Ekki kasta allir vel

Það er mannlegt að gera mistök, það er enn mannlegra að kenna öðru um. Ég er í það minnsta frekar duglegur að leita skýringa á lélegum köstum hjá mér í einhverju öðru en eigin göllum. Taumurinn er greinilega eitthvað lélegur. Þessi lína er ónýt. Helv…. stöngin! Ég ætla ekki að gera því skóna að það séu fleiri veiðimenn eins og ég, en stundum læðist nú samt að mér sá grunur að ég sé ekki einn um þetta. Þau eru ófá skiptin sem ég hef heyrt einhvern kenna öllu mögulegu um þegar kastið fer í kássu. Til að halda heimilisfriðinn, þá tek ég fram að nú er ég ekki að vísa til veiðifélaga míns.

En það er víst ekki hægt að kenna stönginni um þegar bakkastið rennur út í sandinn eða línan smellur í vatnið í tíma og ótíma. Er þá hægt að kenna línunni um? Nei, tæplega, langlíklegasta skýringin er vitaskuld brotinn úlnliður eða lekur olnbogi, þ.e. hann fylgir línunni full mikið eftir í bakkastinu. Það er víst ekki nóg að stoppa ákveðið í framkastinu, það þarf líka að stoppa í bakkastinu. Er þá ekki lag að hætta að kenna öðrum um og fá einhvern í lið með sér?

Ég er ekkert öðruvísi heldur en margur annar, mér finnst það ekkert endilega þægilegt þegar einhver segir mér til syndanna. Vegna þess að ég get ekki borið fyrir mig að vita ekki hvað er að í bakkastinu mínu, þá dugar mér oft að fá laufléttar athugasemdir um of slakt aftara stopp. Þá tek ég mig saman í andlitinu og ástunda það sem ég hef svo oft skrifað um hérna á síðunni. Þeir eru eflaust margir sem mættu við vinsamlegum ábendingum í stað þess að fara á heilt kastnámskeið til að leiðrétta villurnar í kastinu. Flestir sem hafa stundað fluguveiði í einhvern tíma hafa smátt og smátt meðtekið ástæður flestra klessukasta, þeir þurfa bara einhvern á hliðarlínunni til að benda þeim á það sem betur má fara.

Það getur verið frábær leið til sjálfshjálpar að finna sér tíma með einhverjum sem þú treystir til að segja þér hvað betur má fara. Ef þú ert þokkalega vanur, þá getur þú unnið úr athugasemdunum sjálfur. Ef þú veist ekki hvernig þú átt að fara að því, þá skaltu leita þér hjálpar hjá kastkennara.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com