Það eru ekki allir sem hafa ótakmarkaðan eða nægan tíma til þess að fylla á boxin sín í vetur. Því miður geta óþarfa hlutir og athafnir sem tengjast veiði ekki nokkurn skapaðan hlut stolið af þér tímanum sem annars færi í að fylla á boxin. Það eru til ýmsar leiðir til að flýta fyrir því að ná að fylla á boxin, sumar góðar og gildar á meðan aðrar eru beinlínis bara kjánalegar.
Byrjum á kjánalegu leiðunum, fyrst þeirri sem ég leyfi mér að úthluta þeim vafasama heiðri að vera sérlega kjánaleg; slepptu því bara að hnýta og keyptu áfyllingu á boxið þitt. Einmitt, og missa af öllu gamninu? Ég segi nú ekki meir.
Önnur kjánaleg leið sem útvöldum veiðimönnum stendur til boða er aðeins kjánaleg að hálfu leiti; fáðu góðan vin til að hnýta fyrir þig. Þessi leið er aðeins kjánaleg fyrir annan/annað ykkar, þig. Sá sem hnýtir fyrir þig græðir alla ánægjuna og fær ómælda útrás fyrir sköpunargleðina á meðan þú getur bara notið þess að raða flugunum í boxið þitt þegar þær eru tilbúnar. Ill skárri kjánakosturinn ef þú átt ekki eina einustu stund aflögu til að hnýta sjálfur.
En það eru til nokkrar raunhæfar leiðir til að flýta aðeins fyrir áfyllingu fluguboxanna. Fyrst skal telja öruggu leiðina. Hún fellst í því að velja þér flugur sem þú þekkir vel, hefur hnýtt áður og hefur þokkalegt vald á að hnýta. Með öðrum orðum, nærð upp ágætum hraða og afkastar einhverjum tugum stykkja á góðu kvöldi í stað þess að eyða helmingi tímanns í að skoða uppskriftir að nýjum flugum eins og þeim sem finna má á þessari síðu.
Svo má líka stytta sér leið, sleppa einhverjum smáatriðum í flugunni sem taka óþarflega langan tíma. Þótt flugan sé ekki alveg 100% eins og höfundur hennar hefur ætlað henni, þá er alls ekki þar með sagt að hún veiði neitt síður. Stundum er einfaldara líka miklu betra. Ef þú trúir mér ekki, prófaðu að skera aðeins niður í hráefninu, sleppa þessu erfiða og stytta þér jafnvel leið með því að nota tilbúið búkefni í stað þess að vefja hverju laginu á fætur öðru til að ná ákveðnu þvermáli eða útliti.
Að herma eftir Henry Ford er líka góð leið til að auka afkastagetuna í hnýtingum, búðu til færiband. Þetta er kannski einfaldasta leiðin til að spara tíma, en mér finnst hún ekkert endilega skemmtileg. Þessi leið fellst í því að taka til það hráefni sem þú þarft í allar þær flugur sem þú ætlar að hnýta af ákveðinni tegund og raða á borðið. Svo kemur að partinum sem mér finnst svo leiðinlegur; byrjaðu á því að setja kúlu á alla krókana sem þú ert búinn að taka til. Næst þekur þú hvern krókinn á fætur öðrum með hnýtingarþræði og festir niður skottið. Þar næst tekur þú dub efnið eða burstann og festir niður við skottið á öllum flugunum. Þá fyrst er komið að því að taka búkefnið, festa það niður og vefja fram að kúlunni, hverja fluguna á fætur annarri. Og þannig heldur þú áfram þar til þú ert kominn með allar flugurnar tilbúnar, alltaf sama handbragðið þangað til þær eru allar tilbúnar á svo til sama tíma. Einhverra hluta vegna finnst mér alltaf skemmtilegra að setja fullbúna fluguna í svampinn eða korktappann áður en ég byrja á þeirri næstu.
Svo er það reyndar þetta með þörfina á fjölda flugna, stundum er hún svolítið heimatilbúin og aðeins til í kollinum á mér. Það hefur alveg komið fyrir að ég hef hnýtt einfaldaðar útgáfur af flugu og þá aðeins í takmörkuðu upplagi til að prófa. Að vera með einfalda flugu í farteskinu sem virkar, það gefur alveg færi á að vera með einmitt hráefnið í hana í hnýtingartöskunni og taka hana með sér í veiðiferðina. Þá getur maður smellt í þær flugur sem vantar á örskotsstund, næstum sama hvar maður er.
Senda ábendingu