Flýtileiðir

Hóp 20. og 21. júní 2020

Ferðasaga helgarinnar gæti verið sérstaklega stutt að þessu sinni. Við mættum á staðinn, spáðum í veðrið, böðuðum ógrynni af flugum á laugardaginn og annað eins í gær. Handlékum varlega örfáa fiska sem eiga vonandi langt líf fyrir höndum og fórum síðan heim.

Lengri útgáfan gæti verið eitthvað á þá leið að þegar við mættum vestan við Ásbjarnarnes á föstudaginn var töluverður blástur af norðri og við því á rólegri nótunum. Við komum okkur fyrir, sinntum húsverkum og settumst síðan út og nutum þess að vera á staðnum. Eitthvað bárum við saman bækur okkar og komumst að þeirri niðurstöðu að við höfðum trúlega aldrei áður verið jafn snemma sumars á ferðinni við Hóp, yfirleitt höfum við verið á ferðinni síðla sumars, lok ágúst eða september. Aðeins einu sinni er skráð ferð hjá okkur í júlí og því alls ekki á vísan að róa í þessari ferð.

Hópið séð frá Vaðhvammi – Smellið fyrir stærri mynd

Við vorum rétt svo komin á ról á laugardaginn þegar fyrstu veiðimenn voru mættir á staðinn. Gallvaskir félagar sem þræddu alla veiðistaði frá Bryggjunni og út að Bargatá. Þeir voru öllu duglegri heldur en við hvað varðar yfirferð og úthald, en því miður uppskáru þeir aðeins fjóra fiska á öllu þessu rölti sínu.

Við aftur á móti héldum nokkurri tryggð við okkar stað, fórum nánast beint á Vaðhvamm og vomuðum þar fram og til baka þar til sulturinn fór að sverfa að hjá okkur. Það er skemmst frá því að segja að undirritaður varð ekkert var, en veiðifélaginn handlék nokkra fiska sem allir fengur líf. Viðburðaríkasta augnablik veiðinnar var væntanlega rétt upp úr kl.15 þegar hlíðin tók að skjálfa allhressilega. Það var ekki fyrr en við vorum komin í vagninn að við sáum hvers kyns var, hressilegur skjálfti utan við Siglufjörð.

Eitthvað var nennan ekki mikil á laugardagskvöldið, þannig að tíminn var nýttur í að taka nokkrar ljósmyndir í safnið, endalaust blaður og fylgjast með fleiri fréttum af jarðhræringum í grennd. Við reyndar fundum hressilega fyrir kvöldmatarskjálftanum, bæði vagn og bíll sýndu listir sínar á fjöðrum þar sem þeir stóðu á vatnsbakkanum og ég er ekki frá því að ég hafði séð einhverja rykbólstra út með ströndinni þar sem stuðlabergið gnæfir í hlíðinni.

Sunnudagurinn byrjaði á hraðfara nótum úr norðri og við vorum ekkert að flýta okkur af stað, veðurspáin hélt því fram hann mundi lægja um og eftir hádegi, jafnvel fara að glenna sig örlítið með sól. Tíminn var nýttur til að yfirfara veiðihjól veiðifélaga míns, eitthvað var orðað að bremsan væri vanstillt eða eiginlega alveg óvirk deginum áður. Ekki að það reyndi mikið á bremsubúnað fyrir laugardagstittina, þá var nú betra að kíkja á gripinn. Fyrstu viðbrögð voru á neikvæðu nótunum; þetta er nú ekki eðlilegt, bölv… drasl er þetta og þar fram eftir götunum. Við nánari umhugsun komu orð eins og; tja, þetta er nú alveg ásættanlegt, bara eðlilegt o.s.frv. Orðavalið breyttist sem sagt aðeins þegar það rifjaðist upp fyrir okkur að blessað hjólið hefur þjónað veiðifélaga mínum af mikilli alúð undanfarin 6-8 ár og aldrei klikkað. Miðað við árafjölda og mikla notkun, verður það bara að teljast góð ending af ódýrasta hjólinu úr röðum viðkomandi vörumerkis. Það verður samt ekki hjá því komist að fjárfesta í nýju hjóli, þetta hjól fær sess sem aukahjól í næstu veiðiferðum.

Þegar óeirðin var farin að nálgast óbærileika, klæddi ég mig í vöðlur og jakka og lagði af stað í 500 metra vaðferð út Nesvíkina í átt að Þingeyrarrifi. Á þeirri leið minni varð ég var við ótrúlegan fjölda hornsíla í nokkrum litbrigðum, þannig að ekki vantaði ætið í vatnið. Stóri fiskurinn lét samt sem áður ekki sjá sig og það endaði með því að ég tók stefnuna að vesturbakkanum, tölti til baka að vagninum, sótti bílinn og pikkaði veiðifélaga minn upp í. Aftur var farið að Vaðhvammi þar sem við böðuðum aðeins fleiri flugur og hrekktum nokkra titti. Þegar veðurspáin brást endanlega um kaffileitið og það brast á með glampandi sól og hita upp á 23°C létum við gott heita, fengum okkur bita, pökkuðum saman og héldum heim á leið.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 8
Urriðar í ferð
0 / 0
Urriðar alls
3 / 7
Veiðiferðir
12 / 12

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com