Síðustu ár hefur það verið þannig að fyrsti fiskur ársins hefur komið á hjá mér í rennandi vatni. Já, það er ýmislegt sem maður lætur sig hafa þegar vötnin eru enn undir ís og þolið fyrir fyrstu ferð sumarsins nær mörkum óbærileikans. Það er ekki algeng sjón að sjá undirritaðan standa við einhverja á með prik í höndum, en það gerðist sem sagt í gær.
Þörfin til að geta komist frá, út og notið þess einfaldlega að vera, varð til þess að veiðifélagi minn tók völdin á fimmtudagskvöldið og bókaði tvær síðustu lausu stangirnar í Hólaá við Laugarvatn á föstudaginn. Veiðisvæðið er sagt vera 5-6 km. langt þannig að hver veiðimaður gat haft nærri því heilan km. á milli sín og næsta manns. Svolítið öfgafull 2ja metra regla, en allur er varinn góður.
Við vorum svo sem ekkert að stressa okkur af stað á föstudagsmorguninn, vorum ekki mætt á svæði Austureyjar fyrr en vel að ganga kl.11. Veðurspáin var alveg þokkaleg, rigning og rok, en auðvitað klikkaði hún og úr varð léttur úði og í versta falli hægur vindur. Eitt smáatriði áður en lengra verður haldið, ef þú ert ekki á 4×4 bíl, veldu þér bílastæði áður en þú kemur að drullupollaskorningunum undir Selholti. Það er mjög mikil bleyta á svæðinu og síðasti spölurinn á vegslóðanum er vægast sagt illa farinn.
Hvað um það, við töltum beint af augum með stefnuna á Leitisgil og reyndum fyrir okkur rétt fyrir ofan Hólmann. Þegar ég segi ‚reyndum fyrir okkur‘ þá var það nú aðallega ég sem reyndi, veiðifélagi minn var ekkert að eyða of mörgum köstum í þetta, setti í þennan feita og fallega urriða í þriðja kasti.
Það var töluvert líf á þessum slóðum, en eitthvað létu tökur bíða eftir sér hjá mér. Uppfullur af nákvæmum lýsingum og myndum þeirra flugna sem aðrir veiðimenn höfuð notað í Hólaá síðustu daga, þá apaði ég e.t.v. full mikið eftir þeim og var aðallega með dökkar, jafnvel biksvartar flugur undir. Ég er enginn snillingur í rennandi vatni og það, ásamt ömurlega litlum undirtektum við flugnavali mínu, varð til þess að hugsanir mínar urðu nærri jafn svartar og flugurnar. Eftir matar- og kaffipásu, og mér liggur við að segja þrjúhundruð þrjátíu og þrjú köst, kom þessi á hjá mér sunnan við Heimastanef eftir að ég hafði misst einn í naumri töku.
Þegar hingað var komið, þá hafði ég orðið mér úti um upplýsingar um flugnaval annarra veiðimanna sem voru á staðnum og höfðu náð miklu meiri og tíðari samskiptum við urriðana heldur en ég. Úr varð að ég sveiflaði flugnavali mínu til um nokkrar raðir í boxinu og valdi fluguna hér að neðan.
Við eltum vatnið nokkuð niður fyrir Lambabyrgistanga, en það var eins og lífsmörk fiska færu þverrandi því neðar sem við töltum þannig að við snérum við og enduðum aftur uppi við Hólmann þar sem við enduðum daginn í næði, úthvíld á sál og notalega þreytt á líkama.
Nú er það svo, að ég finn lítið fyrir keppnisskapi í veiði og þrátt fyrir að aðrir veiðimenn væru með þetta 3-8 fiska hver, þá var ég virkilega sáttur við þann eina sem ég náði. Spilar þar eflaust mikið inn í að þessi vetur hefur verið lengi að líða, leiðinlegur hvað varðar veður og svo bættist þessi árans veira við rétt áður en vorið átti að hefja innreið sína. Það er eiginlega eins og vorið hafi hlýtt Víði, haldið sig í ákveðinni fjarlægð síðustu vikur en fer nú vonandi að slaka aðeins á og aflétta sjálfskipaðri einangrun sinni.
0 / 0
0 / 0
1 / 1
1 / 1
1 / 1
Senda ábendingu