Flýtileiðir

Ruglandi

Yfirleitt er allt við fluguveiði eðlilegt, hvað leiðir af öðru og flest af þessu öllu fylgir náttúrulögmálum. Það eru þó til undantekningar frá þessari reglu og það eru sverleiki tauma og króka. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum þá er lægri tala minni heldur en hærri, er það ekki náttúrulega virknin í þessum arabísku tölum sem við styðjumst við? Jú, en því er öfugt farið þegar einhver merkir tauma og króka og til að bæta gráu ofan á svart, þá er annarri hverri tölu sleppt þegar þær eru hengdar við króka, yfirleitt.

Upprunalega var stærð króka ákvörðuð út frá öngulbilinu og leggurinn var tvöfalt öngulbilið að lengd. Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar hlutirnir voru einfaldlega einfaldir. Ef þörf var á lengri öngli var lengd augans bætt við legginn og þá voru þeir merktir 1XL. Næsta lengd þar fyrir ofan var 2XL (tvö augu) og þannig koll af kolli. Í þessu samhengi er X-ið ekki eitthvað Extra eins og við þekkjum í fatastærðum, heldur einfaldlega sinnum og talan fyrir framan hve mörgum sinnum auganum var bætt við staðlaða lengd. Sama formúla var notuð fyrir styttri öngla en þá var ein lengd augans eða fleiri dregin frá leggnum og þeir einkenndir 1XS, 2XS o.s.frv. þar sem S-ið stendur fyrir shorter. Öngulbilið og bugdýptin hélst alltaf hin sama, það var aðeins leggurinn sem var lengdur eða styttur.

Hvað öngulbilið var upprunalega sem ákvarðaði stærð króka veit ég ekki fyrir víst en eitt sinn heyrði ég að það var eignað honum Mathias Topp frá Gjøvik (Mustad) en það sel ég ekki dýrar en ég keypti það. Ég hef aldrei fundið upprunalega stærðartöflu (málsetningu) króka þannig að þetta er óstaðfestur orðrómur af götunni.

Með tíð og tíma viku framleiðendur frá upprunalegu reglunni og lengdir króka hættu að vera samkvæmt ofangreindu. Sumir framleiðendur tóku meira að segja upp á því að vera með eina staðlaða lengd fyrir votflugukróka, aðra fyrir púpukróka og enn aðra fyrir straumflugukróka, en allir hættu þeir að taka mið af öngulbilinu og hver um sig setti sér öngulbil króks eins og hann vildi. Þegar svo einhverjum datt í hug að búa til Wide Gap (WG) króka fór nú málið fyrst að flækjast. Í sjálfu sér er WG krókur #6 jafn langur og staðlaður #6 krókur en öngulbilið svipað og á krók #4. Það væri nánast hægt að merkja viðkomandi krók sem #4 2XS í stað þess að merkja hann #6 WG. Ætli sami krókur í Extra Wide Gape (EWG) væri þá ekki u.þ.b. #2 4XS.

Allt væri þetta bara í góðu lagi ef maður notaði alltaf sömu tegund króka í flugurnar, en það geri ég ekki alltaf. Oftast verður þó ein ákveðin tegund fyrir valinu sem fer skemmtilegan milliveg gæða og verðs, en það er allt önnur saga. Í þeim tilfellum sem ákveðin krókur er ekki til hjá mínum venjulega birgja og ég þarf að fara á stúfana, þá tek ég fyrirmyndina með mér og ber saman við þá sem ég finn. Þannig þarf ég ekki að stóla á upplýsingarnar sem eru prentaðar á umbúðirnar, hvorki varðandi stærð eða lengd. Það hefur oftar en ekki komið fyrir að ég enda með allt of stuttan eða allt of langar krók í höndunum og meira að segja munar stundum nær heilu númeri þegar ég ber þá saman.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com