Flýtileiðir

Í faðmi vatna og vina

Árið 2015 birtist greinin hér að neðan í fylgiriti Veiðikortsins. Þetta var í raun þriðja árið sem grein eftir mig kom í fylgiritinu, árið 2014 var greinin frá 2013 endurbirt.

Á síðustu árum hefur orðið mikil fjölgun í hópi þeirra sem stunda vatnaveiði á Íslandi. Margir sem áður lögðu stund á lax- og silungsveiði í ám hafa snúið sér að vatnaveiði en nýliðun í hópi silungsveiðimanna hefur einnig verið töluverð.

Yngra fólk skynjar í auknu mæli mikilvægi þess að eyða frítíma fjölskyldunnar saman úti í náttúrunni og þá kemur vatnaveiðinn sterk inn. Víðast hvar gefst veiðimönnum kostur á að setja niður tjald eða ferðavagn við eða í næsta nágrenni við vinsæl veiðivötn þannig að auðveldlega má slá saman útilegu og veiði. Sé þess gætt að yngstu veiðifélagarnir hafi í nógu að snúast og leiðist aldrei má auðveldlega eyða heilli helgi við veiðar, náttúruskoðun og leiki.

Lengi vel hefur þess leiða misskilnings gætt að stangveiði sé eitthvert sérstakt karlasport, en því fer víðs fjarri. Raunar er það svo að elstu heimildir frá dögum forn Egypta geta þess að það voru konurnar sem fóru til veiða að loknum annasömum degi á meðan karlarnir drógu sig afsíðis og drógu annars konar fiska, ýsur. Hvort sem það þekktist ekki eða þótti ekki viðeigandi, þá fer fáum sögum af hjónum í stangveiði hér áður fyrr. Það er ekki fyrr en um miðja síðustu öld að við sjáum myndir og lesum frásagnir af hjónum sem stunda stangveiði saman og þá helst þekktum pörum; kvikmyndaleikarar, forsetahjón eða frumkvöðlar í fluguveiði eins og Wulff hjónin.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun sem gerð var meðal borgarbúa vestan hafs kom í ljós að langsamlega flestir kjósa að eyða frítíma sínum og fjölskyldunnar við eitthvert eftirtalinna; stangveiði, útilegu, göngur eða hjóla- og bátsferðir. Því miður varð ekki nema þriðjungi fólks að ósk sinni, aðallega vegna skorts á tækifærum til slíkra athafna. Það er því öfundsvert hve auðvelt aðgengi við Íslendingar eigum að hreinni og tærri náttúru þar sem stunda má allt þetta, jafnvel á einum og sama staðnum. Göngugarpurinn getur sett nesti í mal og arkað af stað með veiðistöngina þangað sem augað dregur hann og ungviðið getur gert hvern þann hól og klett sem fyrirfinnst í nágrenninu að ævintýrakastala og vettvangi óendanlegra hetjudáða á milli þess að bleyta færi í vatni.

Margir þeirra sem gefið hafa eftir í kaupum á dýrari stangveiðileyfum hafa óvænt komist að því að góður veiðifélagi hefur staðið þeim við hlið um árabil án þess að gefa sig fram. Því hefur það færst mjög í aukana að hjón finni sameiginlegt áhugamál þar sem stangveiðin er. Þegar um hægist, ungviðið komið á legg eða nennir ekki lengur að fara með gamla settinu í útilegur, þá geta pörin farið að blómstra saman í veiðinni. Lengi getur lífsförunauturinn komið á óvart og sýnt á sér nýjar hliðar.

Skv. framangreindri könnun eru ríflega 60% aðspurðra meira en til í að fara á stefnumót með maka sínum í veiðiferð og þá er aðeins tekið tillit til þeirra sem ekki stunda veiði nú þegar. Eins og þeir þekkja sem reynt hafa, þá er vatnaveiðin tímalaus afslöppun í þeim skilningi að tímapressa er miklu minni við vatnið heldur en í dýrari veiði. Fyrir svo utan það að fleiri dagar gefast á mun minna verði. Að geta látið sig hverfa úr amstri hversdagsleikans, komið sér fyrir við vatnsbakkann með þeim aðilanum sem maður þekkir hve best í lífinu og bara notið þessa að vera til, það eru ólýsanleg forréttindi.

Að samstilla væntingar og veiðiferðir við einhvern sem er manni jafn nákominn og maki manns er vitaskuld miklu einfaldara heldur en einhvern sem fyrst þarf að samstilla sig við sína fjölskyldu. Veiðilífið er bara svo miklu einfaldara ef veiðifélagi er manns besti vinur í lífinu, heima og að heiman. Svo má ekki gleyma því að samvera á veiðislóð tryggir sambandið, útiveran styrkir heilsuna og náttúran fyllir andann. Góða veiði í sumar og njótið.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com