Ég er nú ekki þannig búinn í veiðinni að ég eigi stöng eða stangir með verðmiða sem telur 6 tölustafi, en ég reyni að hugsa vel um þær stangir sem ég á. Raunar stend ég mig að því að hugsa ekki alveg nægjanlega vel um þær, en það er önnur saga og tengist allt öðru en því sem ég er með í huga núna.
Ég hélt svei mér þá að engum veiðimanni dytti í hug að geyma stöngina sína á milli ferða í einhverju öðru en hólkinum sem fylgdi henni, sérstaklega ef um dýrari stöng væri að ræða. En, svo má manninn lengi reyna að ekki komi eitthvað nýtt fyrir sjónir, sérstaklega þegar skyggnst er inn í bílskúra. Flottur skúr, allur í drasli að vísu, eiginlega úði og grúði af öllu mögulegu þarna inni, það sá maður þegar mesta rykið sjatnaði eftir að hurðin var opnuð. Mér datt eitt augnablik í hug að það væri eins gott að eigandinn ætti ekki kött, sá hefði getað fótbrotið sig í öllu draslinu á gólfinu. Ég held að ég sé búinn að draga upp ákveðna mynd af þessum skúr, en það vantar samt eitt. Í vegg, baka til í skúrnum, ofan við ruslahrúgu sem helst minnti á jökulruðning við rætur Svínafellsjökuls, höfðu nokkur hvítmáluð steypustyrktarjárn verið reknir í vegginn. Á þessum teinum hvíldu nokkrar Sage von Orvis d‘Loop stangir, samsettar með hjólum og öllu.

Nú veit ég fyrir víst að þessi virti stangaframleiðandi afhendir allar sínar stangir í hólkum, meira að segja nokkuð vönduðum hólkum. Það er mér enn hulin ráðgáta hvers vegna þessi annars ágæti skúreigandi geymir ekki stangirnar sínar í þessum hólkum í stað þess að láta þær skrölta á beru steypustyrktarjárninu. Ég get svarið það að ég heyrði þær skoppa þegar hann skellti bílskúrshurðinni eftir að hafa fiskað eitthvað dót upp af gólfinu. Hefðu stangirnar skoppað fram af járninu, þá hefðu þær lent í jökulruðninginum fyrir neðan og trúlega horfið þar að eilífu.
Neibb, frekar vil ég geyma stangirnar mínar í hólkunum á tryggum og öruggum stað þar sem þeim er ekki hætta búin af náttúruhamförum.
Senda ábendingu