Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Flestar þessara greina voru unnar upp úr kynningum mínum frá árunum 2010 – 2012 sem margir hafa séð.

Ein af ástæðum þess að ég kýs vatnaveiðina er landslagið sem ég kynnist á ferðum mínum um landið. Og landslagið leynist víðar en fyrir ofan vatnsborðið. Í þetta tilbúna veiðivatn sem fylgt hefur þessum pistlum mínum, hef ég komið fyrir stórum steini á botninum undan þessum tanga, einhvers konar framlengingu hans í vatninu. Þessi steinn veitir silunginum alveg tilvalið skjól og það er alltaf vel þess virði að reyna svona stað.
Ég byrja á því að taka 2 – 3 köst land-megin við steininn. Ef fiskurinn liggur öðru hvoru megin við hann, þá er ég ekkert að styggja hann. Næstu köst tek ég sitt hvoru megin við steininn, byrjar fjær og fikrar mig síðan nær og nær steininum, tvö til þrjú sitt hvoru megin. Ef ekkert gerist, læt ég vaða og kasta út fyrir steininn. Hann er þarna (fiskurinn), kannski vantar bara aðeins upp á þolinmæðina hjá mér.
Þessa reglu, þ.e. hvernig ég veiði ætti ég í raun að nota í allri vatnaveiði; byrja stutt, sem næst mér. Fikra mig síðan kerfisbundið til beggja átta og utar. Ekki gleypa allt vatnið í fyrsta kasti, þá er ég örugglega að styggja fiskinn að óþörfu með falsköstum.
Senda ábendingu