Það er ekkert leyndarmál að ég af internet kynslóðinni. Í gegnum árin hef ég fyrsti og fremst leitað að svörum við spurningum mínum á netinu. Netið er minn salur. Ef salurinn hjálpar ekki, þá hringi ég í vin. Svona var þetta meira að segja orðið þegar ég byrjaði að hnýta við eldhúsborðið fyrir fjölda, fjölda ára.
Ég man reyndar ekki fyrir mitt litla líf hvað bókin hét sem ég náði mér í af stóru sameigninni á netinu þarna um árið, en ég man enn nokkrar leiðbeiningar úr henni og þær komu sér ágætlega þegar ég gaufaðist þetta við mínar fyrstu flugur.
Eitt það sem höfundur bókarinnar ráðlagði með orðum sínum, var að byrja að hnýta stórar flugur. Ég fór gaumgæfilega yfir þá króka sem fylgdu fyrsta hnýtingarsettinu mínu og sá torkennilegar tölur á boxunum; #10 og #14. Ég var nú eiginlega alveg viss um að þarna hefði einhverjum orðið á einhver mistök, hærra númerið var augljóslega minni krókur heldur en hin. Ég fletti til baka í netbókinni og sá mér til skelfingar að lægra númer á krókum táknar minni krók. Hvaða bölvaða vitleysa er þetta, hugsaði ég með mér og klemmdi krók #10 í þvinguna og byrjaði á minni fyrstu flugu.
Það var ekki fyrr en ég var nærri búinn með þessi 25 stk. af krók #10 að ég vogaði mér að opna hitt boxið. Allan þennan tíma var ég samviskusamlega búinn að halda mig við annað ráð sem ég fann í bókinni. Fluguhnýtingar eru langhlaup, ekki taka strax á sprett, þetta kemur allt með æfingunni. Trúr þessum leiðbeiningum hélt ég sama hraða við þessa agnarsmáu krókar #14 og hnýtti heil ósköp af Peacock og Pheasant Tail til viðbótar.
Rétt eins og í þessum fræga spurningarþætti, þ.e. Viltu vinna milljón þá nýtti ég mér síðasta valkostinn óspart þegar ég fór að lokum yfir þessar 50 fyrstu flugur mínar. Ég tók út tvö röng svör af hverjum fjórum sem ég hnýtti. Þessi röngu svör dundaði ég mér síðan við að afklæða og hnýta upp á nýtt, ég ætlaði sko ekki að kaupa einhverja 25 króka á meðan flugurnar mínar litu svona illa út. Það var svo með tíð og tíma að flugurnar mínar tóku á sig einhverja mynd sem var fiskum bjóðandi og ég þorði að láta fyrir augu annarra. Kannski hafa flugurnar mínar lítið skánað síðan þá, en ég er í það minnsta ekki spéhræddur lengur og leyfi öllum að sjá sem vilja.
Senda ábendingu