Mér hefur stundum verið legið á hálsi að fara fjallabaksleið að hlutunum. Þetta má alveg til sannsvegar færa, en ég hef þá mínar ástæður og stundum sé ég ekkert endilega ástæðu til að segja frá henni. Einhverju sinni var ég spurður að því á hnýtingarkvöldi, hvers vegna ég hnýtti sömu fluguna aldrei eins. Ég man ekki alveg hverju ég svaraði, en það var örugglega einhver hálfgerður útúrsnúningur. Á því augnabliki vildi ég bara halda ástæðunni fyrir mig.
Þannig er að þegar ég hnýti flugu í fyrsta skiptið, þá hnýti ég hana fyrst eins nærri hugmyndum höfundarins og mér er unnt. Í annað skiptið nota ég sömu hráefnin í hana, en hnýti þau með öðrum hætti. Í þriðja skiptið er ég vís með að skipta einhverju út, jafnvel tveimur efnum og nota eitthvað allt annað í staðinn, oftast eitthvað sem ég ræð betur við og þekki hvernig hagar sér þegar hnýtingarþráðurinn lendið á því.
Þetta gerir þrjár útgáfur, sú fjórða kemur síðan í kjölfarið þegar ég vel það besta úr þessum þremur eftir að hafa virt þær vandlega fyrir mér. Ég dreg enga dul á að ég vel gjarnan þá útgáfuna sem var mér einföldust í hnýtingu og ég er tiltölulega sáttastur við. Allt er þegar þrennt er, fullkomið í fjórða og það verður sú sem ég legg á borð fyrir fiskinn. Og svona rétt í lokinn, ég sé sjaldnast ástæðu til að upphefja endanlegu útgáfuna og skíra hana afbrigði af X, þetta er einfaldlega X eins og ég hnýti hana. Það eru náttúrulega til ýmsar reglur um afbrigðilegheit, meira að segja hvað maður verði að skipta út mörgum hráefnum til að geta kallar einhverja flugu afbrigði. Það situr í mér talan 3 þegar kemur að þessu, veit ekki alveg hvers vegna og eiginlega er mér alveg sama. Kannski kemur eitthvað meira um þetta síðar, hver veit nema það komi afrigði af þessari grein.

Senda ábendingu