Hversu oft þarf fluga að veiða?

Stutta svarið við þessari fyrirsögn er kannski; alltaf, en það er ekki alveg það sem ég er að velta fyrir mér núna. Ég var að velta fyrir mér þrautreyndum flugum sem hafa áunnið sér sess sem klassískar flugur sem allir þekkja og mjög margir nota. Hversu oft þarf ný fluga að veiða þannig að hún falli í hóp þeirra klassísku?

Það er ógrynni af flugum sem koma fram á sjónarsviðið á hverju ári. Þegar ég segi nýjum flugum, þá eru raunar margar þeirra gamlar flugur í nýjum fötum. En annað slagið kemur fram fluga sem slær í gegn í skemmri eða lengri tíma og allir eru með þá flugu í boxinu. Því fleiri sem taka hana síðan úr boxinu og renna henni í alvöru fyrir fisk, þeim mun meiri líkur eru á að hún festi sig í sessi.

Hér heima eigum við nokkrar flugur sem hafa skapað sér þennan sess, þær er nánast hægt að finna á hverri blaðsíðu í veiðibókinni og allir kannast við þær. Vitaskuld hafa þessar flugur eitthvað fram að færa og þær hafa veitt vel, en hvað ef einhver hefði ekki sagt frá þeim og allir prófað? Þá væru þær leynivopn ákveðinna veiðimanna og aðeins útvaldir beittu henni. Það sem hjálpar flugu að verða klassísk er ekki síst orðspor hennar manna í millum. Áður fyrr voru það félagarnir í veiðifélaginu sem sáu um orðsporið, nú til dags er það útbreiðsla á samfélagsmiðlum sem ræður trúlega meiru um það hvort fluga nær fluginu eða ekki.

Higa’s SOS – original og rauð

Hérna um árið rakst ég á flugu á vef leiðsögumanns vestur í Bandaríkjunum sem mér fannst sérstaklega smekkleg. Ég setti mig í samband við viðkomandi og bað hann um uppskriftina að kvikindinu og leyfi að birta hana hérna á vefnum sem ég og gerði. Þetta var árið 2010. Ég veit ekki nema einhverjir hér heima hafi þá þegar verið búnir að koma auga á þessa flugu en hún náði töluverðu flugi, ekki síst eftir að Orvis setti hana í framleiðslu og seldi í bílförmum í vefverslun sinni. Flugan er vissulega veiðin, en ég efast um að hún hefði orðið jafn vinsæl og raunin er ef hún hefði ekki fengið töluverða umfjöllun á veraldarvefnum og þá er ég ekki að tala um FOS.IS Enn þann dag í dag er Higa‘s SOS ótrúlega vinsæl um allan heim og er fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem ein þeirra klassísku.

En ekki fá allar flugur jákvæða umfjöllun á netinu. Það jaðrar svið að sumar flugur og höfundar þeirra séu beinlínis slegnar af um leið og þær birtast. Eru jafnvel úthrópaðar fyrir að vera fölsun, eftiröpun eða bara beinlínis óboðlegar. Samt ná sumar þeirra töluverðri útbreiðslu. Kannski sannast hér hið fornkveðna; slæm athygli er betri en engin. Þrátt fyrir allt, þá held ég að það standi upp úr að fluga verður að hafa eitthvað til brunns að bera svo menn nenni að eyða einhverju púðri í hana á vefnum, hrósa eða lasta. Ef fluga fær athygli, þá eru mun meiri líkur á að einhverjir prófi hana og þá er hálfur björninn unninn.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com