Flýtileiðir

Á hálendið undan vindi

Greinarkorn sem birtist í málgagni stangveiðimanna, Veiðimanninum tbl. 204 sem kom út sumarið 2017. Svavar Hávarðarson, blaðamaður fékk í hendurnar texta um vindáttir í veiði, fór um hann fögrum höndum, skreytti og setti í samtalsbúning eins og honum einum er lagið.

Kristján Friðriksson, eigandi FOS.IS og formaður stangaveiðifélagsins Ármanna, segir að bæði austan og vestan við Frón fari stangveiðimenn með þuluna „When the wind‘s in the west, the fish bites the best,“ sem byggir ekki beint undir það sem lagt er upp með í þessu greinarkorni. „Almannarómur hér á landi segir reyndar alveg þveröfuga sögu. Ef einhver vindátt er til þess fallin að halda veiðimönnum innandyra, þá er það væntanlega sú vestlæga. Meira að segja suðaustanáttin með tilheyrandi vætutíð virðist ekki ná að skjóta veiðimönnum eins mikinn skelk í bringu eins og sú vestlæga. “Kristján segir að nokkrir ákveðnir veiðistaðir hafi fengið það orð á sig að vera hnepptir í fjötra ládeyðu þegar vindur er vestlægur. Nægir þar að nefna Þingvallavatn, Hlíðarvatn í Selvogi og Elliðavatn svo einhver dæmi séu nefnd. „Af samtölum mínum við veiðimenn virðist þessi almannarómur ekki aðeins bundinn við sunnan- og vestanvert landið, Norðlendingar og Austfirðingar kannast einnig við þetta í sínum vötnum.

Kristján, sem allir veiðimenn þekkja fyrir ítarleg og vönduð skrif um veiði og allar hennar náttúrur, útskýrir að allt tengist þetta gangi lægða milli Íslands og Grænlands. Landsynningur, eða suðaustanátt sem kemur í kjölfar lægðaskila beri yfirleitt með sér hlýtt loft og stöðugra, og oft á tíðum töluvert rakt. „Útsynningurinn/suðvestanáttin sem á ættir sínar að rekja til kaldari hafsvæða í vestri, dregur aftur á móti með sér óstöðugt loft og við getum átt von á öllum skollanum inni á milli bjartra stunda en helst kólnandi veðurfars. Þetta þekkja veiðimenn og ekki síður fiskurinn. Það er nefnilega ekki svo að aðeins veiðimenn dragi sig í hlé í kjölfar vestanáttarinnar, fiskurinn gerir það líka, mismikið þó,“ segir Kristján. En hér bætir hann verulega við söguna, því inni á hálendi Íslands ber svo við að hiti landsins allt um kring dregur verulega úr áhrifum vestlægra átta.

„Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé ein aðalástæða þess að ég hef í auknum mæli sótt inn á hálendið í sumarveiði, en þetta skemmir ekki fyrir. Þau sumur sem vestanáttin hefur breytt Þingvallavatni í eitt stærsta kastæfingarsvæði landsins hef ég yfirleitt notið veðursældar og ánægjulegra veiðidaga handan Fjallabaks og ekkert skilið í barlómi veiðimanna. Svo rammt hefur kveðið að þessu að heimakærir Sunn- og Vestlendingar hafa vænt mig um ósannsögli þegar ég, á sama tíma og þeir kveinka sér yfir vestanáttinni, hef fagnað hverjum dýrðardeginum á fætur öðrum inni á hálendi og gert góða veiði í samfelldri vestanátt,“ segir Kristján og bætir við að hann geti því alveg tekið undir með nágrönnum okkar í vestri og austri þegar þeir fara með fyrstu línuna í þessari veiðimannavísu:

Wind from the West, fish bite the best.
Wind from the East, fish bite the least.
Wind from the North, do not go forth.
Wind from the South blows bait in their mouth.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com