Flýtileiðir

Sagan af Moppunni

Ein af þeim flugum sem hafa skotist upp á stjörnuhimininn í fluguveiðinni er Moppan eða The Mop Fly sem kom fram á sjónarsviðið undir lok síðustu aldar vestur í Bandaríkjunum. Flestir veiðimenn og hnýtarar þekkja þessa flugu í einhverri þeirri mynd sem hún hefur tekið á sig frá því hún kom fyrst fram. Höfundur flugunnar er Jim Estes sem búsettur var á þeim tíma í Norður Karólínu. Að sögn er Jim sérstaklega uppátækjasamur hnýtari, fer ótroðnar slóðir og leitaði hráefnis á ólíklegustu stöðum. Efnið í Moppuna fann hann í s.k. Dollarstore, fannst það spennandi og prófaði það þegar heim var komið.

Upphaflega hnýtti Jim þessa flugu í ljósgrænum lit til að líkja eftir s.k. Sourwood ormi sem er algengur austanvert í Bandaríkjunum. Vissulega voru til nokkrar eftirlíkingar af þessum ormi í flugulíki, en Jim þótti þær óþarflega flóknar í hnýtingu og leitaði leiða til að einfalda hana. Það má fullyrða að mikið einfaldari gæti flugan ekki orðið.

Það er ákveðin tenging á milli Squirmito flugunnar og Moppunnar, þótt mörgum finnist sú tenging heldur léttvæg. Báðar falla þær í þann flokk sem höfundar þeirra kalla Trash flies eða Rusl-flugur, þ.e. þær eru hnýttar úr efni sem finnst víða og er ekkert sérstaklega ætlað til fluguhnýtinga, gjarnan eitthvað sem verður afgangs eða er ónýtt til sinna upprunalegu nota. Annað eiga þær sameiginlegt, þær hafa báðar lent á milli steins og sleggju þegar kemur að kærumálum í fluguveiðikeppnum, reyndar þeirri sömu með nokkurra ára millibili.

Sjálfur var ég fyrir mörgum árum afar trúr þessari flokkun flugunnar, þ.e. að hún væri rusl-fluga og hnýtti hana úr þykkum pípuhreinsara sem mér áskotnaðist sem afgangar einhvers föndurs á mínu heimili. Illu heilli voru þessir pípuhreinsarar aðeins í æpandi rauðum, bláum og grænum litum og ég veiddi aldrei neitt á þær flugur. Minni afbrigði sem ég hnýtti úr venjulegum pípuhreinsurum gáfu mér jafn marga fiska. Það er greinilega ekki sama hvaða rusl maður notar.

Eftir að flugan komst í hámæli og naut sífellt meiri og meiri vinsælda, þá urðu uppgrip í moppubransanum í byggingavöruverslunum vestan hafs. En það leið töluverður tími þar til þekktir fluguframleiðendur bitu á agnið. Nokkrir þeirra vildu hreint ekki sjá þessa flugu í sínum röðum, höfðu enga trú á þessari local flugu frá Karólínufylki. Það var ekki fyrr en löngu síðar að þessir framleiðendur tóku fluguna upp á sína arma og hófu framleiðslu og sölu á henni. Þeirra á meðal voru Umpqua og Montana Fly Company sem þannig misstu af mesta æðinu, en selja hana í dag í fjölda útfærslna.

Moppan líkir ágætlega eftir lirfu- og púpustigi fjölda skordýra og er hreint engin local fluga vestur í Bandaríkjunum lengur. Í dag finna hnýtarar hráefnið í þessa flugu í vel flestum verslunum, þar á meðal byggingavöruverslunum þar sem hægt er að kaupa lífstíðar lager af moppuþráðum, meira að segja í nokkrum mismunandi litum í einni og sömu moppunni. Nokkrir minni framleiðendur skúringamoppa brugðust við aukinni eftirspurn á sínum tíma og tóku upp á því að blanda saman bómullar- og fiberþráðum í ýmsum litum í moppurnar sínar og juku þannig sölutölur verulega. Það má því segja að moppuframleiðendur hafi stutt við bakið á hnýturum löngu áður en framleiðendum hnýtingarefnis datt í hug að bjóða staka moppuþræði til hnýtinga.

Í dag finnst þessi fluga í öllum mögulegum litum og útfærslum og kjaftasagan segir að þeir sem eiga lager af þessum flugum þurfi aldrei að kvíða aflatregðu.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com