Auðvitað veiðir hver og einn eins og hann sjálfur en oft stendur vilji veiðimanna stundum til einhvers alls annars. Hver þekkir það ekki að horfa öfundaraugum á einhvern veiðimann í grennd setja í hvern fiskinn á fætur öðrum og hugsa mér sér; hvað er hann að nota, hvernig fer hann að þessu, mikið vildi ég vera á þessum stað og veiða eins og þessi veiðimaður. Það er nú til einföld leið til að redda þessu, notaðu fæturna og talfærin, röltu til viðkomandi og spurðu hann út í flugu, inndrátt og annað sem þér þykir skipta máli. Ef svo ólíklega vill til að þessi farsæli veiðimaður er ég, þá skal ég svara þér og jafnvel gefa þér fluguna sem virkar hjá mér ef þú átt ekki slíka. Af gefinni reynslu þá á ég ekki von á öðru en aðrir veiðimenn munu bregðast svipað við, en vissulega eru til undantekningar. Þú gætir mögulega lent á einhverjum sem hvorki vill segja frá, sýna eða miðla nokkru af viti. Þá segir maður bara upphátt; Takk fyrir og bætir við í huganum; ekkert.
Það getur aftur á móti verið varhugavert að fella einarðan hug til veiðimanns sem hefur verið á viðkomandi stað einhverjum dögum áður og er nú víðs fjarri. Rauður punktur á korti (sem finnast t.d. hérna) segja aðeins frá veiðistöðum á ákveðnum tíma, hjá ákveðnum veiðimanni undir ákveðnum kringumstæðum. Svei mér þá, þá hef ég sagt þetta áður. Vissulega er hægt að reyna ákveðinn stað svo oft að punkturinn á kortinu eigi sannanlega rétt á sér en yfir höfuð er hann aðeins vísbending.

Ef rauði punkturinn er ekkert að virka, þá er um að gera að að hreyfa sig og finna jafnvel stað þar sem engum og þá meina ég ekki nokkrum einasta manni hefur dottið í hug að stinga niður fæti og baða flugu á. Ef allir veiðimenn færu nú bara á þá veiðistaði sem einhver hefur mælt með, þá væri bara einn veiðistaður þekktur. Allir færu á þann veiðistað sem fyrstur gaf og síðan ekki söguna meir. Einhvern tímann verður staður að veiðistað og hver veit nema þú getur sett stimpilinn þinn með rauða punktinum á þann stað.
Svo gæti líka þessi gaur sem þú mögulega lentir á í upphafi greinarinnar hafa fundið stað sem geymir fisk og hann er nægjanlega trúr sjálfum sér til að hafa ekki sagt nokkrum manni frá honum, ekki einu sinni besta vini sínum. Þá eru töluverðar líkur á að staðurinn finnist ekki sem rauður punktur. Ég get ekki ímyndað mér þann fjölda af veiðistöðum sem hvorki ég né nokkur annar hefur prófað, hvað þá staðina sem eru leyni-, einka- eða spes hjá einhverjum fúlamúla úti í bæ.
Senda ábendingu