Flýtileiðir

Hlíðarvatn í Hnappadal 23. maí 2020

Þegar kemur að því að velja orð yfir veðrið í Borgarfirði á laugardagsmorgun, þá dettur mér helst í hug þetta fallega og lítt notaða íslenska orð vindur. Með töluverðri jákvæðni má segja að það hafi verið gjóla í Skorradalnum nokkuð langt fram eftir laugardeginum, en þegar okkur veiðifélögunum fannst orðið nóg um að bíða þess að hann gengi niður, tókum við stefnuna á Hlíðarvatn í Hnappadal. Kannski væri hann stilltari þar, sjálfsblekkingin var algjör.

Miðað við hitatölur síðustu sólarhringa, þá gerðum við eiginlega ráð fyrir að vatnið hefði hlýnað nóg til að kveikja á einhverju skordýralífi í Hnappadalnum og það stóðst. Það var nóg af flugu; þerrilöpp, toppflugur og ýmislegt annað sem flögraði um eða feyktist til í gjólunni. Við byrjuðum á því að renna inn fyrir Jónsbúð, virtum fyrir okkur ölduhæð og einbeitta veiðimenn sem lögðu agn sitt fyrir fiskinn innan við Rifið. Berandi þá von í brjósti að vind mundi lægja þegar liði á daginn, ákváðum við byrja í vatninu að norðan undir Stekkjarholti þar sem meint útfall vatnsins til Hraunholtaár á að vera.

Útfallið til vinstri, vatnið allt til austurs, Hraunholtahnjúkar til hægri – Smellið fyrir stærri mynd

Við byrjuðum reyndar á því að tölta út á hraunið þar sem við áttum alveg eins von á að fiskurinn hefði bunkast upp í víkurnar í leit að æti. Annað hvort vorum við ekki á réttum slóðum, ekki með réttu flugurnar eða fiskurinn var bara hreint og beint ekki þar, þannig að við héldum til baka undir holtið og gerðum heiðarlegar tilraunir með ýmsar flugur. Það var ekki fyrr en veiðifélagi minn var kominn að litlum svörtum Nobbler í boxinu að fiskur tók.

Eins og mörgum öðrum veiðimönnum er farið, þá apaði ég eftir og hnýtti eins flugu á hjá mér. Já, það var greinilegt að þessi Nobbler var málið því eftir nokkur köst tók ég mjög svipaðan fisk, trúlega þann sama og hljóp á hjá frúnni. Þessi krúttlegi urriði fékk því enn annað tækifæri til að stækka aðeins, sjáum til hvort hann verði ekki kominn í matstærð þegar líður að hausti.

Á einhverjum tímapunkti þótti okkur líklegt að Kári væri þrotinn kröftum og ætlaði sér að setjast í helgan stein, þannig að við tókum okkur til og renndum aftur inn að Jónsbúð. Þar gerðum við nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að slæma flugum út á móti öldunni við Rifið, en án árangurs. Við færðum okkur því fljótlega sunnan á Rifið og veiddum inn í víkina gengt Jónsbúð. Sjálfur varð ég ekki var við fisk, en veiðifélaginn setti í þokkalega einsmáltíðs bleikju sem fékk síðar far með okkur til baka í bústaðinn.

Sem sagt; vindurinn var ekki vinur okkar á laugardaginn. Hitastigið var aftur á móti mjög ásættanlegt og flugan er komin á stjá við Hlíðarvatn í Hnappadal, þá fer þetta nú allt að koma. Já, fyrir áhugamenn um vatnshæðina, þá er hún í hefðbundnum gír miðað við árstíma, nokkuð hátt en það flæðir ekki yfir Rifið eins og stundum áður á þessum tíma.

Bleikjur í ferð
1 / 0
Bleikjur alls
1 / 3
Urriðar í ferð
1 / 1
Urriðar alls
2 / 3
Veiðiferðir
5 / 6

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com