Flýtileiðir

Veiðivötn 1. – 4. júlí 2020

Tilhlökkun nær aðeins ákveðið langt þegar kemur að veiðiferðum. Að þessu sinni stillti ég væntingarnar niður um nokkur prósent, svona til samræmis við það sem ég hafi frétt frá félögum mínum síðustu vikur. Hvort þessi lækkun væntingavísitölunnar hafi verið nóg er ég enn að gera upp við mig núna þegar heim er komið.

Klassísk upphafsmynd frá Veiðivötnum

Það var í það minnsta einmuna blíða og fallegt veður þegar hópurinn okkar renndi í hlað upp úr hádegi á miðvikudaginn. Einn var skipaður í sóttkví, þ.e. að vera fulltrúi okkar og sækja þrjár veiðiskýrslur, lykil og tilbehör til hennar Bryndísar og það leið ekki á löngu þar til komið var að úrslitastundinni; Hvert á að halda?

Fyrir valinu hjá okkur hjónum var að fara inn í Botn, þ.e. Norðurbotn við Litlasjó. Ástæðan var hávísindaleg íhugun um hlýnun vatnsins á svörtum sandi í bland við sögur af (ágætri) veiði við Strigaskó og á Lönguströnd dagana á undan. Veðrið var með eindæmum dásamlegt, hálfskýjað og suðvestanátt sem passaði kasthönd ágætlega.

Kvöldkyrrð í Norðurbotni

Alveg frá því við byrjuðum og þar til rúmlega kl.23 vorum við og fleiri kunningjar okkar á því að nú færi hann alveg að fara að koma upp að, en það bara gerðist ekki. Að vísu setti veiðifélagi minn í fisk en sleppti, svo setti hún í annan og hirti. Það voru nú allar aflatölur kvöldsins hjá okkur hjónum.

Eftir miklar vangaveltur og marga kaffibolla á fimmtudagsmorguninn var ákveðið að byrja daginn í Hellavatni sem ég hef sterkar taugar til. Í þessu stórkostlega umhverfi tók ég minn fyrsta Veiðivatnaurriða um árið og því hef ég alltaf sætt lagi að kíkja í vatnið. Að þessu sinni var einmuna blíða og það sem meira var, við sáum til fiskjar í Hellavatni, ólíkt því sem segja má um flest önnur vötn í þessari ferð, ef Arnarpollur er undanskilinn.

Eftir töluverða tilraunastarfsemi hjá mér með ýmsar flugur, meira að segja aflaflugu fyrstu vikunnar í Veiðivötnum; hvítum Nobbler, þá var það ekki fyrr en frúin setti agnarsmáan grænan Nobbler undir og dró hann löturhægt eftir botninum að hún setti í fisk sem reyndar fékk líf sökum smæðar. Sjálfur var ég ekkert á tökunótunum og fór því fisklaus úr Hellavatni þann daginn.

Eftir miðdegisverð fórum við ásamt öllum hópinum í Ónýtavatn þar sem Kári sperrti sig allhressilega í fangið á okkur. Grugg og góð alda átti að vera uppskrift að fiski og leikar fóru þannig að við flugufélagarnir tókum sitthvorn fiskinn á æpandi rauðan Nobbler og rauðan Dýrbít, en slepptum þeim báðum. Aðrir í hópinum vorum duglegir með spúninn á þessu svæði og reytingur af fiski kom á land en töluverðu sleppt sökum smæðar.

Áður en lengra er haldið, þá er rétt að taka það fram að ég sleppi ekki aðeins fiskum. Í þessari grein sleppi ég því líka að nefna stoppin okkar við vötn sem gáfu hvorugu okkar fisk eða þar sem ekkert líf var að sjá. Eins og verða vill í rólegum ferðum í Veiðivötn, þá var víða farið og mikið reynt og það voru ekki bara við sem vorum á faraldsfæti þessa daga. Flestir veiðimenn voru duglegir að færa sig á milli vatna, en stoppuðu yfirleitt stutt á hverjum stað.

Upplifun okkar af ferðalögum á milli vatna dagana á undan varð til þess að við ákváðum að byrja aftur í Hellavatni á föstudaginn. Að þessu sinni þáði einn mjög bústinn urriði appelsínugulan Nobbler hjá frúnni og annar (ekki eins bústinn) gaf sig á tal við ólívulitaðan Nobbler hjá mér. Fleiri urðu nú ekki fiskarnir að þessu sinni, en áfram létu þeir sjá sig og þannig stimplaði vatnið sig enn betur inn hjá okkur.

Einhverjum kílómetrum og einum miðdegisverði síðar varð Grænavatn fyrir valinu hjá okkur hjónum. Ég átti nú svo sem ekki von á einhverri flugeldasýningu, vatnið er e.t.v. ekki þekktast fyrir slíkt en þeir ku vera stórir og stæltir fiskarnir sem alast upp í því. Hann var nú samt ekkert sérlega stæltur, þessi sem frúin setti í og sleppti, en hún er þó í það minnsta búin að fá fisk í Grænavatni, eitthvað annað en undirritaður.

