Með tíð og tíma lærist manni að fiskur getur verið tregur, bæði til þess að taka fluguna og taka ákvörðun. Stundum er það bara þannig að maður verður að hjálpa honum að taka af skarið, vinda sér í fullri alvöru að flugunni og grípa hana.
Á meðan á inndrættinum stendur, þá getur maður beitt ýmsum ráðum til að vekja athygli fisksins á flugunni, breytt inndrætti, látið fluguna örmagnast með því að stoppa alveg og leyfa henni að sökkva. Svo getur maður líka látið hana taka á sprett eftir rólegan inndrátt eða þá prófað að lyfta stönginni og þar með flugunni aðeins í vatninu.
Svo er það lokatilraunin, hinkra svo lengi að hún stöðvist alveg í vatninu, sökkvi jafnvel svolítið og taka svo eitt eða tvö snögg tog í línuna áður en hún er tekið endanlega upp í næsta kast. Það er merkilega oft sem sá óákveðni sem hefur fylgst með flugunni, leikið sér kannski örlítið að henni, verður alveg frávita af skelfingu þegar stein-dauð flugan tekur síðasta sprettinn, hrifsar í hana og tekur með látum alveg upp við bakkann. Þessir síðustu kippir í línuna hafa ekkert ósvipaðar virkni eins og að lyfta stönginni í miðjum inndrætti, flugan hækkar í vatnsbolnum rétt eins og púpa sem er við það að fara að klekjast eða bráð sem er alveg að fara að sleppa.
Senda ábendingu