Pólska rótin að Euro Nymphing á rætur að rekja til áttunda áratugar síðustu aldar þegar Pólverjar tóku til við að þróa og veiða með afar lítilli línu í straumvatni, ef þá einhverri línu yfir höfuð. Þeir notuðu hefðbundnar fluguveiðistangir í stærðum #3 og #5 og taum sem var nokkuð frábrugðinn hefðbundnum taumum.
Árið 1984 kynnti einn af frumkvöðlum þessarar aðferðar, Jozef Jelenzki, nokkrum Tékkneskum landsliðsmönnum einhverjar flugur sem hann notaði með afar sérstakri veiðiaðferð sem Tékkarnir kölluðu stuttlínu tækni. Næstu árin á eftir var mjótt á mununum á milli Pólvera og Tékka í fluguveiðikeppnum. Árið 1989 má segja að þróunarferill Pólsku aðferðarinnar hafi náð ákveðnum tímamótum þegar Wladyslaw Trzebunia vann heimsmeistarakeppnina í fluguveiði sem haldin var í Finnlandi það árið og beitti til þess samsetningu taums sem hann hafði þróað um árabil og gekk lengi vel undir heitinu Pólski taumurinn.
Hvort Wladyslaw eigi hönnunina að hinum eina sanna Pólska taum þori ég ekki að fullyrða, það er líkt með Pólska tauminum og öðrum mannanna verkum, það hafa margir gert tilkall til hans eða það sem líklegra er, margir hafa verið með sömu eða svipaða hugmynd í kollinum á þessum tíma.
① eru 1 – 2 fet af 1X glæru fluorocarbon taumaefni sem tengd eru hefðbundinni flugulínu.
② eru 2 fet af 2X ljómandi eða lituðu fluorocarbon taumaefni sem virkar þá sem tökuvari.
③ eru allt að 5 fet af 2X glæru fluorocarbon taumaefni, s.k. leiðari.
④ eru 2 – 3 fet af 3X glæru fluorocarbon taumaefni sem hnýtt er utan um leiðarann þannig að það geti leikið laust, færst upp og niður eftir leiðaranum.
⑤ hnútur á samsetningu leiðaranns og ⑥ 3X fluorocarbon taumaenda, þessi hnútur er gjarnan nefndur stoppari þannig að ④ renni ekki að flugunni á enda ⑥
Þessi lýsing er, í sinni einföldustu mynd sá taumur sem kallaður hefur verið pólski taumurinn. Lengd ④ og ⑥ ræðst af dýpi þess vatns sem veiða skal.
Hér skal strax leiðrétta gamlan misskilning um Pólsku rótina; það var aldrei veitt með þremur flugum með þessari aðferð. Ástæðan er sára einföld, það var (er?) nefnilega bannað að veiða með fleiri en tveimur flugum í Póllandi.
Það sem vekur athygli við þennan taum er að eiginleg lengd hans er lítið lengri en hefðbundinn fluguveiðitaumur, u.þ.b. 9 fet. En það sem vakti enn meiri athygli og hafði ekki sést áður, var náttúrulega partur ② Það að nota mislitt eða ljómandi taumaefni sem tökuvara þótti snilld því tökuvarar höfðu jú áhrif á drag en það losnuðu menn við með þessari aðferð. Taumurinn og sú aðferð að láta flugulínuna sjálfa nær aldrei snerta vatnið gerir það að verkum að Pólska aðferðin hentar sérstaklega vel í straumhörðum ám og lækjum sem eru tiltölulega grunnir.
Flugurnar sem Pólverjar notuðu voru töluvert þyngdar og gjarnan vafðar ull. Upprunalega ekki eins straumlínulagaðar og þær sem við sjáum í Euro Nymphing í dag, en mjóslegnar þó. Sú mýta varð fljótlega til að Pólsku flugurnar væru allar ofnar eða heklaðar listaverk, en mér skilst að Pólverjar glotti nú aðeins að því og segi þær flugur hafi meira verið ætlaðar til að selja ferðamönnum heldur en til daglegs brúks.
Senda ábendingu