Prófessorinn

Eitt af því fyrsta sem ég las mér til um fluguveiði var að fylgjast vel með öðrum veiðimönnum. Mér fannst þetta alls ekki svo slæm hugmynd þannig að ég fór á stúfana, kom mér fyrir við Elliðavatn þar sem sagt er að háskólaprófessorar fluguveiðinnar verji frítíma sínum. Ég beið og ég beið. Eftir töluverðan tíma var mér farið að líða svolítið eins og Ladda, ég beið og ég beið og ég beið. Loksins renndi bíll inn að Elliðavatnsbænum og ég setti mig í stellingar, nú ætlaði ég sko að læra af þessum meistara vatnsins.

Ökumaðurinn fór sér að engu óðslega, sté út úr bílnum og kíkti fram á bakkann. Já, einmitt, ég hafði lesið um þessa íhugulu veiðimenn sem gaumgæfa vatnið áður en þeir hætta sér í veiðigallann, meta hitastig vatnsins og ástand lífríkisins. Eftir töluverðan tíma snéri maðurinn við, opnaði skottið á bílnum og tók fram fatnað og græjur, klæddi sig í rólegheitunum og setti saman stöng. Mér til mikillar furðu settist maðurinn niður og fór að bardúsa eitthvað við stöng og línu. Nú, já, það átti bara að mastera þetta og stilla allt af miðað við kringumstæðurnar.

Ég hélt áfram að fylgjast með veiðimanninum og það gerðist lítið, afskaplega lítið. Á meðan ég beið, datt mér í hug hvort viðkomandi væri kannski bara á svipuðum stað í veiðinni eins og ég. Væri bara að bíða eftir því að einhver Elliðavatnsprófessorinn mætti á staðinn til að geta fylgst með honum. Ég hélt áfram að fylgjast með. Næstu 15 mín. íhugaði ég nokkrum sinnum að trítla yfir til hans og gefa mig á tal við hann, lét samt ekki verða að því og leyfði þess í stað nokkrum ímynduðum samtölum að grassera í huganum. „Ha, nei. Ég er bara að bíða eftir félaga mínum.“ eða „Ha, veiða? Nei, ég hef ekki hugmynd um hvað ég er að gera hérna, hef aldrei veitt á flugu.“ og svo frameftir götunum. Enn hélt feimnin aftur af mér, ég færi nú ekki að gefa mig bara á tal við einhvern kall í jaðri Heiðmerkur, það gæti bara misskilist.

Ég var alveg við það að missa þolinmæðina þegar hann stóð loksins upp. Jæja, það fer þá eitthvað að gerast sem ég gæti lært af. Í stað þess að tölta niður að vatninu, snéri hann í þveröfuga átt og stefndi inn á milli trjánna. Ég gafst upp, ég ætlaði sko ekki að fara að elta hann þarna þvert í gegn, leggja hann í eitthvert einelti.

Það sem hér fer á eftir, hef ég ekki sagt nokkrum lifandi manni. Þegar ég kom heim eftir þessa árangurslausu heimsókn mína inn að Elliðavatni, tjáði ég eiginkonunni að mér hefði ekki orðið neitt ágegnt en það fylgdi aldrei sögunni að ég hefði ekki einu sinni farið út úr bílnum. Löngu síðar varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að sitja fyrirlestur hjá þessum manni um leyndardóma Elliðavatns og skemmti mér hið besta. Af síðari kynnum mínum af þessum mæta manni, hef ég dregið þá ályktun að ég hefði betur tölt yfir til hans og spurt allra heimskulegu spurninganna sem flögruðu um í hausnum á mér, það hefði sko örugglega ekki staðið á svörum.

Síðan þetta kom upp, þá hef ég sjaldan hikað við að gefa mig á tal við veiðimenn á veiðislóð. Í 90% tilfella hefur mér verið vel tekið og ekki staðið á ganglegum ráðum og ábendingum, veiðimenn eru almennt ágætustu skinn og vilja gjarnan miðla af þekkingu sinni. Ég mæli sterklega með því að standa upp og spyrja.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com