Grenlækur – Fitjaflóð 11. – 13. maí 2021

Okkur veiðifélögunum bauðst að skipta með okkur stöng í þriðja holli í Flóðinu og við ákváðum að slá til og prófa eitthvað alveg nýtt. Í þessu holli voru reyndir veiðimenn með áratuga reynslu af veiði í straumvatni og það var því alveg eins víst að við næðum að grípa einhver tips and tricks þar sem hvorugt okkar hefur umtalsverða reynslu af fluguveiði í straumvatni.

Fyrir ferðina var vitaskuld legið yfir korti af veiðisvæðinu sem nær frá Efri-Skurð og niður í Neðri-Skurð fyrir neðan brú. Hið eiginlega Fitjaflóð (Flóðið) nær í raun aðeins þaðan sem Efri-Skurði sleppir og niður að s.k. Trekt. Þar fyrir neðan tekur við Hólmasvæðið og að lokum Neðri-Skurður.

Flóðið

Við hófum leika við Bátalægið í Flóðinu, renndum vitaskuld alveg í blint. Það svo örlítill vindur að sunnan og ég verð bara alveg að játa að straumurinn í Flóðinu var ekki meiri en svo að eftir smá tíma var ég orðinn 100% viss um að vatnið rynni til norðurs. Flóðið er gríðarleg víðátta, grunnt og væntanlega þarf að vað nokkuð duglega út að einhverri rennu eða kanti þar sem fiskjar er von. Veiðifélagi minn fékk eitt högg út frá Bátalæginu, en síðan ekki söguna meir þannig að þegar félagar okkar véku úr Trektinni, færðum við okkur þangað.

Eitt hafði Trektin fram yfir Flóðið, þar var ljóst hvert vatnið rynni því eins og nafnið bendir til þá þrengist farvegurinn þar töluvert og loksins sáum við einhvern alvöru farveg og straum.

Hann er á

Af litlu hyggjuviti og eftir nokkur köst var flugan (Black Ghost Zonker #8) tekin með látum og viðkomandi birtingur var greinilega ekki sáttur og tók stökkið en lagðist síðan niður í farveginn. Eitthvað gat ég haggað honum til að byrja með en á einhverjum tímapunkti var alveg eins og hann hefði verið negldur niður í botninn.

Spekingar spjalla

Eftir einhvern tíma bar félaga okkar að og skotið var á mikla ráðstefnu, spekingaspjall um það hvað best væri að gera. Í bland við sögur af 20 – 30 mín viðureignum komu ráðleggingar um að ég færði mig upp á móti strauminum, með strauminum, slaka örlítið á eða halda öllu föstu. Þetta stoðaði lítið sem ekkert, aðeins smá hnykkur á einhverjum tímapunkti en svo ekki söguna meir. Rétt í þann mund sem þolinmæði mín var á þrotum fórum tveir vaskir menn, arm í arm út í strauminn og …. losuðu flugulausan tauminn úr trúlega einu þúfunni sem fyrirfinnst í Trektinni. Baráttunni við þúfuna lauk því með fullnaðarsigri hennar og miklum hlátrarsköllum viðstaddra.

Ég tók pásu, sagði veiðifélaga mínum hvar fiskurinn hefði tekið og tölti í átt að bílnum, nú þyrfti ég hressingar við. Ekki veit ég hvort það var í öðru eða þriðja kasti að flugan var tekin með þessum líka tilþrifum og vænn birtingur sýndi sig. Eina ráðið sem ég gat gefið var að leyfa honum ekki að fara niður að þúfunni, sem henni tókst og að lokum kom 81 sm birtingu að landi.

81 sm sjóbirtingur

Þegar hingað var komið, fór að kula nokkuð þannig að við tókum okkur saman og héldum í hús. Góður og lærdómsríkur dagur að baki.

Flóðið – Bátalægi

Það verður ekki annað sagt heldur en miðvikudagurinn hafi brosað við okkur, búinn að láta hvítta aðeins í sér tennurnar því það hafði snjóað í fjöll fyrir vestan okkur um nóttina. Hitastigið fór hægt og rólega upp á við og það stóð á endum að þegar gengið hafði verið frá eftir staðgóðan morgunverð, var orðið veiðilegt mjög.

