Flýtileiðir

Klekjur

Byrjum á því að útskýra þetta orð; klekjur. Orðið varð ofaná þegar ég skaut hjálparbeiðni út á veraldarvefinn yfir smellna þýðingu á enska orðinu emerger. Ég hef afskaplega lítið íslenskubit yfir því að notast við þetta smellna orð, því það er þá jafnt á komið með því og enska orðinu; hvorugt finnst í orðabókum. Merking orðsins vísar til skordýra sem eru alveg við það að klekjast út sem fullvaxta skordýr.

Klekjur eru hvorki ákveðin tegund skordýra né skilgreint lífsstig þeirra í líffræðilegum skilningi. Í þeim skilningi sem mig langar að leggja í orðið nær það yfir þetta stutta skeið og atferli þegar púpur ýmissa skordýra rísa upp að yfirborði vatnsins til að taka á sig síðustu myndbreytinguna, þ.e. að verða að fullvaxta einstaklingi. Veiðiflugur sem líkja eftir þessu atferli geta verið af öllum mögulegum tegundum; straumflugur, votflugur, púpur og þurrflugur. Allar flugur sem hægt er að veiða á eða rétt undir yfirborði vatnsins geta sem sagt talist vera klekjur.

Það að setja hér niður nokkur orð um klekjur eru engin stórkostleg vísindi, þetta fyrirbrigði hafa veiðimenn þekkt frá því fyrstu veiðiflugurnar komu fram. Klassískar votflugur eru t.d. alveg tilvaldar klekjur, ekki síst þegar þær eru s.k. soft hackle þar sem mjúkt hringvafið leggst aftur með búkinum og tifar í vatninu, rétt eins og púpa skordýrs sem er að brjótast upp að yfirborðinu.

Black Pennell – softhackle

Reyndar eru alls ekki allar púpur sem brjótast eitthvað um á leið sinni upp að yfirborðinu. Sumar þeirra eru ósköp rólegar á leiðinni, líða bara áreynslulaust upp að yfirborðinu og reyna að láta sem minnst fyrir sér fara. Þegar þannig ber undir getur verið óhætt að eiga léttar púpur í boxinu, t.d. óþyngt Héraeyra eða Killer Bug.

Héraeyra
Killer Bug

En hvaða skordýr eru það sem haga sér svona? Jú, það má eiginlega segja að öll skordýr sem taka fullkominni myndbreytingu taki sig til á púpustiginu og rísi upp að yfirborðinu til að taka síðustu myndbreytingunni. Þeirra á meðal eru algengasta silungafæðan hér á landi, vorflugur og mýflugur. Fæst skordýr sem taka ófullkominni myndbreytingu staldra svona við á leið sinni upp á yfirborðið því þau breytast beint úr gyðlu í fullvaxta flugu. Þeirra á meðal eru steinflugur og dægurflugur.

Klekjur halda sig mest á innan við 15 cm dýpi í vatninu og það er því um að gera að veiða þessar flugur með flotlínu, taum í góðu meðallagi ( 9 fet ) og stilla inndráttinn af miðað við þær púpur sem eru á ferðinni. Meira um það síðar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com