Undanfarið hef ég verið að velta mér töluvert upp úr flækjustigi. Sannast sagna var ég kominn í töluverða flækju með þetta hugsanaferli mitt og hvarf því aðeins til baka í kollinum og hér á síðunni. Þannig var að ég var að fletta í gegnum eldri og gamlar færslur og sumt sem ég rakst á, fannst mér sannast sagna stangast eitthvað á við það sem ég hef síðar skrifað um. Nei, ég ætla ekki að detta í ritskoðun á eldri færslum, þær fá að standa eins og þær eru. Þegar þær eru lesnar í samhengi við það sem ég hef síðar skrifað, þá kemur vonandi í ljós einhver þroski og aukinn skilningur minn á fluguveiði.
Sumt gleymist með tímanum og eitt af því sem ég rifjaði upp var endalaust gláp mitt á myndband með þeirri góðu konu Joan Wulff. Í þessu myndbandi, sem ég hef illu heilli ekki fundið aftur í safninu mínu, fór hún í gegnum grunnatriði þess að kasta flugulínu án þess að vera með nokkurt einasta prik í hendinni, bara línuna. Það er frábær leið til að ná skilningi á því hvað þarf til að fá flugulínuna til að skjótast fram að sleppa stönginni og kasta línunni með berum höndum. Nú kann einhver að segja að þetta sé ekki mögulegt, það þurfi stöng til að hlaða línuna. Þetta er einfaldlega ekki rétt, stöngin er verkfæri sem við setjum í höndina til að hjálpa okkur við kastið. Þrátt fyrir að ýmsir segi, þar á meðal ég, að sumar stangir kasti næstum fyrir mann, þá þarf alltaf höndina til og það er alltaf höndin sem hreyfir stöngina. Ef hún hreyfist ekki rétt, þá verður kastið ekki heldur rétt.

Að kasta flugulínu með berum höndum hjálpar mikið til að ná skilningi á grunnatriðum flugukastsins. Það kallar á leikni að láta flugulínu renna fram með berum höndum. Þegar ég prófaði þetta fyrst, þá varð mér fljótlega ljóst að kraftur, afl og orka er ekki það sem hjálpar til. Snerpa, hröðun og stopp hjálpuðu mikið meira til að ná línunni út. Eftir smá tíma, kannski töluverðan, hafði ég náð þokkalegri leikni í þessu og færði línuna mína yfir á stöngina. Ég beitti sömu taktík, sama afli og þá fann ég hvernig stöngin hjálpaði til, tók við þar sem hendinni sleppti og skaut línunni lengra. Þetta dugaði mér til að byrja með og það var ekki fyrr en löngu síðar að ég sótti mér leiðsögn hjá kennara sem svo skemmtilega vildi til, sýndi mér einmitt hvernig átti að kasta línu með berum höndum.
Eins og ég tók fram hér í upphafi, þá finn ég því miður ekki umrætt myndband sem ég glápti svo oft á hérna um árið. En, ef þið eigið 45 mín. aflögu frá amstri hversdagsins, þá er örugglega hægt að eyða þeim við eitthvað asnalegra heldur en horfa á þetta myndband með Joan Wulff.
Senda ábendingu