Að því gefnu að Harry hefði ekki endanlega misst allan áhuga á að leita sér að flugustöng á sínum tíma, þá þætti mér ekki ólíklegt að hann ætti nú þegar miðlungs hraða stöng. Flestar fyrstu stangir veiðimanna eru medium action. Þetta eru stangirnar sem hlaða sig niður að miðju eða aðeins lengra. Þrátt fyrir að vera stífari heldur en slow action stangirnar, þá er nóg eftir af tilfinningu í stönginni þannig að veiðimaðurinn finnur vel fyrir fiskinum. Stífleikanum fylgir það einnig að maður finnur betur hvort línan hleður stöngina að einhverju marki sem er töluverður kostur, ekki satt.
Að þessu sögðu, þá er rétt að taka það fram að þessar stangir eru ekki á neinn hátt eyrnamerktar byrjendum eingöngu. Margir veiðimenn sem hafa frekar hægan kaststíl velja þessar stangir einfaldlega vegna þess að þær virka heilt yfir vel í púpuveiði, þurr- og straumflugur. Með bættum efnum og aðferðum við stangarframleiðslu, hafa þessar stangir öðlast nýtt líf. Þær nýrri hlaða sig jafnvel betur en áður, bjóða samt sem áður upp á sömu mýktina og leyfa veiðimanninum að finna vel fyrir jafnvel minnsta fiski.
Þeir veiðimenn sem hafa tamið sér hraðan kaststíl eru yfirleitt ekki sáttir við svona stangir, finnst þeir ekki ná nægri hleðslu úr þeim og kjósa heldur stífari stangir.
Senda ábendingu