Flýtileiðir

Spegill

Þegar ég fæ að skyggnast í flugubox annarra veiðimanna fer stundum af stað einhver einkennilegur kokteill af tilfinningum innra með mér. Oft sé ég vel skipulagt box, öllum flugum raðað upp eftir greinilegu skipulagi og hvergi einhver óboðinn gestur í röðinni. Þá verður mér hugsað til þeirra sem leynast í mínum vösum, oftast kaos með lýtur engu skipulagi. Svo er það þessi tilfinning sem ég finn fyrir þegar hver einasta fluga í boxinu er nákvæm eftirlíking þeirrar næstu, hver fluga í þremur eða fjórum stærðum o.s.frv.

Boxið mitt er hreint ekki þannig að hver einasta fluga sé nákvæmlega eins og systir hennar sem er þarna einhvers staðar innan um allar hinar. Það kemur hreint ekki oft fyrir að úr minni þvingu fæðist eineggja tví-, þrí,- eða fjórburar, sérstaklega ekki ef heilt sumar líður á milli þess að ég hnýti umrædda flugu. Það hefur alveg komið fyrir að ég hef verið í ágætri veiði, svo trosnar flugan eða ég glata henni með einhverjum grunsamlegum hætti og verð að seilast í boxið eftir annarri eins. Einmitt, hún ætti að vera eins, en er það ekki alveg. Kannski er skottið aðeins styttra, vængurinn annar eða skeggið miklu lengra. Fyrir bragðið hreyfist flugan með öðrum hætti í vatninu og ég veiði ekki neitt á númer tvö.

Svo er það sem var sagt við mig eitt sinn; Eins flugur bera vott um öguð vinnubrögð. Þetta var náttúrulega smá skens á mig og flugurnar mínar, en ég reyndi að kjafta mig út úr þessu með því að nefna fjölbreytileika náttúrunnar og benti á þróunarkenningu Darwins. Þessi útúrsnúningur þótti ekki merkilegur og var ekki virtur viðlits. Auðvitað vissi ég að þetta var alveg satt, ég ætlaði alltaf að hnýta flugurnar allar eins, en svo brast eitthvað í höndunum á mér og ég þurfti að grípa til þess að skrökva einhverju í flugunni til að redda málunum.

Að vísu er það svo að þegar ég hnýti hefðbundinn skammt af tiltekinni flugu að vetri, þá á ég það alveg til að efna niður í þær allar áður en ég byrja að hnýta, þá verða þær oftar en ekki nærri allar eins og ég verð að viðurkenna að þær taka sig miklu betur út í geymsluboxinu. Næsta skref er að hætta að framkvæma einhverjar skítareddingar ef eitthvað klikkar, rekja frekar upp eða þá bæta nýrri flugu í hnýtingarröðina. Svo er loka skrefið sem kemur e.t.v. síðar, halda boxunum í vösunum mínum svolítið snyrtilegri næsta sumar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com