Þegar það fór að húma færðum við okkur enn og aftur á milli staða og merkilegt nokk, þá varð Hellavatn fyrir valinu, núna til að klára daginn. Þegar við mættum á staðinn var smá strekkingur, en ekki meiri en svo að dvölin þar var kærkominn hvíld eftir vindbarning við vötnin undir Snjóöldufjallgarðinum. Þegar leið á kvöldið fór hitastigið heldur að lækka, en það kom þó ekki í veg fyrir að frúin tæki þrjá fiska. Tveimur sleppti hún en fórnaði töluverðum tíma í að þreyta og taka á land 58 sm urriða sem tók hvítan Nobbler. Sjálfur dró ég í land, settist niður og naut þess út í ystu æsar að fylgjast með viðureigninni, svona viðureign og stórum fiski vill maður ekki missa af hjá veiðifélaga sínum.

Skeifan – Prófað en ekki til umfjöllunar – Smellið fyrir stærri mynd

Hvar við byrjuðum á laugardaginn skiptir í sjálfu sér ekki nokkru máli, þaðan var ekkert að frétta. Hvorki uppitökur, byltur né nokkuð annað. Eftir miðdegisverð stefndi dagurinn í að verða fisklaus hjá okkur báðum, en þá datt okkur Arnapollurinn í hug (ekki í fyrsta skiptið í þessari ferð reyndar). Að venju fórum við í Norðurbotn (já, hann er líka í Arnarpolli) og reyndum við gíginn þar sem við höfðum séð líf á fimmtudaginn. Ég reyndi allt, þ.e. flóru af flugum í ýmsum litum, mismunandi inndrátt og þar fram eftir götunum. Stutta útgáfan; ég fékk ekki eitt einasta högg. Á meðan færði frúin sig innst í krikann og setti í 6 stk á skömmum tíma. Þeir voru reyndar grunsamlega svipaði í vextinum allir, þannig að ég segi að hún hafi tekið sömu tvo fiskana nokkrum sinnum.

Við Arnarpoll

Eftir að hafa flutt okkur aðeins til um vötn, lá leið okkar að Litlasjó. Ekkert að frétta í Fyrstuvík, ekkert að frétta í Hrauninu, en þegar við komum niður í Hermannsvík vorum við stoppuð með miklu handapati og bendingum af félögum okkar í hópinum. „Brjálaðar tökur, fullt af fiski, hættið þessu kjaftæði og upp með stangirnar“, voru orð sem féllu. Þeir félagar höfðu sem sagt lent í skoti, fengið hvíld og lent aftur í skoti og við, þ.e. ég og veiðifélagi minn, rétt náðum að sjá síðustu fiskana koma á land áður en botninn datt úr öllum skemmtilegheitunum. Að vísu náðum við sitthvorum tittinum sem við slepptum og eftir töluverðar vangaveltur og fluguskipti tókst mér að þrefalda mína fiska í þessari ferð. Þetta er ekki erfitt reikningsdæmi; 1 fiskur á föstudaginn hirtur úr Hellavatni, 2 fiskar úr Litlasjó á laugardagskvöldið, samtals 3 fiskar hirtir í mína kistu í þessari ferð. Glöggir lesendur sjá þá í hendi sér að veiðifélagi minn var með 4 fiska hirta (þar af einn sem hefði rúmað alla mína c.a. 5 sinnum). Slepptir fiskar voru nokkrir og skiptast í mjög ýktu hlutfalli; frúin sleppti 13 stykkjum á meðan ég þurfti bara að sleppa þremur.

Fjölþjóða: Pólskar pylsur, steiktar upp úr íslensku smjöri og Austurrískur snaps – Staðgott nesti í lítilli veiði

Hvað það er sem hafði þessi áhrif á aflatölur þori ég ekki að segja til um. Uppitökur og sýningar fiska voru mjög fáar þessa daga sem við vorum í vötnunum. Kannski er bara svo mikið æti í vötnunum að fiskurinn þarf hvorki að vera velta sér í yfirborðinu eða koma upp að ströndinni í leit að hornsíli, sem nóg var af við öll vötnin. Það sem styður þessa ætiskenningu er e.t.v. það að magainnihald þeirra fiska sem við tókum var kuðungur og mýflugur að minnihluta. Mest var af skötuormi, sem mér kunnugri menn segja að sé nokkuð snemmt í árinu. Skötuormurinn er silunganammið eins og Bryndís sagði við okkur um árið og ef hann fær skötuorm þá leitar hann ekkert að öðru. Búsvæði skötuormsins er á botninum, meira að segja lengst úti í dýpinu og því er enginn ástæða til að koma upp að ströndinni eða láta sjá sig á yfirborðinu. Hvort þessi kenning stenst veit ég ekki, en ég kann enga aðra betri að sinni.

Já, ég er enn að gera það upp við mig hvort væntingavísitalan hefði verið of há hjá mér. Því er ekki að leyna að þetta er lélegasta Veiðivatnaferðin ever, eins og krakkarnir segja. Á móti kemur að það eitt að vera í Veiðivötnum í þessa daga, njóta umhverfisins og þess frábæra félagsskapar sem hópurinn okkar er, það dugar mér mjög langt í að réttlæta allan aksturinn, barninginn og aflaleysið. Takk fyrir mig Veiðivötn og hópurinn, kveð með Austurrískum frasa; I‘ll be back.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 32
Urriðar í ferð
17 / 6
Urriðar alls
20 / 13
Veiðiferðir
14 / 15

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com