Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Eitthvað hafa áherslur og upplifun breyst á þeim árum sem liðið hafa, en flest stenst þetta tímanns tönn.

Það kemur auðvitað fyrir að botninn detti úr veiðinni, það bara gerist ekkert og ég verð ekki var við fisk. Það hefur áður skinið í gegn að mér þykir ekkert sjálfsagðara heldur en færa mig reglulega á milli veiðistaða, en undir svona kringumstæðum getur steininn tekið alveg úr. Ég slít sólunum ótæpilega, staldra stutt við á hverjum stað, 3 -5 köst, skipti oft um flugu, veiði djúpt, veiði grunnt, geri ýmsar breytingar en bara litlar í einu. Veiðikortið getur orðið ansi doppótt á svona dögum.
Svona er þetta bara stundum. Alveg sama hve pottþéttar leiðbeiningar ég hef orðið mér úti um, flugurnar margbreytilegar og ég færi mig á milli veiðistaða eins og skopparakringla, þá gerist stundum ekki neitt.
Það eru að vísu til þeir veiðimenn sem standa bara fastir á sínu, eiga sér sinn stað og hreyfa sig ekkert þaðan, alveg sama hve lítið gerist. „Jú, jú, hann kemur á endanum.“ Ég á svona veiðifélaga og hún veiðir ekkert minna en ég, þannig að best er að veiða svolítið með sínu nefi. Taka mátulega mikið mark á öllum reglunum og leiðbeiningunum, en gera bara smávægilegar breytingar í einu.
Senda ábendingu