Um þessar mundir ættu flestar vöðlur að vera orðnar þurrar, hanga snyrtilega afsíðis í skugga eða í það minnsta þar sem vetrarsólin nær ekki til þeirra. En það eru líka til þau augnablik, jafnvel heilu dagarnir á sumrum þegar vöðlurnar ættu að fá að þorna og haldast þurrar.
Síðasta sumar, rétt eins og fleiri sumur, glímdi ég við þann krankleika í vöðlum að þær héldu ekki vatni alveg eins og til er ætlast. Sjálfur glímdi ég við þann krankleika að geta ekki fyrir mitt litla líf munað eftir því að eltast við óþéttan saum eða núning í efni þegar ég var búinn að veiða, þannig að þær héldu bara áfram að leka þegar ég dýfði tánni næst í vatn.
Þar sem mér er meinilla við að vera blautur í fæturna tók ég ósjálfrátt upp á því að halda mig meira og meira á bakkanum og viti menn, ég lærði ágæta lexíu af því. Fyrir það fyrsta, þá náðu köstin mín frá bakkanum alveg jafn langt, jafnvel aðeins lengra heldur en þau sem ég náði með vatnið upp í klof; ERGO ég var oft að vaða að óþörfum.
Á ákveðnum veiðistöðum sem ég heimsótti í sumar voru vel upplýstir fiskar á ferð, þ.e. þeir höfðu náð ákveðnum þroska og stærð sem fæst náttúrulega ekki ef viðkomandi fiskur hunsar öll viðvörunarmerki eins og t.d. urg í steinum, gusugang og skugga veiðimanns. Nei, þessir höfðingjar höfðu náð stærð sinni og aldri vegna þess að þeir tóku mark á því þegar þrýstingsbylgja frá landi lenti á þeim, hraunbotninn urraði og brakaði undan vöðluskóm og skyndilegur skuggi færðist yfir búsvæðið. M.ö.o. þeir vissu að þeim stæði ógn af vaðdýrum og létu sig hverfa niður á meira dýpi eða út á vatnið.
Nú er það svo að ég gef ekki lengur upp fjölda veiddra fiska hér á síðunni, en trúið mér að þótt sumar ferðir hafi ekki verið upp á marga fiska, þá var fjöldi fiska alveg með ágætum síðasta sumar. Það að ég dýfði vart tá í vatn hafði engin áhrif á aflabrögðin. Ég mæli alveg með því að leyfa vöðlunum að þorna við og við, sjáðu til hvort þú verðir var við fleiri fiska og nær jafnvel að setja fluguna niður á heppilegri stað ef þú heldur þig á bakkanum.
Senda ábendingu