Hóp 5. september 2020

Góður vinur minn stefnir oft með brjóstið fullt af vonum í veiðiferðir og einmitt þannig leið mér s.l. laugardagsmorgunn þegar við veiðifélagarnir lögðum heiðar að baki og stefndum norður í Húnaþing á vit fyrsta í sumarauka. Það var ekki fiskur sem ég batt helst vonir við, miklu heldur einn svona dag þar sem sumarið og haustið mætast í stillum og fallegu veðri.

Ekki amalegt að taka pásu í svona veðri

Hópið tók á móti okkur í þvílíkri blíðu að maður hafði sig varla í að gára vatnsflötinn við Vaðhvamm, en hvað lætur maður sig ekki hafa þegar veiði er annarsvegar? Með bakpokann fullan af nesti og skjólfatnaði, ef hann mundi nú taka upp á því að kula, töltum við niður að vatninu og komum okkur saman um sitthvora fluguna til að prófa í fyrstu atrennu.

Ég dró hvítan Nobbler, hún einhvern annan, en eftir að ég hafði fengið ágæt viðbrögð við þeim hvíta vorum við bæði með þann hvíta undir. Undirtektirnar voru nokkuð skemmtilegar, ekki stórvaxnar en þeim mun fjölbreyttari. Urriðar, bleikjur og svo þessi tegund sem margir virðast sækjast eftir, lax. Enginn af þeim sem ég náði að narra voru af þeirri stærðargráðunni að ég vildi þá á mína pönnu þannig að veiða og deyða varð ekki ofaná, aðeins valkvætt veiða og sleppa.

Haustið handan við hornið, marglittur farið að reka á fjörur

Eftir að veiðifélagi minn hafði fengið eina þokkalega sjóbleikju sem fyrirfram byrjaði að kitla bragðlaukana, var tekið mjög hressilega í þann hvíta. Snaggaralegri viðureigninni lauk með tvöföldu heljarstökki, sporðadansi miklum og því að taumurinn slitnaði á hnúti. Jæja, það var þá einn flottur á ferðinni í Hópinu með glitrandi varaskraut í munnvikinu og eftir sat veiðifélagi minn með stuttan taum, enga flugu og sárt ennið.

Það var óttalegt kropp sem tók við, tittir og aftur tittir, naumar tökur svo aldrei festist og við vorum orðin heldur vondauf um fjölskyldumáltíð úr Hópinu. Þegar svona er komið, þá ferð maður að gramsa í fluguboxinu, tekur fram hinar og þessar flugur, skiptir og reynir. Ég var kominn í heilan hring, kominn aftur með þann hvíta undir en félagi minn var komin að stórum svörtum Nobbler. Þá var tekið hressilega og ákveðið, látið vita að þarna fór ekki fiskur í undirmálsflokki og strax farið að teygja á línunni með töluverðri frekju. Rétt í þá mund sem bremsan var svo til komin í botn, hljóp einhver flækja í hjólið og þá heyrðist í minni; Eins gott að undirlínan haldi. Ég var nú ekki endilega að trúa því að hann hefði tekið alla línuna út, en þegar ég kíkti yfir öxlina á henni sá ég glitta í undirlínuna og enn tók fiskurinn út af hjólinu.

Til að gera langa sögu stutta, þá laut þessi líka fallegi birtingur í lægra haldi fyrir bremsunni og fumlausum inndrætti. Ljómandi fallegur 51 sm fiskur, silfurgljáandi og sérstaklega vel haldinn. Eftir að hafa náð andanum, dáðst að fiskinum og tekið við háu fimmunni var komið að því að losa þann svarta úr fiskinum. Var þá ekki tvímennt í munnvikinu á þessum líka fallega fiski, þarna voru þeir hlið við hlið; svartur Nobbler og hvítur. Mér varð á orði að þessi fiskur hefði alltaf verið félaga mínum ætlaður.

Svartur og hvítur

Fátt bar til tíðinda hjá okkur eftir þetta, sjálfur setti ég í einn sem óséður var einhversstaðar undir 100 sm, en sá lét svo ófriðlega að honum tókst að losa sig af flugunni og lét ekki sjá sig eftir það. Með kvöldinu tók að kula og hitastigið féll nokkuð snarlega þannig að við tókum okkar hafurtask, nestið hvort hið er nærri búið, og stefndum í náttstað, þokkalega sátt með þennan frábæra dag við Hópið.

Síðasta mynd dagsins
Bleikjur í ferð
3 / 0
Bleikjur alls
6 / 33
Urriðar í ferð
4 / 2
Urriðar alls
87 / 51
Veiðiferðir
23 / 24

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com