Algjörlega blankur veiðimaður

Við félagarnir ákváðum að prófa Neðri-Skurðinn án þess í raun að vita nokkuð hvar eða hvernig við ættum að bera okkur að. Þau voru reyndar nokkur svona andartökin sem brá fyrir í þessari ferð þar sem maður stóð á bakkanum og vissi hvorki upp né niður í því hvar bera skyldi niður, en þarna um morguninn brá þó svo við að við sáum til fiskjar, því annað slagið sáust þeir bylta sér í skurðinum miðjum. Við nánari skoðun og eftirtekt sáum við að fiskurinn hélt sig alveg þétt undir hinum bakkanum, stakk annað slagið upp trýninu og lét þannig vita af sér.

Hefði ég verið nokkrum áratugum yngri og með aðrar veiðigræjur í höndunum, þá hefði ég vitað upp á hár hvar ég hefði lagt flotið niður og leyft maðkinum að damla undan straumi inn í iðuna og þannig fyrir fiskinn. Þessar aðstæður og hegðun urriða þekkti ég frá fyrri tíð og í huganum færði ég því aðferðina yfir á þyngda flugu á flotlínu.

71 sm sjóbirtingur við allt of lítinn háf

Það var reyndar veiðifélagi minn sem náði fyrsta fiski dagsins, ljómandi fallegur 71 sm birtingur tók þarna undir bakkanum og lét ófriðlega. Brandari dagsins var trúlega þegar ég mætti með nettan silungaháf frúarinnar sem gagnaðist til lítils annars en til að króa fiskinn af þannig að unnt væri að taka úr honum fluguna áður en honum yrði sleppt aftur.

75 sm sjóbirtingur

Eftir ótal tilraunir og töluverðan eltingaleik við fisk sem sýndi sig reglulega undir bakkanum, náði ég loksins að setja í þann sem reynist minn eini í þessari ferð. 75 sm fallegur fiskur, þokkalega vel haldinn en greinilega á leið í hlaðborð Atlantshafsins.

Annar 75 sm sjóbirtingur

Það var svo veiðifélagi minn sem setti í einn fiskinn enn og hann mældist 75 sm líka. Fyrst hélt ég að þetta væri sami fiskur og hjá mér, en svo reyndist ekki vera. Það var því nóg af fiski á svæðinu, þó þeir væru misjafnlega tökuglaðir.

Þegar leið á daginn fór heldur kólnandi og við fengum á okkur örlitla úrkomu sem var í kaldari kantinum og við fórum því aðeins á stúfana, kíktum á Efri-Skurðinn, Tunnuna og á nokkra aðra staði án þess að verða vör við fisk. Á meðan að við vorum á þessu rápi fengu félagar okkar einhverja fiska í Neðri-Skurðinum og Göngu-Hrólfur setti í fiska á Hólmasvæðinu sem hann þrætti fram og til baka þessa daga með ágætum árangri.

Það var ekki laust við að einhver sprengur væri á mannskapnum á fimmtudagsmorgun, hálfur dagur framundan en menn gáfu sér þó tíma til að snæða staðgóðan morgunverð áður en þeir héldu til veiða. Við reyndum fyrir okkur í trektinni og víðar, en enduðum í Neðri-Skurðinum þó félagar okkar hefðu ekki orðið varir við fisk.

Neðri-Skurður

Það er svo einkennilegt að við höfðum þokkalega sterka tilfinningu fyrir því að fiskurinn væri á staðnum og þá helst undir bakkanum eins og daginn áður þó hann væri ekkert að sýna sig. Við skiptumst á og spennan jókst þegar leið að hættumálum. Veiðifélagi minn endaði á því að setja í sérlega vænan fisk undir bakkanum sem sýndi sig með stæl og streittist vel á móti, svo vel að öngul ómyndin sem ég hafði notað í hnýtingar rétti úr sér og fiskurinn lak af flugunni. Vissulega hefði verið gaman að ná þessum höfðingja á land, en svona er nú veiðin, ekki verður á allt kosið.

Heilt á litið var þetta afskaplega skemmtilegt ferð, félagsskapurinn frábær og við settum töluvert í reynslubankann og ég held að tveir viðvaningar á stöng megi vera sáttir við þessa fjóra fiska. Hvað bærist innra í mér eftir þessa ferð þarf ég að melta örlítið lengur, það væri áhugavert að reyna sig við Grenlæk og höfðingjana sem þar eiga sér óðal þegar þeir snúa aftur úr sjó, feitir og pattaralegir, fullir orku. Hver veit nema færi gefist til þess síðar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com