri. UTC var lengi vel minn þráður, en hann á það til að trosna svolítið hjá mér og því leitaði ég að arftakanum og fann hann í Veevus 140 sem heldur sér betur og er þess að auki grennri. Þessa þræði nota ég gjarnan í votflugur og þeir hafa reynst mér vel þar sem ég vil hafa rennislétta áferð og snyrtilega vafninga.

Þá er aðeins eitt af mínum algengustu þráðum eftir og það er sá sem ég nota í smávaxnar flugur, hvort heldur þær tilheyra ættbálki púpa, votflugna eða straumflugna. Eftir að hafa prófað nokkuð margar tegundir, þá sættist ég á nota Veevus 16/0 og sé ekki eftir því. Hvað sem ræður, þá leikur þessi þráður við mismunandi hráefni, heldur vel í hnútum og tekur lakki vel þannig áferðin verður falleg. Það sem þessi þráður er spunninn, rétt eins og Veevus 10/0, en ekki flatur eins og Veevus 140 og UTC 70, þá næ ég að vísu ekki alveg eins sléttu yfirborði en þráðurinn vegur það upp með því að vera sérlega sterkur og meðfærilegur.

Að lokum er vert að geta þess að val á hnýtingarþræði er mjög persónubundið og eflaust skilja sumir ekkert í þessu vali mínu og vilja meina að einhver annar eða önnur tegund sé miklu, miklu betri. Þó uppskrift að flugu segi svona og svona marga vafninga af þessum eða hinum þræðinum, þá getur einn hnýtari vafið þennan þráð þétt og áferðafallega á meðan sá næsti gerir ekkert annað en slíta hann eða búa til hóla og hæðir. Við erum berum okkur misjafnlega að og beitum mismiklu átaki, svo er sumum það gefið að láta hvern vafninginn renna saman við þann næsta á undan á meðan aðrir flengjast út og suður, fram og til baka og það grisjar samt sem áður í undirlagið.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com