Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Ég birti þessa grein hér til gamans, breyti í engu innihaldi hennar, flest af þessu eldist ágætlega. Þetta er síðasta greinin af 14 sem birtist í fréttabréfinu það árið. Greinin var myndlaus, en hér fylgir með mynd af fiski sem ekki var sleppt en kom fyrir í annarri grein á VEIDA.IS árið 2013.

Af og til heyrir maður af veiðimönnum sem fussa og sveia þeirri ‚dellu‘ að veiða og sleppa, hafa meira að segja frammi einhver uppsteyt við veiðiverði þar sem skírt og skorinort skal fylgt reglunni veiða / sleppa. Sjálfur hef ég enga samúð með mönnum sem veiða fisk á skilorði og þykir erfitt að láta frá sér sinn fyrsta eða stærsta. Öðru máli finnst mér gegna um þá sem sleppa á eigin forsendum og gera það rangt. Að sleppa fiski er ekki alltaf eins auðvelt og ætla mætti.
Ef þú ætlar þér að sleppa, vertu þá snöggur að taka hann að landi. Því lengur sem viðureignin er dregin á langinn, því minni líkur eru á að fiskurinn lifi af. Þannig er að á meðan við glímum við fiskinn fyllist hann af eitruðum mjólkursýrum sem geta lamað hann í höndunum á okkur eða skömmu eftir að við sleppum honum. Það er ekki alltaf hraustleikamerki að fiskurinn taki kipp um leið og við setjum hann niður í vatnið, þetta getur verið fölsk vísbending, hann getur örmagnast um leið og sýrurnar losna úr læðingi og streyma um líffærin.
Ein varúðarregla er e.t.v. sú að sleppa fiskinum ekki alveg strax, settu hann í vatnið, haltu honum eins laust og þú þorir án þess að missa hann, helst með trýnið á móti straumi/öldu og leyfðu honum að jafna sig aðeins. Þegar hann hefur róast og losað um streituna fer ekkert á milli mála þegar hann vill og getur losnað. Eins verður alltaf að meta það hvort blæðingar fisks séu þannig að honum sé ekki hugað líf. Aldrei skal sleppa fiski ef blæðir úr tálknum, þá getum við alveg eins hent slógi í vatnið, sem auðvitað engin heiðarlegur veiðimaður gerir.
Senda ábendingu