Beðið eftir sumri

Sú grein sem hér fer á eftir er sú nýjasta sem fengið hefur að fljóta með í fylgiriti Veiðikortsins. Einmitt þessa daga er Veiðikortið fyrir 2020 að koma út og með því er að vanda fylgiritið margumrædda með haldgóðum upplýsingum um vötnin sem í boði verða næsta sumar og ýmsum öðrum fróðleik. Ég bíð alltaf jafn spenntur eftir Veiðikortinu og ekki síst fylgiritinu, það er eins og kortið færir manni staðfestinu þess að veturinn er ekki eilífur, það vorar á endanum.

Um það leiti sem nýtt Veiðikort kemur út, þá er maður þegar farinn að bíða eftir næsta sumri. Og ekki verður sú bið léttari þegar kortið góða kemur inn um lúguna og maður sér hvað stendur til boða næsta sumar.

Biðin eftir síðasta sumri var eiginlega sú lengsta sem um getur frá því ég byrjaði að nýta mér Veiðikortið. Hún hófst að venju í nóvember – desember og henni lauk ekki fyrr en mér þótti raunhæfara að bíða eftir góðu hausti. Þetta helgast væntanlega af því að ég er búsettur sunnanlands eða sunnan- og vestan veðraskila eins og norðlendingar og austfirðingar kölluðu það síðasta sumar.

Vorið lét aðeins bíða eftir sér en þegar loks rofaði aðeins til, kviknaði eins og venjulega vonarneisti veiðimannsins í brjósti mér. Fyrsti fiskur sumarsins kom sumardaginn fyrsta í bæjarlæknum, Hólmsá við Heiðmörk og þóttist ég þá himinn hafa höndum tekið og gott sumar væri í vændum. Illu heilli gerði síðan nokkurt vorhret, svo mjög að vonarneisti sumarsins var orðinn heldur lítil tíra þegar næsti fiskur kom loksins á land.

Svona er nú líf veiðimannsins stundum og ekki verður á allt kosið, hvorki í veðri né veiði. En þótt kreppi að í öðru, þá getur hitt komið skemmtilega á óvart. Brösugt veðurfar síðasta sumars virtist bara fara vel í bleikjurnar á Þingvöllum enda eru þær ekki óvanar vætu. Ekki er langt síðan veiðimenn höfðu örlítinn vott af áhyggjum af bleikjunni, en í sumar sem leið létu þær sér fátt um dómsdagsspár eða veðurfar finnast og gældu allhressilega við ástríðu veiðimanna, bæði í Þingvalla- og Úlfljótsvatni.

Hvað bleikjurnar gera næsta sumar er ómögulegt að geta sér til um, hvort sem þær eiga heima í Þingvallasveit, Grafningi eða vestur á Mýrum. Eitt er þó víst, ég er byrjaður að bíða og ég læt ekkert skemma þá bið fyrir mér og held áfram að blaða í gegnum Veiðikortabæklinginn og læt mig dreyma.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com