Flýtileiðir

Sagan af Squirmy

Gamlar fréttir geta verið skemmtilegar, sérstaklega þegar maður les þær sem nýjar í dag. Ég var eitthvað að gauka á netinu í haust í leit að ítarefni fyrir smá greinarstúf sem ég var með í smíðum og þá datt ég niður á frétt um meintan vafasaman sigur Bandaríska unglingalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í fluguveiðum. Greinin fjallaði um yfirburðastöðu liðsins sem talin var felast í Squirmy Wormy. Sitt sýndist hverjum um þessa flugu og það hvort leyfa hefði átt liðinu að nota þessa óþekktu jaðar-flugu. Ég staldraði aðeins við þessa athugasemd og fannst hún svolítið einkennileg, hafa ekki allir séð þessa flugu? Var hún ekki afhjúpuð á Íslandi sem leynivopnið árið 2018? Haldið ykkur nú fast; þessi grein sem ég var að lesa var frá árinu 2014 og þá hafði þessi umdeilda fluga þegar verið í fluguboxum veiðimanna í Norður Karólínu í á fjórða ár.

Nú verð ég að játa að ég tengdi ekki alveg strax að ég hef um árabil fylgst með höfundi þessarar flugu án þess að gera mér grein fyrir því sérstaklega. Þessi hnýtari, kastkennari, leiðsögumaður og fyrrum ambassador Orvis heitir Dave Hise, á og rekur Casters Flyshop vestur í Bandaríkjunum og hefur sent frá sér fjölda greina, skrifað í félagi við aðra nokkrar bækur og bæklinga um fluguveiði. Á sínum tíma, upp úr 2010 fór Dave ekkert sérstaklega leynt með tilraunir sínar með gúmmíteygjur og úr varð flugan Squirmito sem sver sig heldur betur í ætt San Juan orma sem Dave hefur útfært á ýmsa vegu. Dave hefur það orð á sér að vera einhver framsæknasti hnýtari vestan Atlantsála og fer gjarnan ótroðnar slóðir í hnýtingum og sjálfur telur hann sig vera ókrýndan konung Trash flies og vísar þar til áráttu sinnar að nota óhefðbundið efni í flugur, eins og t.d. að rekja upp gúmmíbolta og nota teygjurnar úr honum í flugu, þannig varð Squirmito til. Hvenær farið var að nota heitið Squirmy Wormy veit ég ekki, ég veit bara að Dave stendur nákvæmlega á sama um nafn flugunnar og hefur ekki gert minnstu tilraun til að sækja um einkaleyfi á henni, frekar en nokkurri annarri flugu sem hann hefur soðið saman.

Notkun flugunnar sprakk út í Evrópu eftir kæru Tékkneska landsliðið sem fór fram á að flugan yrði bönnuð í veiðikeppnum eftir fárið sem hún olli 2014. Sjálfur varð ég ekki var við þessa flugu hér heima fyrr en árið 2017 hjá nokkrum framúrstefnuhnýturum sem voru til í að prófa allt.

Svona flugur koma reglulega fram, flugur sem sprengja samfélagsmiðla og veiðiblogg. Menn skiptast í andstæðar fylkingar, með og á móti. Sumir beinlínis elska að hata þessa flugu, telja hana ómerkilega gervibeitu sem eigi ekkert skylt við flugur eins og þær eiga að vera. Aðrir benda á að það sé ekki til neinn staðall yfir flugur, allt sé leyfilegt og ef fluga veiðir, þá sé ekkert sem heitir að banna hana eða hægt sé að banna mönnum að kalla kvikindið flugu. Það er svo allt annar handleggur hvort mönnum þykir þessi fluga falleg, veiðileg eða yfir höfuð fiski bjóðandi. Hún er í það minnsta mjög óhefðbundin, en þó ekki. Eins og áður er getið, þá var höfundur hennar að leika sér að San Juan orminum þegar hún varð til og hún sver sig alveg í þá ætt.

Það verður samt ekki af þessari flugu tekið að hún virkar mjög vel undir vissum kringumstæðum, að sögn. Vissar kringumstæður eru reyndar mjög teygjanlegt hugtak (ég bara varð að nota þetta hérna). Flugan er frekar auðhnýtt og afar einföld í uppbyggingu, nokkuð sem fellur fiski yfirleitt vel í geð. Og þegar talað er um fiskinn, þá sverja margir veiðimenn að hún virkar í allan fisk; silung og lax.

Einhverra hluta vegna byrjuðu íslenskir veiðimenn helst á að nota þessa flugur í straumvatni en reyndu hana lítið í vatnaveiði. Kannski eru veiðimenn í straumvatni einfaldlega nýjungagjarnari heldur en íhaldssamir vatnaveiðimenn, en upphaflega var hún nú meira notuð í vötnum Norður Karólínu heldur en straumvatni. Þrátt fyrir allar deilur sem þessi fluga hefur valdið, þá eru nú mestar líkur á að hún teljist orðið til flugna og veiðimenn eru væntanlega hættir að pukrast með hana, meira að segja innan um hreintrúarmenn í fluguhnýtingum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com