Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Flestar þessara greina voru unnar upp úr kynningum mínum frá árunum 2010 – 2012 sem margir hafa séð.

Rétt utan við og í gróðurflákum leynast oft býsna drjúgir fiskar sem geta verið erfiðir viðfangs, eða öllu heldur erfitt að nálgast. Gróðurinn er fiskinum ávísun á öryggi og hreint og klárt matarbúr. Fyrir mér er gróðurinn ávísun á festur og uppspretta endalausra vandamála og því gefst ég oft fljótlega upp á svona veiðistöðum.
En, það er engin ástæða til þess. Maður getur alveg notað léttari flugu, veitt vel fyrir utan og inn að gróðrinum, jafnvel sitt hvoru megin ef maður er bara nógu nákvæmur í köstunum. Nálægt, en ekki of. Snaggaralegur Black Ghost eða Nobbler líkir ágætlega eftir hornsílunum sem leynast þarna og oft er silungurinn einmitt á höttunum eftir þeim. Pheasant Tail er líka heldur betur drjúg þarna, líkir eftir öllu og engu.
Gróðurinn er ekki aðeins fiskinum skjól, ég get skýlt mér líka á bak við hann. Ef ég fer nógu varlega, þá get ég leyft mér að vaða mjög nálægt fiskinum sé gróðurinn á milli okkar. Hann temprar allt hljóð og ölduhreyfingar sem verða til þegar ég veð. Að vaða í stöðuvatni er oft meiri kúnst heldur en í á. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort hljóð undan vöðlum berist ekki betur í kyrru heiðarvatni heldur en beljandi á.
Senda ábendingu